María Rún Karlsdóttir
María Rún Karlsdóttir
eftir Maríu Rún Karlsdóttur. Prentun: Hagprent. Bókaútgáfan Vöttur - 127 síður.
MARÍA Rún Karlsdóttir (Marjatta Ísberg) hefur sent frá sér smásagnasafn sem hún byggir á draumum. Sögurnar lýsa hennar eigin draumum og annarra. Hún lætur eftirfarandi fylgja í Eftirmála:

"Draumar eiga sér ávallt einhverja stoð í veruleikanum en myndin sem þeir gefa okkur af umheiminum er afar brengluð. Þeim er ekki treystandi sem spegli sannleikans."

Það er viss óhugnaður í þessum sögum og hneigð til gróteskra lýsinga.

Sem dæmi má taka New York.

Sagan getur varla talist venjuleg ferðalýsing eða algeng speglun þess sem býr í huga ferðamanns.

Aftur á móti getur hún sagt eitthvað um vilja höfundar til að segja krassandi sögu og ganga langt.

Aðeins fáránleikinn verður þó eftir að loknum lestri sögunar og óljóst hvað vakir fyrir höfundinum.

Sófinn með bláa silkiáklæðinu er annar hugarburður þar sem líf kóngafólks er í brennidepli. Lífi venjulegrar manneskju er stefnt gegn því, fyrrverandi starfsmanns í Buckinghamhöll sem smyglar sér inn í höllina.

Bauk konunnar í höllinni og hugrenningar hennar um kóngafólkið lýsa hugkvæmni og er á köflum fyndin lesning. Þessi saga sýnir að í höfundinum býr frásagnargáfa.

Margar eru sögurnar þó heldur veigalitlar þrátt fyrir einn og einn góðan sprett. Þær verða ekki minnisstæðar en geta minnt á blaðagrein því að höfundurinn fylgist greinilega vel með samtímaatburðum.

Clinton og ég og Ævintýri í Betlehem eru meðal slíkra sagna. María Rún hefur gáskafullan húmor sem er nokkurs virði en það háir henni, að minnsta kosti enn, að ekki er nógu vel unnið úr honum og efnið verður of oft hversdagslegt þrátt fyrir að það gefi tilefni til annars.

Óhugnaðurinn sem er höfundinum hugleikinn kemur strax fram í fyrstu sögunni, Stígvélunum. Þessi martraðarkennda draumsaga er efni í betri sögu en ýmislegt spillir, til dæmis tilhneiging höfundar til að velta sér upp úr nákvæmum lýsingum óhugnaðarins:

"Varlega opnaði ég augun og skoðaði eyðilegginguna í kringum mig. Líkin lágu sem hráviði út um allt. Sum þeirra voru mjög heilleg og varla var hægt að sjá hvað hafði orðið mönnunum að aldurtila. Önnur voru orðin að mauki eins og þau hefðu lent í hakkavél. Enn önnur líktust nautsskrokkum sem slátrarinn hafði gleymt að flá en sent þá beint til kjötmeistara sem hafði svo bútað þá niður".

Þegar María Rún velur nafngreint fólk sem sögupersónur þykir mér hún ekki gera þeim yfirleitt þannig skil að smekklegt geti talist en má vera að sumt kitli hláturtaugar lesenda.

Viss samfélagsádeila er greinilega áhugamál höfundarins. Skopið sem hún gerir að vopni sínu missir þó stundum marks. Það er vissulega vandmeðfarið eigi gott söguefni ekki að breytast í skrípamynd.

Jóhann Hjálmarsson