Á alþjóðlegri ráðstefnu um plasma rannsóknir "16th International Symposium on Plasma Chemistry" fékk verkefnið um samspil ljósboga og rafskauts, alþjóðlega viðurkenningu þegar greinin "A novel approach to cathode/anode modelling for high...
Á alþjóðlegri ráðstefnu um plasma rannsóknir "16th International Symposium on Plasma Chemistry" fékk verkefnið um samspil ljósboga og rafskauts, alþjóðlega viðurkenningu þegar greinin "A novel approach to cathode/anode modelling for high current AC-arcs" var valin ein af bestu fræðigreinum ráðstefnunnar.

Verkefnið sem er unnið við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands, í samstarfi við háskólann í Þrándheimi, fjallar um hlutlíkan af katóðu og anóðuhluta háafls riðstraums ljósboga. Dr. Guðrún Sævarsdóttir, sem er verkefnisstjóri, ritaði greinina í samstarfi við Jon Arne Bakken prófessor við NTNU og Magnús Þór Jónsson prófessor við HÍ. Verkefnið er styrkt af Rannís, Elkem og norsku rannsóknastofnunum, FFF og NFR.

Það er kallað ljósbogi þegar rafstraumur fer um loft, jónar það og losar um leið mikla orku. Til dæmis er slíkur ljósbogi aðalorkugjafi í ofnum Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, en hitinn í slíkum ljósboga er um 20.000 gráður. Unnið hefur verið að reiknilíkani fyrir riðstraumsljósboga og jaðarskilyrðin sem lýsa hegðun hans við skaut og ofnsbotn hafa mikil áhrif á hegðun hans. Hlutlíkanið er leið til að lýsa þessum jaðarskilyrðum. Slík líkön hafa áður verið þróuð fyrir lágstraumsljósboga, en þetta líkan gildir fyrir ljósboga sem ber háan straum, eða um 100kA, og sýna má fram á að þá gilda aðrar nálganir.

Á ráðstefnunni kynntu um 680 alþjóðlegir sérfræðingar verkefni sín í plasmafræðum. Þetta voru verkfræðingar, efna- og eðlisfræðingar sem komu frá háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum, ekki síst orkuveitum, víðs vegar frá. Á ráðstefnunni voru síðan þrjú framúrskarandi verkefni valin sem bestu rannsóknir sem kynntar voru á ráðstefnunni.