Gott sumar fyrir lífríkið í Surtsey Töluvert landbrot norðvestan á eynni VEÐURFAR í sumar hefur haft óvenjulega góð áhrif á lífríkið í Surtsey.

Gott sumar fyrir lífríkið í Surtsey Töluvert landbrot norðvestan á eynni

VEÐURFAR í sumar hefur haft óvenjulega góð áhrif á lífríkið í Surtsey. Leiðangur líffræðinga fann þar nýlega þrjár nýjar tegundir æðri plantna og í haust er fræseta sumra tegunda mikil. Dr. Sturla Friðriksson segir, að landbrot við eyna verði á hverju ári og að í ár hafi það verið töluvert á eynni norðvestanverðri. Þar hefur myndast þverhnýpi sem áður var skriða.

Þrír líffræðingar þeir dr. Sturla Friðriksson, dr. Borgþór Magnússon og Sigurður Magnússon voru í leiðangrinum í Surtsey. Fundu þeir meðal annars þrjár nýjar tegundir æðri plantna í Máfabóli á sunnanverðri eynni, þar sem eru helstu varpstöðvar máfa. Þetta eru túnfífill, túnsúra og blóðarfi en það eru plöntur sem hafa ræktunarsvæði sem kjörlendi. Aðeins fannst einn einstaklingur af hverri tegund. Á hraunbreiðunni sem þarna er verpir fjöldi máfa og bera þeir mikinn áburð á varpsvæðið. Er því að verða töluverð gróska á þessum bletti eyjarinnar. Þar vex einkum varpasveifgras, fitjungur og krækill en þar má einnig finna skarfakál og baldursbrá.

Austar á eynni hefur myndast melgresishóll, sem hefur stækkað mikið á þessu ári en fjöruarfi er útbreiddasta plöntutegundin á Surtsey og er hann farinn að mynda samfelldar breiður. Þekur gróður nú alls um 2 hektara eyjarinnar.

Sex tegundir fugla verpa á Surtsey, fýll, ryta, teista, silfurmáfur, sílamáfur og svartbakur. Tveir hrafnar halda sig á eynni og hafa borið saman sprek til hreiðurgerðar í Hraungígnum en ekki orpið þar enn. Þarna hafa einnig viðdvöl nokkrir smærri spörfuglar og smyrill sást þar nú sem aðkomufugl.

Morgunblaðið/Borgþór Magnússon

Surtsey. Lengst til hægri á myndinni má sjá landbrot sem orðið hefur í skriðum á undanförnum árum. Á innfelldu myndinni er Skarfakál, haugarfi og varpasveifgras í máfabyggð í Surtsey nú í haust.