Land of Lakes Choirboys frá Minnesota. Stjórnandi og píanóleikari: Francis Stockwell. Einsöngvarar úr röðum kórfélaga. Þriðjudaginn 1. júlí 2003 kl. 20.00.
AMERÍSKI drengjakórinn Land of Lakers Choirboys frá Minnesota var að ljúka þriggja vikna tónleikaferð um Skandinavíu og Ísland. Fyrstu tónleikarnir voru í Dómkirkjunni í Ósló 12. júní, síðan sungu þeir 13 sinnum í Þrándheimi, Falun, Uppsölum, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Gautaborg, Trollhättan og víðar og síðast í Reykjavík. Samkvæmt ferðadagskránni í efnisskrá kórsins tróð kórinn alls 15 sinnum upp á þessum tæpum þrem vikum auk töluverðra ferðalaga. Þetta er mikið álag fyrir drengi á aldrinum 10 til 14 ára og því vakti það furðu mína að það var ekki hægt að heyra nein þreytumerki í söng kórsins.

Efnisskráin var alls ekki auðveld og sungu drengirnir samtals í 90 mínútur auk hlés. Kórinn lagði upp með tvískipta efnisskrá 11 kirkjuleg verk og 14 veraldleg og söng úrval úr skránni á hverjum tónleikum sem og hér. Athygli vakti hvað kórinn er agaður en samt afslappaður og fullur af sönggleði. Öll efnisskráin var sungin utanað og af mikilli innlifun. Tónmyndun kórsins er tær og hrein, allar hendingar eru vel mótaðar og kórinn hefur gott vald á styrkleikabreytingum. Fyrst söng kórinn Gaude Mater eftir Vincenti, síðan fylgdu O Salutaris Hostia (N. Wilton), Jesu, Joy of Man's Desiring (Slá þú hjartans hörpustrengi) eftir Bach, Dixit Dominus (Dav.s. 110) eftir B. Galuppi, Panis angelicus (C. Franck) söng Kip Christianson fallega með kórnum. Í negrasálminum Steal Away fóru nokkrir drengir aftur fyrir áheyrendur og sungu bergmál á móti aðalkórnum og átti það að mynda, eftir því sem söngstjórinn sagði, svona "alvöru dómkirkjuhljóm" og það svínvirkaði. Síðast fyrir hlé voru How Can I Keep From Singing? (R. Lowry) og The Holy City eftir Adams sem fjallar um atburð dymbilvikunnar frá pálmasunnudegi til upprisunnar á páskadag.

Eftir hlé var röðin komin að veraldlegum söngvum með Keisaravalsi Johanns Strauss II í fararbroddi. Sópraninn Elijah Salfer söng fallega Die Landlust eftir Haydn. Christian Lysholm söng virkilega vel með kórnum Ständchen D 889 eftir Schubert, Trevor Maloney söng virkilega fallega Far From My Love eftir G. Sarti síðan fylgdu Shenandoah (Amerískt þjóðlag) og Here Comes the Sun (G. Harrison). Lokalagið var Niska Banja sem er sígaunadans frá Serbíu. Kórfélaginn, Scott Jones, aðstoðaðai við píanóleikinn og kórinn dreifði sér um kirkjuna, í forspili og á milli erinda tóku kórfélagar í hendur gesta og þökkuðu þeim komuna, í lokin gengu þeir svo aftur að píanóinu. Aukalög voru Minnesota Morning (J. Brookes) og A Merry Madrigal (D. Moore). Kórinn söng alla tónleikana mjög vel og algerlega án þreytumarka eins og áður er getið og hafði augun aldrei af söngstjóranum nema bara á meðan þeir hneigðu sig og gengu inn og út. Kórinn hefur mjög fallega framkomu og í lokin röðuðu þeir sér upp og tóku í hönd tónleikagesta á meðan gengið var út.

Jón Ólafur Sigurðsson