ENNÞÁ er kvika að koma upp undir Mýrdalsjökli samkvæmt GPS-mælingum, sem gerðar voru í byrjun mars. Síðustu 10 mánuði hefur land í miðju jökulsins risið um 10 cm.
ENNÞÁ er kvika að koma upp undir Mýrdalsjökli samkvæmt GPS-mælingum, sem gerðar voru í byrjun mars. Síðustu 10 mánuði hefur land í miðju jökulsins risið um 10 cm.

GPS-mælingarnar eru gerðar til að kanna breytingar á skorpunni og að sögn Eriks Sturkell, jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er greinilegt að enn er að koma kvika upp undir jöklinum þótt hún komi ekki eins hratt og í fyrra. Útreikningar sýni að land í miðju jökulsins hafi risið um 10 sentímetra á síðustu 10 mánuðum. Þá megi nefna að nokkur þúsund jarðskjálftar hafi orðið í jöklinum sl. ár.

"Það er greinilega eitthvað í gangi en hins vegar er ekki mjög líklegt að það verði eldgos í jöklinum alveg á næstunni," segir Erik. "Það þarf meiri kvika að hlaðast upp undir jöklinum til að svo verði. Hversu mikið þarf til viðbótar vitum við ekki."

Hann segir að á síðustu 1.100 árum hafi gosið 20 sinnum í jöklinum, eða á u.þ.b. 60 ára fresti. Nú sé nokkru lengri tími liðinn frá síðasta gosi því síðast gaus í jöklinum svo óyggjandi sé árið 1918. Hins vegar hafi einhverjar hræringar átt sér stað árið 1955 sem ollu stóru jökulárhlaupi og hugsanlega hafi þar verið um að ræða eldgos sem ekki komst upp úr jöklinum.

Að sögn Eriks verður áfram fylgst með virkni í jöklinum en nýlega var komið fyrir jarðskjálftamælum á Austmannsbungu og Entukollum. Segir hann stefnt að því að fara hið fyrsta á jökulinn til að sækja gögn úr þessum mælum og nýjar GPS-mælingar líklega gerðar á jöklinum í sumar.