VARMÁRSKÓLI tekur um þessar mundir þátt í evrópsku samstarfsverkefni ásamt Belgíu, Ítalíu og Portúgal. Verkefnið felst í því að brúa það menningarlega bil sem er á milli landanna. Börnin í 4. og 5.
VARMÁRSKÓLI tekur um þessar mundir þátt í evrópsku samstarfsverkefni ásamt Belgíu, Ítalíu og Portúgal. Verkefnið felst í því að brúa það menningarlega bil sem er á milli landanna.

Börnin í 4. og 5. bekk í Varmárskóla fá að kynnast menningu hinna landanna ásamt því að fá tækifæri til að kynna menningu sína fyrir jafnöldrum sínum erlendis. Verkefnið kallast Comeníus-verkefnið og svipar mjög til Erasmus-skiptiverkefnis háskólanema. Comeníus á við grunnskólana og eiga samskiptin sér stað í gegnum tölvur.

Á þriggja ára tímabili kynna börnin m.a. sinn bæ og listamenn frá sínu landi í því skyni að brúa bilið milli menningarheimanna. Aðaláherslan er lögð á myndlist og tónlist ásamt því að heimspekileg spurning leiðir til áframhaldandi skipta á mismunandi menningarlegum hefðum, sköpunarþörf og hugmyndum barnanna. Verkefnið hófst í september 2002 og lýkur 2005.

Dagana 11. til 17. apríl koma kennarar frá Belgíu, Portúgal og Ítalíu í heimsókn í Varmárskóla. Þessir kennarar vinna að samstarfsverkefninu í sínu landi. Tveir kennarar úr Varmárskóla hittu þessa kennara í haust í Porto, Portúgal, aðrir tveir kennarar fara og hitta hópinn síðan í júní í Brugge í Belgíu.

Fá styrk frá Evrópusambandinu

Varmárskóli fær um 500 þúsund króna styrk á ári frá Evrópusambandinu í samtals þrjú ár til verkefnisins. Skólinn þarf reyndar að uppfylla ákveðin skilyrði hvert ár til að halda styrknum.

Guðrún Markúsdóttir, deildarstjóri á miðstigi í Varmárskóla, er tengiliður verkefnisins á Íslandi.

"Krakkarnir eru búin að gera orðabók með flæmskum, ítölskum, portúgölskum og íslenskum þýðingum. Við erum búin að setja orðabókina á netið en þetta eru tæp 90 algeng orð. Þar er einnig hægt að hlusta á orðin á hinum tungumálunum," sagði Guðrún.

Börnin fengu einnig eintak af bókinni í pappírsformi en áður en til þess kom fór bókin milli landanna og myndskreyttu börnin hana sjálf.

"Svo erum við að kynna bæinn okkar og þau kynna bæina sína og við setjum það allt inn á netið."

Belgarnir kynna einnig einn belgískan listmálara í vetur. Börnin í Varmárskóla læra um listamanninn og teikna myndir í hans anda. Síðan eru 10 myndir valdar úr og sendar út þar sem haldin er listaverkasýning. Á næsta ári kynna börnin í Varmárskóla íslenskan listmálara fyrir félögum sínum úti. Krakkarnir hafa einnig hist á spjallþráðum á netinu.

"Þeim finnst eins og hinir krakkarnir séu einhverjar geimverur. Þau trúa því varla að þau séu að hugsa svona svipað og við. Þegar við fengum pakkann með listamanninum kom heimspekileg spurning með sem við leggjum fyrir bekkinn. Spurt var hvort aðeins væri til einn ég eða fleiri. Á næsta ári útbúum við pakka og leggjum fyrir heimspekilega spurningu," sagði Guðrún sem var mjög ánægð með framvindu verkefnisins.

www.buildingbridges.be