23. ágúst 1991 | Innlendar fréttir | 520 orð

Davíð Oddsson, forsætisráðherra: Stjórnmálasamband tekið upp við

Davíð Oddsson, forsætisráðherra: Stjórnmálasamband tekið upp við Eystrasaltsríkin á næstunni Viðurkenning á fullveldi Rússlands skoðuð DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra skýrði Igor Krasavin, sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi, frá því í ráðherrabústaðnum á...

Davíð Oddsson, forsætisráðherra: Stjórnmálasamband tekið upp við Eystrasaltsríkin á næstunni Viðurkenning á fullveldi Rússlands skoðuð

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra skýrði Igor Krasavin, sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi, frá því í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum í gær að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að árétta viðurkenningu á sjálfstæði Eistlands og Lettlands og að hún tæki upp formlegt stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin þrjú, ef þau óskuðu þess, innan skamms. Sovéski sendiherrann greindi forsætisráðherra frá því að viðurkenning á sjálfstæði ríkjanna bryti í bága við sovésk lög.

Igor Krasavin sendiherra óskaði eftir fundi með forsætisráðherra í gær til að koma á framfæri munnlegri tilkynningu frá ríkisstjórn Sovétríkjanna um stöðu mála í landinu. Sendiherrann skýrði Davíð Oddssyni frá því að ríkisstjórn Sovétríkjanna legði áherslu á að Vesturlönd ryfu ekki efnahagsleg tengsl við Sovétríkin á þessum tíma þar sem nú sé mikið í húfi. Davíð sagði að hann hefði fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands fagnað því að rétt stjórnvöld væru komin til valda á ný í Sovétríkjunum.

Davíð sagði að sendiherrann hefði verið beðinn um að skýra sovéskum stjórnvöldum frá ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar um viðurkenningu á sjálfstæði Eistlands og Lettlands, með sama hætti og hún hefði viðurkennt Litháen. Hann sagði að á næstunni yrði unnið að því í samræmi við ályktun Alþingis að taka upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin þrjú.

Davíð kvaðst í sambandi við Eystrasaltsríkin hafa vísað til þess að atburðirnir sem nú hefðu gerst hlytu að breyta afstöðu Sovétríkjanna í þessum efnum og að Borís Jeltsín, sem hefði í raun bjargað sovésku stjórnarskránni, hefði ályktað og hvatt til þess að Vesturlönd viðurkenni Eystrasaltslöndin sem sjálfstæð ríki.

"Við getum ekki trúað því að sá aðili sem hafi bjargað sovésku stjórnarskránni og stöðu Sovétríkjanna myndi mæla með slíku ef hann teldi það brot á stjórnarskránni. Við sögðumst einnig vonast til þess að þessi ákvörðun Íslands yrði ekki miskilin. Við vildum eiga mjög gott samstarf við Sovétríkin eins og við höfum átt og við teldum ekki að þessar ákvarðanir beindust á neinn hátt gegn Sovétríkjunum," sagði Davíð.

Davíð sagði að á næstu dögum yrði lokið við tæknilega vinnu í utanríkisráðuneytinu við að taka upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin og kvaðst hann ekki eiga von á miklum töfum í þeim efnum.

Davíð skýrði Krasavin einnig frá því að íslenska ríkisstjórnin hlyti að hugleiða yfirlýsingar forystumanna rússneska lýðveldisins um fullveldi þess og hvort ekki væri eðlilegt í framhaldinu að Rússland yrði viðurkennt sem fullvalda ríki. Sú ákvörðun hefði enn ekki verið tekin en ríkisstjórnin hefði hlýtt gaumgæfilega á yfirlýsingar Borís Jeltsíns, forseta Rússlands, sem og utanríkisráðherra rússneska sambandslýðveldisins.

"Ég á kannski ekki beint von á því að önnur lýðveldi Sovétríkjanna leiti eftir viðurkenningu okkar en við því má þó búast, að þegar atburðirnir gerast með þessum hætti, og meira segja Rússland er farið að leita eftir viðurkenningu, þá komi önnur ríki í kjölfarið. Það verður metið í hverju falli fyrir sig en ég á ekki von á því að það verði veruleg fyrirstaða af okkar hálfu í þeim efnum," sagði Davíð Oddsson.

Davíð Oddsson tekur á móti Igor Krasavin, sendiherra Sovétríkjanna, í ráðherrabústaðnum í gær. Að baki þeirra eru Þorsteinn Ingólfsson ráðuneytisstjóri og Helga Jónsdóttir skrifstofustjóri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.