3. apríl 2003 | Viðskiptablað | 255 orð | 1 mynd

Milljarða kostnaður vegna krónunnar

Þorsteinn Þorgeirsson
Þorsteinn Þorgeirsson
ÞORSTEINN Þorgeirsson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, sagði á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í gær að fjármagnskostnaður fyrirtækja og heimila vegna krónunnar næmi tugum milljarða króna á ári, vegna hærri vaxta hér á landi en í viðskiptalöndunum.
ÞORSTEINN Þorgeirsson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, sagði á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í gær að fjármagnskostnaður fyrirtækja og heimila vegna krónunnar næmi tugum milljarða króna á ári, vegna hærri vaxta hér á landi en í viðskiptalöndunum. Erindi hans bar yfirskriftina Hvað kostar íslenska krónan?

Þorsteinn bar saman svokallaða raunstýrivexti í viðskiptalöndum og á Íslandi, en raunstýrivextir eru stýrivextir að frádregnum verðbólguvæntingum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að síðustu átta ár hefðu þessir raunstýrivextir verið að meðaltali 2,5 prósentustigum hærri hér en í viðskiptalöndum. Að viðbættu 1% fákeppniálagi sem Þorsteinn gaf sér nam þessi munur því 3,5% að meðaltali þessi ár.

60 milljarðar árið 2002

Samkvæmt útreikningum Þorsteins hefur þetta þýtt milljarða króna meiri fjármagnskostnað fyrir fyrirtæki og heimili í landinu, en ef notuð hefði verið önnur mynt. Á síðasta ári reiknast honum til að munurinn sé tæplega 60 milljarðar króna.

Þorsteinn sagði að kostnaðurinn við íslensku krónuna samsvaraði því sem ávinnast myndi með því að taka upp evru sem gjaldmiðil. "Með evrunni lækkar kostnaður í hagkerfinu. Aukið gagnsæi verður í verðlagningu og víðtækari samkeppni og hagræðing á markaði. Það verður varanleg vaxtalækkun og verðlagslækkun og samkeppnisgreinarnar styrkjast," segir hann.

Þá sagði Þorsteinn að með evrunni myndi stöðugleiki aukast. "Um 70% af viðskiptum yrðu ónæm fyrir gengissveiflum og áætlana- og samningsgerð yrði raunhæfari á grundvelli stöðugs gjaldmiðils. Þjóðhagslegur sparnaður, fjárfesting og útflutningur myndu líka aukast," segir hann, "niðurstaðan er því að framleiðslugeta myndi aukast og sjálfbær hagvöxtur um leið."

Hagvöxtur 0,4% meiri á ári

Þorsteinn sagði að varanleg aukning á hagvexti vegna evru myndi varlega áætlað nema 0,4% á ári, eða 10% á tveimur áratugum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.