Að loknum æsispennandi A-flokksúrslitum. Sigurður á Glym með hornið eftirsótta. Þá koma Ragnheiður og Hreyfing, Bergur og Glitnir, Logi og Baun, Jón og Kolbrún, Daníel og Spóla, Vignir og Biskup og Erlingur og Eitill.
Að loknum æsispennandi A-flokksúrslitum. Sigurður á Glym með hornið eftirsótta. Þá koma Ragnheiður og Hreyfing, Bergur og Glitnir, Logi og Baun, Jón og Kolbrún, Daníel og Spóla, Vignir og Biskup og Erlingur og Eitill.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Léttu og lipru fjórðungsmóti austlenskra hestamanna lauk síðdegis á sunnudag með úrslitum A-flokksgæðinga á Stekkhólsvelli í landi Fornustekka í Hornafirði. Valdimar Kristinsson fylgdist með mótinu ásamt fjölmörgum öðrum hestaáhugamönnum sem komu víða að af landinu.
ÚRSLIT A-flokksins voru sannarlega góður endapunktur á vel heppnuðu móti þar sem aðstaða var öll á besta veg og vel slapp til með veður þá fjóra daga sem mótið stóð yfir. Í forkeppni hafði Sigurður Sigurðarson riðið Glymi frá Kirkjubæ í efsta sætið með 8,55 og hafði örlítið forskot á Glitni frá Ketilsstöðum sem Bergur Jónsson reið. Að loknu tölti og brokki höfðu Glymur og Sigurður forystuna en hart var að þeim sótt. Voru Spóla frá Stóru-Gröf og Daníel Jónsson búin að standa sig vel og voru komin í annað sætið og Glitnir og Bergur ekki langt undan.

Heljarstökk í annað sætið

Í skeiðþættinum gerðust hinsvegar margt. Sigurður náði tveimur góðum og öruggum sprettum og sigurinn virtist í höfn en Ragnheiður Samúelsdóttir á Hreyfingu frá Hallormsstað blandaði sér í baráttuna nokkuð óvænt með tveimur frábærum skeiðsprettum sem að mati nærstaddra sérfræðinga voru vel yfir níu í einkunnaskalanum. Þær höfðu verið í áttunda sæti að lokinni forkeppni en tryggðu sér annað sætið með glæsibrag og verðskulduðu vel nafnbótina hástökkvarar mótsins. Einnig skilaði Logi Laxdal góðum skeiðspretti á Baun frá Kúskerpi sem Daníel Jónsson einn af afkastamestu knöpum mótsins hafði riðið í forkeppni. Fyrri spretturinn fór forgörðum hjá Loga en það er ekki oft sem hann lætur tvo spretti í röð á sama hrossinu klikka. Í þeim seinni lagði hann allt undir og tókst að fleyta Bauninni yfir styttinginn og tryggði með því fjórða sætið á eftir Bergi og Glitni. Sannarlega góð tilþrif þar sem keppnisskap knapanna réð ferðinni.

Í B-flokki var forkeppnin nokkuð jafnari og munaði einungis 0,14 á efsta hesti og þeim áttunda í einkunn. Höfgi frá Ketilsstöðum og Bergur Jónsson unnu nokkuð örugglega þar sem hægatöltið var að því er virtist þeirra sterkasti þáttur í úrslitum ásamt fegurð og vilja. Sannarlega fasmikill höfðingi sem margur gæti hugsað sér sem reiðhest. Möl frá Horni og Daníel Jónsson héldu sömuleiðis öðru sætinu en Sigurður Sigurðarson og Gáski frá Viðborðsseli höfðu sætaskipti við Hans Kjerúlf og Óða-Blesa frá Lundi. Eins og á undanförnum fjórðungsmótum þarf ekki að kvarta undan hestakosti hestamanna á Austurlandi. Þótt fjöldinn sé ekki mikill þá eiga þeir alltaf nóg af góðum hrossum til fylla vel í þau átta sæti sem skipuð eru í úrslitum. Var þarna eitthvað um að ræða aðkomna hesta úr öðrum landshlutum í bland við heimaræktaða hesta sem virtust í miklum meirihluta þeirra hrossa sem í úrslit komust í gæðingakeppninni.

Þrjú í bráðabana

Í unglingaflokki var keppnin æsispennandi og þurfti bráðabana þriggja knapa til að fá úr því skorið hver hlyti sigurinn en auk þess voru tveir aðrir knapar jafnir í neðri sætum og var varpað hlutkesti í því tilfelli eins og reglur segja til um. En það voru Nikólína Ósk Rúnarsdóttir og Ofsi frá Engimýri sem sigruðu og var það fyrst og fremst afbragðsgott brokk sem tryggði þeim sigurinn. Torfi Sigurðsson sem keppti á Styrk frá Klettsholti var hinn öruggi sigurvegari í ungmennaflokki. Eftir hægatöltið var hann í öðru sæti en náði forystunni eftir brokkið. Á yfirferðinni tóku þeir félagar af öll tvímæli þegar þeir geystust á glæsilegu tölti fram úr að því er best varð séð flestum ef ekki öllum keppinautunum og þurfti þá enginn að velkjast í vafa um hvar sigurinn lenti.

Í opinni gæðingakeppni stóðhesta gat að líta nokkra athygli verða hesta og má þar nefna Kolskegg frá Oddhóli sem hefur áður kynnt sig sem gæðing í fremstu röð. Hann er í eigu Sigurbjörns Bárðarsonar og konu hans Fríðu Steinarsdóttur. Þar sem Sigurbjörn brá sér í hlutverk þular í gæðingakeppninni fékk hann stórvin sinn Loga Laxdal til að sitja klárinn fyrir sig og fórst honum það vel úr hendi sem vænta mátti. Þá var þarna leirljós hestur sem Stefán Friðgeirsson sýndi. Heitir sá Dagur og er frá Strandarhöfði undan Baldri frá Bakka sem vel mátti sjá á ganglagi hestins, þetta afar mjúka tölt með góðri hreyfingu. Í B-flokki var það Bassi frá Kirkjuferjuhjáleigu sem sigraði undir stjórn Fanneyjar Valsdóttur. Er þar á ferðinni ört vaxandi hestur sem nú þegar er orðinn firnasterkur í fjórgangi. Einnig mætti nefna Reyni frá Hólshúsum sem er að því er næst verður komist athyglisverðasta afkvæmi gæðingsins mikla Kjarks frá Egilsstöðum sem fram hefur komið til þessa. Hann ásamt knapanum Vigni Siggeirssyni tóku einnig þátt í töltkeppni og stóðu sig þar með mikilli prýði.

Veganesti á veraldarmót

Þar var hinn öruggi sigurvegari Hafliði Halldórsson á Ásdísi frá Lækjarbotnum sem fara von bráðar utan í þeim tilgangi að verja heimsmeistaratitil Hafliða sem hann vann á Valíant frá Heggsstöðum fyrir tveimur árum. Ef marka má þær tölur sem dómarar veifuðu fyrir sýningu þeirra bæði í forkeppni og úrslitum má ætla að möguleikar þeirra til sigurs í Danmörku séu býsna góðir. Það sem vekur athygli er að Hafliði sparaði hryssuna greinilega á yfirferðinni í úrslitunum enda þá þegar svo gott sem búinn að tryggja sér sigurinn. Veðrið spillti heldur fyrir annars glæsilegum töltúrslitum á laugardagskvöldinu.

Framkvæmd mótsins á Stekkhól er enn eitt þrekvirkið sem hið fámenna félag Hornfirðingur vinnur. Þótt ekki sé þetta mikið mót að vöxtum samanborðið við okkar stærstu viðburði á sviði hestamennskunnar þá þarf nokkuð til ef vel á að takast. Mótin á Hornafirði hafa yfir sér afar skemmtilegan blæ. Dagskráin er frekar létt og þarna hafa hestamenn tækifæri á að tala saman og skemmta sér án þess að missa af einhverjum stórmerkum dagskrárliðum. Aðstaðan á Stekkhóli fer stöðugt batnandi og má þar nefna hringvöllinn sem stóðst allar raunir rigningar sem var allnokkur síðustu daga fyrir mótið og eitthvað vætti flesta daga meðan á móti stóð þótt segja megi að sloppið hafi til með veðrið. Ekki var annað að sjá en allir sem sóttu mótið hafi átt þar góða daga í frábærum félagsskap.