Loftmynd af Reykjavík.   Heimahverfið, fremst eru Álfheimar, stóru blokkirnar eru við Sólheima.
Loftmynd af Reykjavík. Heimahverfið, fremst eru Álfheimar, stóru blokkirnar eru við Sólheima.
Í LÖGUM um fjöleignarhús eru ákvæði sem mæla fyrir um ýmsar skyldur eigenda, íbúa og afnotahafa í fjöleignarhúsum og sem takmarka eignarráð eigenda og helgast einkum af eignarforminu.
Í LÖGUM um fjöleignarhús eru ákvæði sem mæla fyrir um ýmsar skyldur eigenda, íbúa og afnotahafa í fjöleignarhúsum og sem takmarka eignarráð eigenda og helgast einkum af eignarforminu. Skyldur þessar eru margvíslegar og byggjast auk laganna á húsreglum, óskráðum grenndarreglum og almennum samskiptareglum.

Ein af þeim skyldum sem hér um ræðir er, að eiganda ber að halda séreign sinni vel við og veita aðgang að henni til viðhaldsframkvæmda og viðgerða. Eigandi skal sjá um að kosta allt viðhald og allan rekstur á séreign sinni, þar með talið búnaði, tækjum og lögnum sem henni tilheyra samkvæmt ákvæðum laganna. Allur slíkur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, telst sérkostnaður viðkomandi eiganda.

Eiganda er skylt ef nauðsyn krefur að veita húsfélaginu eða mönnum á þess vegum aðgang að séreign til eftirlits með ástandi hennar og meðferð með hæfilegum fyrirvara og að teknu tilliti til viðkomandi. Þannig hvílir á húsfélaginu ákveðið eftirlitshlutverk með því að eigandi sinni viðhaldsskyldu sinni. Á húsfélaginu hvílir sams konar skylda hvað varðar viðhald á sameign hússins.

Úrræði húsfélagsins

Sinni eigandi ekki nauðsynlegu og eðlilegu viðhaldi og umhirðu séreignar sinnar, þannig að sameign hússins eða einstakir séreignarhlutar líði fyrir vanræksluna og liggi undir skemmdum eða viðhaldsleysið veldur verulegum ama eða rýrnun á verðmæti annarra eigna, getur húsfélagið gripið til ákveðinna lagalegra úrræða.

Nánar tiltekið getur húsfélag eða aðrir eigendur eftir a.m.k. eina skriflega áskorun og aðvörun látið framkvæma viðhald og viðgerðir og aðrar ráðstafanir á kostnað viðkomandi eiganda. Eiganda er skylt að veita óhindraðan aðgang að séreign sinni í þessu skyni.

Ef húsfélagið þarf að leggja út fyrir kostnaði vegna þessa á félagið endurkröfu á viðkomandi eiganda og fylgir endurkröfunni lögveð í eignarhluta hans. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar. Í þeim tilvikum sem húsfélag eignast lögveð í eign eins eiganda til tryggingar ákveðinni kröfu getur félagið innheimt viðkomandi skuld á uppboði ef ekki vill betur og gengur lögveðið framar eldri sem yngri samningsveðum, aðfararveðum og dómveði.

Ef eigandi þrjóskast við að veita aðgang að séreign sinni verður húsfélagið að leita atbeina dómstóla til að fá dómsúrskurð um skyldu hans í því efni. Í kjölfarið verður síðan að leita aðstoðar sýslumanns til að fá úrskurðinum framfylgt. Mikilvægt er að húsfélög vandi þó til allrar ákvarðanatöku áður en gripið er til svo stórtækra úrræða enda þarf réttur félagsins að vera skýr og ótvíræður til þess að slík krafa verði tekin til greina hjá dómstólum.

Viðgerðir á lögnum

Sérstaklega er tekið fram í lögunum að eiganda sé skylt að veita aðgang að séreign sinni vegna nauðsynlegra viðgerða á lögnum hússins. Þetta gildir bæði um sameiginlegar lagnir og sérlagnir annarra. Í tilvikum sem þessum skal eiganda tilkynnt um viðgerðir með hæfilegum fyrirvara og skulu þær framkvæmdar með hæfilegum hraða og lokið svo fljótt sem auðið er.

Að framkvæmdum loknum skal allri séreigninni komið í samt horf og áður og eiganda að kostnaðarlausu. Leiði viðgerð til verulegra óþæginda eða afnotamissis getur eigandi átt rétt á bótum.