SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra segir að almennt sé um grófhreinsun á skólpi að ræða hér á landi og um 70% íbúanna búi við viðunandi hreinsun. Dr.
SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra segir að almennt sé um grófhreinsun á skólpi að ræða hér á landi og um 70% íbúanna búi við viðunandi hreinsun.

Dr. Þorleifur Eiríksson, forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ekki væri alltaf þörf á að byggja dýr hreinsunarmannvirki vegna skólphreinsunar heldur gæti grófhreinsun verið nægjanleg.

Siv Friðleifsdóttir segir að Ísland uppfylli lágmarkskröfur ESB varðandi hreinsun eða síun og ekki sé verið að setja aukaútgjöld á sveitarfélögin í því sambandi. Skólphreinsun sé skilgreind í þremur þrepum hjá ESB, sem hafi samþykkt kröfur Íslands varðandi frárennsli, en hér á landi sé fyrsta þreps hreinsun að stofni til eða gróf hreinsun enda svæðið ekki skilgreint eins viðkvæmt og víða annars staðar. Viðkvæmari svæði séu inn til landsins og þau þurfi að skoða betur.

Að sögn Sivjar eru gerðar eðlilegar kröfur um skólphreinsun hér á landi. "70% allra íbúa Íslands búa við viðunandi hreinsun," segir hún og bætir við að frárennslismál hafi verið í algjörum ólestri fyrir nokkrum árum en víða hafi vel verið tekið til hendi. Samkvæmt lögum eigi þessi mál að vera alfarið í lagi 2005 en hins vegar sé ljóst að það náist ekki.