Maður sem virðist vera Saddam Hussein Íraksforseti gengur meðal mannfjölda úti á götu í Bagdad, í upptöku sem íraska sjónvarpið sendi út í gær. Ávarpi Saddams var einnig sjónvarpað í gær.
Maður sem virðist vera Saddam Hussein Íraksforseti gengur meðal mannfjölda úti á götu í Bagdad, í upptöku sem íraska sjónvarpið sendi út í gær. Ávarpi Saddams var einnig sjónvarpað í gær.
ÍRASKA ríkissjónvarpið sýndi í gær myndir af Saddam Hussein, forseta landsins, þar sem óbreyttir borgarar fögnuðu honum á götu úti. Bendir það og ávarp hans, sem sjónvarpið sendi út í gær, til þess, að hann sé á lífi.
ÍRASKA ríkissjónvarpið sýndi í gær myndir af Saddam Hussein, forseta landsins, þar sem óbreyttir borgarar fögnuðu honum á götu úti. Bendir það og ávarp hans, sem sjónvarpið sendi út í gær, til þess, að hann sé á lífi.

Á sjónvarpsmyndunum var Saddam í grænum einkennisbúningi innan um fagnandi fólk á aðaltorginu í al-Mansour-íbúðarhverfinu og virtust aðeins fáir lífverðir gæta hans. Brosti hann breitt og leyfði fólki að kyssa á hönd sér um leið og það hrópaði, að það ætlaði að fórna blóði sínu og sálu fyrir hann.

Bendir þetta til að Saddam sé á lífi og einnig ávarpið, sem sent var út í gær, en í því hvetur hann írösku þjóðina til að berjast af alefli gegn bandarískum hersveitum í grennd við Bagdad. Bandarískur embættismaður sagði að ávarpið benti til þess að Saddam hefði lifað af fyrstu loftárásina á borgina 20. mars því að hann virtist skírskota til atburðar sem varð eftir að stríðið hófst.

Í ávarpinu talaði Saddam um að "hugrakkur íraskur bóndi" hefði skotið niður bandaríska Apache-árásarþyrlu "með gömlu vopni" og heimildarmaður fréttastofunnar AFP í Washington sagði að svo virtist sem hann skírskotaði til atburðar sem varð 24. mars.

Í ræðunni sagði Saddam Hussein að innrásarliðið væri að nálgast borgarmúra Bagdad. "Ráðist á þá með afli trúarinnar hvenær sem þeir koma nálægt ykkur og veitið mótspyrnu, hugrökku Bagdad-búar. Með Guðs hjálp munið þið sigra og þeir bíða ósigur."

Áður en ávarpinu var sjónvarpað höfðu bandarískir embættismenn látið í ljósi efasemdir um að Saddam hefði lifað af fyrstu loftárásina í stríðinu, en hún var gerð á byggingu í Bagdad þar sem talið var að íraski leiðtoginn, tveir synir hans og fleiri nánir samstarfsmenn hans hefðu verið í fyrir rúmum hálfum mánuði.

Embættismennirnir höfðu leitt getum að því að allar sjónvarpsmyndirnar af Saddam, sem sýndar höfðu verið þar til í gær, hefðu verið teknar upp á myndband áður en stríðið hófst.

Eftir að ávarpið og myndirnar af gönguferðinni voru sýndar sagði Ari Fleischer, talsmaður George Bush Bandaríkjaforseta, að ekki skipti máli hvort þær væru ekta. "Í heildarmyndinni skiptir það í rauninni ekki máli því að hvort sem þetta er hann eða ekki eru dagar stjórnarinnar taldir," sagði Fleischer.

Roger Hardy, sérfræðingur breska ríkisútvarpsins, BBC, um Mið-Austurlönd, sagði að tilgangurinn með ávarpi Saddams hefði verið að sýna heiminum að hann væri enn á lífi og enn við stjórnvölinn og fá íbúa Bagdad til að snúa bökum saman vegna átakanna, sem væru í vændum.

Saddam sagður við góða heilsu

Utanríkisráðherra Íraks, Naji Sabri, sagði í gær í viðtali við BBC að Saddam Hussein væri við góða heilsu og stjórnaði enn landinu. Ráðherrann neitaði hins vegar að svara því hvort hann hefði séð forsetann nýlega. "Þú átt ekkert með að spyrja þessara spurninga," sagði hann.

Þótt bandarískir embættismenn hafi lýst vissum efasemdum um að hinn rétti Saddam hafi verið á ferð á myndunum frá Bagdad töldu aðrir sem vel til þekkja að þetta hafi verið forsetinn sjálfur en ekki tvífari. Þannig tjáðu Írakar, sem horfðu á útsendinguna ásamt fréttaritara BBC í Bagdad, honum að þeir væru sannfærðir um að þeir hefðu verið að horfa á Saddam Hussein sjálfan.

Ekki er ljóst hversu margir Írakar áttu þess kost að sjá útsendinguna, en sjónvarpssendingar íraska sjónvarpsins hafa ekki verið stöðugar.