Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðast við á setningarathöfn vorþings Samfylkingarinnar sem fram fór á Hótel Sögu í gær.
Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræðast við á setningarathöfn vorþings Samfylkingarinnar sem fram fór á Hótel Sögu í gær.
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á aðgerðir í menntamálum, jafnréttismálum og á endurskoðun skattkerfisins í stefnuræðu sinni á vorþingi Samfylkingarinnar, sem hófst í gær en í ræðu sinni kynnti hún helstu...
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á aðgerðir í menntamálum, jafnréttismálum og á endurskoðun skattkerfisins í stefnuræðu sinni á vorþingi Samfylkingarinnar, sem hófst í gær en í ræðu sinni kynnti hún helstu kosningastefnumál flokksins.

Ingibjörg Sólrún vék einnig að stríðinu í Írak í ræðu sinni og sagði: "Ég legg til að við látum það verða eitt okkar fyrsta verk í ríkisstjórn að taka Ísland út af lista "hinna staðföstu" og "viljugu" þannig að hin lágmæltu orð fái að gróa."

Pólitísk stórtíðindi fram undan

Vorþingið hófst með setningarávarpi Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, sem hvatti flokksmenn til dáða í komandi kosningabaráttu. Sagði hann að hjól gæfunnar snérust með Samfylkingunni sem legði fram nýja og ferska stefnu fyrir kjósendur. Össur sagði að fram undan væru pólitísk stórtíðindi og hvatti hann alla flokksmenn til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar til að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að forsætisráðherra í vor.

Gagnrýndi hann harðlega kosningaloforð forystumanna ríkisstjórnarflokkanna og sagði þau yfirboð sem myndu ýta undir spennu og óstöðugleika. "Þeir vilja að allir dagar séu nammidagar," sagði Össur. Hann sagði hins vegar stöðugleika vera kjörorð Samfylkingarinnar.

Létta undir með fjöl- skyldum með meðaltekjur

Í stefnuræðu sinni sagði Ingibjörg Sólrún m.a. að til að sanngirni og réttlætis sé gætt í íslensku samfélagi verði á næsta kjörtímabili að huga sérstaklega að þeim hópum sem hafi borið skarðan hlut frá borði í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattkerfi og velferðarþjónustu á síðustu árum. "Létta þarf undir með fjölskyldum sem eru með meðaltekjur en mikil útgjöld vegna barna og greiðslubyrði húsnæðislána og námslána. Þá hljótum við að gera atlögu að hinni nýju fátækt sem hér hefur fengið að þróast ýmist vegna aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Fátækt er ófyrirgefanleg í þjóðfélagi sem státar sig af því að teljast til hinna ríkustu í veröldinni.

Á þessu ári hefur ríkissjóður 60 milljörðum meira í tekjur en hann hafði á árinu 1994. Samt hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til að nýta svigrúmið í þágu þeirra sem höllustum fæti standa. Samt búa um 10 þúsund manns við fátækt á Íslandi," sagði hún m.a. í ræðu sinni.

Ingibjörg Sólrún sagði endurskoðun skattkerfisins nauðsynlega. "Hvað eftir annað hefur skattkerfinu verið breytt án þess að skeytt hafi verið um áhrifin. Eftir stendur skattkerfi sem er eins og gatasigti, sem einkennist af ójafnræði og óréttlæti, mismunar skattborgurunum og er að verða gróðrarstía fyrir skattsvik og svokallaða skattafyrirhyggju. Skattborgurunum er ekki gert jafnhátt undir höfði. Þeir eru dregnir í dilka eftir því hverjir þeir eru og hvernig þeir afla tekna sinna. Þeir sem afla tekna með vinnu sinni njóta engrar miskunnar hjá stjórnvöldum en þeir sem njóta hagnaðar af rekstri fyrirtækja sæta ívilnandi skattlagningu. Best eru þeir þó settir sem hafa tekjur af kaupum og sölum á verðpappírum, sem auk þess að borga lægri skatt en aðrir eru leystir undan því að greiða til sveitarfélags síns af tekjum sínum eins og aðrir borgarar.

Það var löngum talið við hæfi, og er svo víðast enn, að menn greiði til samfélagsins með hliðsjón af efnum og aðstæðum og því meira sem tekjur og efni eru betri. Svo er ekki lengur hér á landi. Nú eru þess fjölmörg dæmi að tekjuháir efnamenn greiði minna hlutfall tekna sinna í skatt en fólk með miðlungstekjur. Skattbyrði 600 tekjuhæstu fjölskyldna landsins er hlutfallslega lægri en skattbyrði hjóna með lélegar meðaltekjur," sagði hún.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún að verði Samfylkingin forystuafl í nýrri ríkisstjórn að loknum kosningum muni hún nota öll tækifæri sem gefast til að ná því fram að hlutur kvenna í stjórnunarstöðum hjá ríkinu verði stóraukinn, að kanna tafarlaust kynbundinn launamun hjá ríkinu og minnka hann um helming og vinna gegn fátækt kvenna m.a. með auknum barnabótum og afkomutryggingu.

Víðtækt samráð um samræmda hagstjórn

Ingibjörg Sólrún sagði Samfylkinguna hafa mótað skýra afstöðu til Evrópusambandsaðildar, ein íslenskra stjórnmálaflokka, og flokkurinn muni beita sér fyrir því að samstaða náist með stærstum hluta landsmanna um að freista aðildarsamninga sem samrýmist þjóðarhagsmunum og leggja niðurstöðu þeirra undir þjóðaratkvæði.

Hún sagði hagstjórn á komandi kjörtímabili verða vandasamt en ögrandi viðfangsefni. Samfylkingin muni beita sér fyrir því að víðtækt samráð verði haft á kjörtímabilinu um samræmda hagstjórn til að draga úr óæskilegum hliðarverkunum stóriðjuframkvæmda á útflutnings- og samkeppnisgreinar.

"Við stöndum andspænis sögulegu tækifæri í vor - tækifæri sem er miklu stærra en flestir gera sér grein fyrir. Allt frá 1931 hefur Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka haft yfir 30% fylgi í kosningum og hann hefur því deilt og drottnað, ráðið lögum og lofum. Sem betur fer aldrei einn, en vald hans er alls staðar undirliggjandi og löngu er orðið tímabært að jafnoki hans verði til í íslenskum stjórnmálum," sagði Ingibjörg Sólrún. "Gerum lokadaginn 11. maí að lokadegi þessarar ríkisstjórnar og höfum vistaskipti í stjórnarráðinu á vinnuhjúaskildaginn 14. maí," voru lokaorð hennar.