ÞEIR vinna af kappi, mennirnir frá verktakafyrirtækinu Suðurverki, sem eru að grjótverja bakka Jökulsár á Breiðamerkursandi þessa dagana, en auk bakkanna gera þeir tvo þröskulda þvert yfir ána.
ÞEIR vinna af kappi, mennirnir frá verktakafyrirtækinu Suðurverki, sem eru að grjótverja bakka Jökulsár á Breiðamerkursandi þessa dagana, en auk bakkanna gera þeir tvo þröskulda þvert yfir ána. Þetta er mjög þarft verk og tímabært þar sem bakkar árinnar höfðu látið mikið á sjá í rigningum og stórflóðum sjávar í haust og vetur. Þegar tíðindamaður Morgunblaðsins átti þarna leið um fyrir skömmu voru þeir á góðri leið með fyrri þröskuldinn, en hann á að varna því að stórir jakar nái að fljóta niður ána og ef til vill skemma brúna. Grjótið í framkvæmdina er sprengt úr klöpp sem ekki alls fyrir löngu kom í ljós við hopun Breiðamerkurjökuls.