Rússnesk kona kemur  blómum fyrir á vettvangi sprengjutilræðisins í Moskvu.
Rússnesk kona kemur blómum fyrir á vettvangi sprengjutilræðisins í Moskvu.
VLADÍMÍR Pútín, forseti Rússlands, fordæmdi í gær sprengjutilræði í Moskvu á laugardag en að minnsta kosti sextán ungmenni létust þegar tvær konur sprengdu sjálfar sig í loft upp á útitónleikum í Moskvu.
VLADÍMÍR Pútín, forseti Rússlands, fordæmdi í gær sprengjutilræði í Moskvu á laugardag en að minnsta kosti sextán ungmenni létust þegar tvær konur sprengdu sjálfar sig í loft upp á útitónleikum í Moskvu. Um það bil fjörutíu liggja enn slasaðir á spítala, þar af fimm sem sagðir eru í lífshættu. Sagði Pútín markmið ódæðismannanna að vekja ótta með landsmönnum, um "blóðugt og fyrirlitlegt illvirki" hefði verið að ræða "gagnvart friðsömum borgurum, sem fæstir voru komnir á fullorðinsaldur".

Enn hefur enginn lýst yfir ábyrgð á verkinu á hendur sér en Borís Gryzlov, innanríkisráðherra Rússlands, gaf til kynna á laugardag að sprengjutilræðið væri tengt ákvörðun Pútíns að halda forsetakosningar í Tétsníu 5. október nk. Fréttaskýrendur eru þó ekki á eitt sáttir um þessa skýringu enda var ákvörðun forsetans fyrst tilkynnt á föstudag. Þá fullyrti talsmaður tétsenska uppreisnarmannsins Aslans Maskhadovs að hans menn hefðu ekkert haft með ódæðið að gera. Tétsenskir uppreisnarmenn eru á hinn bóginn klofnir innbyrðis og ekki allir fylgja Maskhadov að málum.

Segja rússneskir embættismenn að vegabréf sem fannst á annarri konunni, sem bar ábyrgð á verkinu, sýni að hún hafi verið tétsensk.

Fréttaskýrendur segja tilræðið á laugardag veikja nokkuð pólitíska stöðu Pútíns, enda bendi það til þess að stefna hans gagnvart aðskilnaðarsinnum í Tétsníu gangi ekki upp.

Fyrri sprengjan mistókst

Rússneska innanríkisráðuneytið hefur fyrirskipað víðtækar öryggisaðgerðir í Moskvu en sumir borgarbúa hika nú við að yfirgefa heimili sín af ótta við frekari hryðjuverk. Hefur innanríkisráðuneytið ákveðið að lögreglumönnum á vakt verði fjölgað í nágrenni sjúkrahúsa, leikhúsa og verslunarmiðstöðva. Þá verður öryggi aukið til muna á öllum fjölmennum samkomum sem haldnar eru.

Um fjörutíu þúsund manns voru samankomin á Tushino-herflugvellinum í útjaðri Moskvu á laugardag, þar sem atburðurinn átti sér stað, í því skyni að hlusta á útitónleika sem þar voru haldnir. Sprakk fyrsta sprengjan við aðgönguhlið tónleikanna um kl. 14.30 að staðartíma en sú síðari um tíu mínútum síðar við annað slíkt aðgönguhlið þar sem margir tónleikagesta voru að reyna að yfirgefa staðinn. Talsmenn yfirvalda segja að fyrri sprengjan hafi ekki heppnast fullkomlega og flestir hafi látist í síðari sprengingunni.

Rashid Nurgaliyev aðstoðarinnanríkisráðherra sagði að verðir við innganginn hefðu talið stúlkurnar tvær, sem stóðu fyrir sprengingunum, grunsamlegar og var þeim meinaður aðgangur að tónleikunum. "Þegar þær nálguðust innganginn voru þær greinilega æstar yfir einhverju. Þær vildu flýta sér inn en þeim var vísað frá," sagði hann.

Telja menn líklegt að ef stúlkurnar hefðu komist inn á tónleikasvæðið til að sprengja sprengjur sínar hefði mannfall orðið mun meira.

Sjálfsmorðsárásir tétsenskra uppreisnarmanna hafa undanfarið grafið undan yfirlýsingum rússneskra ráðamanna um að stöðugleiki væri kominn á í Tétsníu. Í júní sprengdi kona sig í loft upp í strætisvagni í Tétsníu með þeim afleiðingum að fjórtán aðrir biðu bana. Í maí féllu fimmtán við svipaðar aðstæður og í sama mánuði létust a.m.k. 59 þegar þrír menn sprengdu bifreið fulla af sprengiefni í loft upp við stjórnarbyggingu í Grosní.

Þá er skemmst að minnast gíslatökunnar í leikhúsi í Mosvku í október sl. en henni lauk þegar rússneskir sérsveitarmenn réðust til inngöngu í leikhúsið með þeim afleiðingum að 129 gíslanna létust.

Moskvu. AFP, AP.