"Við í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði hugsum til barnanna okkar og um framtíðina."

ÞAÐ setti ugglaust marga hljóða þegar heyrðist af afdrifum einnar breytingartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í meðförum hins háa alþingis. Breytingartillagan gekk út á að jafnrefsivert væri að kaupa vændi og að selja vændi. Ekki datt mér í hug að þetta væri torsótt mál á okkar tímum, en annað kom á daginn.

Síðustu fjögur árin, eða þann tíma sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur átt fulltrúa á alþingi, hefur Kolbrún Halldórsdóttir lagt fram tillögu þess efnis að kaup vændis yrðu gerð refsiverð. Málið hefur ávallt verið svæft í nefnd. 10. mars studdu einungis 9 þingmenn þá breytingartillögu Kolbrúnar við stjórnarfrumvarp að það skyldi vera saknæmt að kaupa vændi. Auk allra þingmanna VG, voru það þau Guðjón A. Kristjánsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir. Aðeins tveir þingmanna Samfylkingarinnar telja það saknæmt að kaupa vændi. Hvar er jafnréttið?

Það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tregðist við tillögum þess efnis að það sé lögbrot að kaupa vændi kemur ekki á óvart. Frjálshyggjuflokkar víða um heim vilja að frelsi mannsins vaxi og dafni og það að kaupa sér blíðu annarrar manneskju sé þannig sjálfsagður réttur hvers og eins. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn eru frjálslyndir í þessum skilningi og því mátti búast við þessari afstöðu af þeirra hálfu. Samfylkingin hefur í mörgum málum básúnað að hún standi fyrir jafnrétti, kvenfrelsi, jöfnuði og bótum á réttarkerfinu. Síðustu vikurnar hefur flokkurinn komið þjóðinni fyrir sjónir sem enn einn miðjuflokkurinn. Það skyldi þó aldrei vera að Samfylkingin boði ýmislegt í orði en skorist undan þegar á hólminn er komið?

Hvar voru konurnar á alþingi, kynnu margir að spyrja sig þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er skoðuð. Réttara er þó að spyrja: "Hvar voru þeir sem hafna klámvæðingunni, mansali og niðurlægingu milljóna manna og kvenna út um allan heim?" Samfylkingin vék sér undan þeirri ábyrgð sem felst í því að taka af skarið þegar á hólminn er komið. Forvitnilegt væri að spyrja sig hvers vegna það sé. Er það af ótta við að tapa nýfengnum vinsældum í skoðanakönnunum? Það er staðreynd, eins undarlega og það hljómar, að fjöldi manna telur það ósvífni og bera vott um forræðishyggju að vera á móti klámvæðingunni og óheftu frelsi til allra athafna. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur ekki látið af sannfæringu sinni og baráttuaðferðum. Við lítum svo á að skýr stefna sé heiðarlegust og eðlilegust gagnvart kjósendum okkar. Kjósendur VG vita hvað þeir eru að kjósa.

Við í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði hugsum til barnanna okkar og um framtíðina. Við sjáum heiminn í víðara samhengi en svo að við bindum trúss okkar við prósentur í skoðanakönnunum. Kjósendur vita hvar þeir hafa okkur. Við berjumst fyrir víðsýni og jafnrétti á borði en ekki aðeins í orði, og við hikum ekki við að standa ein upp og mótmæla óréttlæti og misrétti - þrátt fyrir að sumir kjósi að kalla það "að vera á móti öllu". Það er því ljóst að aðeins er um einn vinstriflokk að ræða og því ætti valið að reynast kjósendum auðvelt í vor.

Eftir Grím Atlason

Höfundur er þroskaþjálfi og skipar 4. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður.