ÞÓRHALLUR Dan Jóhannsson varð í gærkvöld fyrsti leikmaður Fylkis til þess að leika 100 leiki fyrir félagið í efstu deild í knattspyrnu en leikurinn gegn KA í gær var 116. leikur félagsins í deildinni frá upphafi.
ÞÓRHALLUR Dan Jóhannsson varð í gærkvöld fyrsti leikmaður Fylkis til þess að leika 100 leiki fyrir félagið í efstu deild í knattspyrnu en leikurinn gegn KA í gær var 116. leikur félagsins í deildinni frá upphafi. Þórhallur lék fyrst með meistaraflokki Fylkis sumarið 1989, þá 16 ára gamall, en það var fyrsta tímabil félagsins í efstu deild. Hann lék fjóra leiki í deildinni um sumarið, en frá þeim tíma hefur hann aðeins misst af tveimur leikjum, einum sumarið 1993 og síðan leik Fylkis við FH á dögunum. Þórhallur hefur jafnframt spilað 97 leiki með félaginu í næstefstu deild. Hann var eitt ár, 1997, í röðum KR-inga og lék þar átta leiki í efstu deild. Þaðan fór Þórhallur til danska úrvalsdeildarfélagsins Vejle seint það sumar og var þar í hálft annað ár en sneri þá aftur til Fylkis og tók þátt í að koma félaginu upp í efstu deild sumarið 1999. Félagi Þórhalls og jafnaldri, Finnur Kolbeinsson, lék sinn 100. leik í efstu deild í gær en þar af eru 98 með Fylki og tveir með Leiftri.