27. maí 2003 | Innlendar fréttir | 929 orð | 1 mynd

Stjórnarandstæðingar vilja fresta ákvörðun um gildi kjörbréfa

Þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Gunnar Örn Örlygsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson.
Þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Gunnar Örn Örlygsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson.
NÍU þingmanna kjörbréfanefnd, sem hefur það verkefni að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna, klofnaði í afstöðu sinni til þessara mála á Alþingi í gær.
NÍU þingmanna kjörbréfanefnd, sem hefur það verkefni að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna, klofnaði í afstöðu sinni til þessara mála á Alþingi í gær. Meirihluti nefndarinnar, sem skipuð er þingmönnum stjórnarflokkanna, lagði til að kjörbréf þingmanna og varaþingmanna yrðu samþykkt eins og þau voru lögð fram af landskjörstjórn. Taldi meirihlutinn ekki ástæðu til að draga lögmæti nýliðinna þingkosnina í efa og ennfremur að ekki væri ástæða til að endurtelja atkvæði.

Minnihluti nefndarinnar, sem skipuð er þingmönnum úr þingflokkum stjórnarandstöðunnar, lagði á hinn bóginn til að Alþingi samþykkti að fresta því að kveða upp úr um kjörbréf þingmanna og lögmæti sl. alþingiskosninga þar til fengnar hefðu verið skýrslur frá yfirkjörstjórnum allra kjördæma um meðferð kjörgagna og framkvæmd kosninganna.

Umræður um þessi mál stóðu yfir frá kl. 17.30 í gær og fram til kl. 21. Af þeim sökum fór ekki fram kosning um forseta Alþingis og varaforseta, eins og til stóð í gær, né heldur var kosið í fastanefndir þingsins og alþjóðanefndir. Þá var stefnuræðu forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem halda átti í gærkvöldi, frestað, en í gærkvöldi var stefnt að því að hún yrði flutt í kvöld. Ennfremur er stefnt að því að kosið verði um rannsókn kjörbréfa á þingfundi í dag sem og að kosið verði í fastanefndir og aðrar nefndir.

Ágreiningur um atkvæði merkt V

Á þingsetningarfundi Alþingis í gær, sem hófst um kl. 14, var kosin níu manna kjörbréfanefnd. Að þeim fundi loknum hittist nefndin og á fyrsta þingfundi Alþingis, sem hófst um kl. 17.30 síðdegis, gerðu framsögumenn í nefndinni grein fyrir sínum niðurstöðum.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, mælti fyrir áliti og tillögum meirihluta nefndarinnar. "Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út 16. maí 2003 í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fram fóru 10. maí sl.," sagði Einar og hélt áfram: "Þá hefur nefndinni borist bréf frá dómsmálaráðuneytinu, dagsett 23. maí 2003. Bréfinu fylgja í innsigluðum umslögum ágreiningsseðlar úr Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, ásamt endurritun úr gerðarbókum yfirkjörstjórna sömu kjördæma."

Einar greindi frá því að í þessum kjördæmum hefði komið upp ágreiningur um utankjörfundaratkvæði, m.a. um atkvæði sem merkt voru bókstafnum V. Þau atkvæði hefðu síðan verið dæmd ógild af meirihluta yfirkjörstjórnanna. Sagði Einar að meirihluti kjörbréfanefndar teldi að staðfesta bæri þá úrskurði.

Einar greindi ennfremur frá því að kjörbréfanefnd hefði auk þessa borist bréf frá dómsmálaráðuneytinu sem dagsett væri 23. maí 2003. "Með því var send kosningakæra frá umboðsmanni kjördæmisfélags Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum norður og suður, Björgvini Agli Vídalín Arngrímssyni. Í kærunni er gerð krafa um endurtalningu atkvæða í nýafstöðnum alþingiskosningum."

Einar skýrði hins vegar frá því að meirihluti kjörbréfanefndar teldi ekki ástæðu til að draga lögmæti kosninganna í efa og að hann áliti ekki forsendu til endurtalningar. Sagði Einar að síðustu að meirihluti kjörbréfanefndar legði til að kjörbréf þingmanna og varaþingmanna yrðu samþykkt.

Niðurstöður ekki dregnar í efa

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir hönd minnihluta kjörbréfanefndar. Hann sagði m.a. að alþingiskosningar væru einn af hornsteinum lýðræðisins og "því skiptir gríðarlegu máli að opinberar niðurstöður kosninga séu ekki dregnar í efa", sagði hann og ítrekaði að það væri hlutverk Alþingis að kveða upp úr um lögmæti kosninga og fara yfir kjörbréf þingmanna.

Hann sagði m.a. að í ljósi þess að framkvæmd kosninganna hefði verið mismunandi í ýmsum kjördæmum legði minnihluti kjörbréfanefnar fram eftirfarandi tillögu: "Alþingi ákveður að fresta því að kveða upp úr um kjörbréf þingmanna og lögmæti alþingiskosninganna frá 10. maí sl. sbr. 5. gr. laga um þingsköp

Alþingis nr. 55, 1991, og 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, þar til fengnar hafa verið skýrslur frá yfirkjörstjórnum allra kjördæma um meðferð kjörgagna og framkvæmd kosninganna. Kjörbréfanefnd hefur umsjón með gagnaöflun og skulu yfirkjörstjórnir í hverju kjördæmi skila skýrslum innan sjö daga frá samþykkt tillögunnar."

Lúðvík fór í ræðu sinni yfir það sem minnihlutinn teldi athugavert við framkvæmd kosninganna. T.d. hefðu atkvæði merkt bókstafnum V verið færð til vinstri-grænna í sumum kjördæmum en dæmd ógild í öðrum kjördæmum. "Það er mikilvægt að það sé samræmi í afgreiðslu yfirkjörstjórna m.a. vegna þess að jöfnunarþingmenn eru í raun og veru kosnir af öllu landinu og þess vegna er mikilvægt að það sé samræmd afgreiðsla hringinn í kringum landið og í öllum kjördæmum."

Þá vísaði Lúðvík í máli sínu til kæru frá fulltrúa Frjálslynda flokksins, sem getið var um hér á undan. Lúðvík sagði að án sérstakrar athugunar yrði ekki lagt mat á þær ásakanir sem fram kæmu í kærunni. "Ekkert má verða til þess að draga úr trúverðugleika alþingiskosninga," sagði hann, "því liggur mikið við að Alþingi vandi mjög meðferð sína á þessu máli." Lúðvík vitnaði síðan í 5. gr. laga nr. 55 frá árinu 1991, um þingsköp Alþingis, en þar segði m.a. að þingið gæti við rannsókn á kjörbréfum þingmanna frestað því að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslu.

"Lögin gera því beinlínis ráð fyrir því að Alþingi taki að sér að rannsaka ágalla sem kunna að hafa verið á framkvæmd kosninga áður en ákvörðun er tekin um hvort hún skuli metin gild."

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar komu í ræðustól og tóku undir tillögu minnihluta kjörbréfanefndar. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tók þó fram að hann ætti ekki von á því að slík málsmeðferð myndi breyta neinu um niðurstöður kosninganna en lagði áherslu á að úrslitin yrðu þó að vera hafin yfir allan vafa.

Þegar ljóst var að umræðan um kjörbréfin stæði fram á kvöld lýsti Halldór Ásgrímsson, sem gegndi starfi forseta þingsins, því yfir að stefnuræða forsætisráðherra, sem halda átti síðar um kvöldið, yrði tekin af dagskrá.

Umræðunni lauk um kl. 21 en þá funduðu formenn þingflokkanna um það hvert framhald þingstarfanna yrði. Þar var m.a. komist að samkomulagi um að forsætisráðherra flytti stefnuræðu sína í kvöld.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.