Guðjón Þórðarson ásamt Árna Gauti Arasyni markverði.
Guðjón Þórðarson ásamt Árna Gauti Arasyni markverði.
VÍKVERJA þótti ánægjulegt að heyra að Guðjón Þórðarson hefði loksins fengið annað starf við sitt hæfi í ensku knattspyrnunni. Brotthvarf Guðjóns frá Stoke á sínum tíma bar auðvitað ekki að með eðlilegum hætti, a.m.k.
VÍKVERJA þótti ánægjulegt að heyra að Guðjón Þórðarson hefði loksins fengið annað starf við sitt hæfi í ensku knattspyrnunni. Brotthvarf Guðjóns frá Stoke á sínum tíma bar auðvitað ekki að með eðlilegum hætti, a.m.k. ef haft er í huga að hann hafði komið liðinu upp um deild. Guðjóns bíður sjálfsagt strembið verkefni, að koma Barnsley á réttan kjöl en ef einhver getur það þá er það Guðjón.

Víkverji telur liggja í augum uppi að Íslendingar haldi nú með Barnsley en segi skilið við Stoke; jafnvel þó að þar komi íslenskir fjárfestar að málum en ekki hjá Barnsley. Víkverji hélt auðvitað aldrei með Stoke af því að þar réðu íslenskir peningamenn ríkjum, heldur af því að þar stýrði íslenskur þjálfari málum.

VÍKVERJI veit fátt skemmtilegra en að ná sér í góðar bækur á bókasöfnum til að líta í fyrir svefninn. Þó er einn hængur á því hann er svoddan slóði að hann gleymir alltaf að skila bókunum á réttum tíma og oftast liggja þær heima mánuðum saman eftir skiladag. Þá verður sífellt minna og minna freistandi að mæta aftur á safnið og þurfa bæði að opinbera slóðaskapinn og punga út nokkrum hundruðum eða jafnvel þúsundum króna í dagsektir. Einu sinni voru alltaf haldnir svokallaðir sektarlausir dagar á bókasöfnum þar sem óskilvísir lánþegar máttu koma og skila bókum án þess að þurfa að borga sektir eða skammast sín. Væri ekki ráð að taka upp þennan sið og halda slíkan dag nokkrum sinnum á ári?

NÚ eru útsölurnar byrjaðar í fataverslunum Reykjavíkur og Víkverji er vitaskuld ákveðinn í að kanna hvað er í boði. Sumir halda því fram að merkjavara sé alls ekki svo dýr á Íslandi en þó er það nú þannig að Víkverji kaupir mikinn meirihluta fata sinna erlendis. Það er þá einna helst, að hann láti sig hafa það að versla hér heima, þegar um útsölur er að ræða. Hitt er auðvitað undarlegt, ef merkjavörur eru almennt svo dýrar hér á landi (sem annars staðar), að menn tími aldrei að kaupa þær nema þær séu á hálfvirði.