Þjófnaðurinn á sprengiefni úr geymslu á Hólmsheiði, norðan Suðurlandsvegar og austan Rauðavatns er grafalvarlegt mál. Sprengiefni þetta er notað við sprengingar vegna byggingaframkvæmda, við jarðgöng og virkjanir.
Þjófnaðurinn á sprengiefni úr geymslu á Hólmsheiði, norðan Suðurlandsvegar og austan Rauðavatns er grafalvarlegt mál. Sprengiefni þetta er notað við sprengingar vegna byggingaframkvæmda, við jarðgöng og virkjanir. Meðferð þess og notkun er eingöngu á færi sérfróðra manna.

Þjófarnir beittu mikilli tækni til þess að ná sprengiefninu. Þeir klipptu gat á háa vírgirðingu og notuðu síðan klippur og borvélar á voldugar hurðir úr sérstyrktu stáli. Benedikt Einar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ólafs Gíslasonar & Co., sem er innflytjandi og eigandi sprengiefnisins, segir í samtali við Morgunblaðið sl. laugardag greinilegt að "ránið var skipulagt í þaula. Það líkist helzt atriði úr glæpamynd".

Benedikt segir ennfremur, að reglugerð um geymslur fyrir sprengiefni hafi verið sett árið 1999 og hafi geymslur fyrirtækisins staðizt þær kröfur, sem þar eru gerðar.

Ólíklegt verður að teljast að þjófar leggi í þann mikla kostnað, sem augljóslega hefur fylgt þessu ráni, án þess, að þeir hafi ákveðin markmið í huga með því að komast yfir sprengiefnið. Það er augljóslega hætta á ferðum.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann muni eiga fund með lögregluyfirvöldum strax í dag vegna þessa máls.

Þjóðfélag okkar er að breytast og því miður ekki í öllum tilvikum til góðs. Þaulskipulagður þjófnaður á sprengiefni er til marks um það.

Það er augljóslega þörf á stórauknu öryggiseftirliti á mörgum vígstöðvum. Slíkt á við um heimili, fyrirtæki, stofnanir og aðra starfsemi.

Reglugerð sú, sem sett var fyrir nokkrum árum um geymslur fyrir sprengiefni hlýtur að koma til endurskoðunar eftir þennan atburð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr getum við ekki gengið út frá því sem vísu, að Ísland verði jafnfriðsælt land og það hefur verið hingað til.

Ábyrgð og lífeyrissparnaður

Fjármálaeftirlitið hefur lagt fram umræðuskjal vegna lífeyrissparnaðar. Í umræðuskjalinu er áherzla lögð á að gera beri skýra grein fyrir kostnaði, sem sé samfara samningi um lífeyrissparnað þ.á m. um kostnað sem tilheyri ekki reglulegum kostnaði af umsýslu vegna slíks sparnaðar. Þar er m.a. átt við það fyrirkomulag að iðgjald myndi ekki innistæðu fyrr en greidd hafi verið iðgjöld, sem nemi umræddum kostnaði.

Fjármálaeftirlitið lýsir einnig þeirri skoðun, að sá sem sér um vörzlu lífeyrissparnaðar skuli sjá til þess að sá sem selji eða veiti ráðgjöf um lífeyrissparnað búi yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að veita ráðgjöf um þau efni.

Þetta framtak Fjármálaeftirlits er þarft og nauðsynlegt. Á síðustu árum hafa margir eigendur lífeyrissparnaðar fylgzt með því að umtalsverður hluti innistæðna þeirra hefur tapazt vegna óskynsamlegrar ráðstöfunar þeirra fjármuna. Svörin, sem fengizt hafa frá fjárvörzluaðilum, hafa ekki alltaf verið sannfærandi.

Til þess að allrar sanngirni sé gætt ber auðvitað að taka fram að um nokkurt árabil var ávöxtun lífeyrisinnistæðna mjög hagstæð. Sú ánægjulega þróun hefur kannski orðið til þess, að bæði innistæðueigendur og fjárvörzluaðilar hafi sofnað á verðinum.

Sá veruleiki, sem blasað hefur við innistæðueigendum allra síðustu árin er hins vegar í sumum tilvikum mjög óþægilegur. Og þeir hafa m.a. spurt sig þeirrar spurningar, hvort þeir, sem ákvarðanir taki um meðferð fjármuna þeirra séu til þess hæfir.

Í ljósi þeirra umræðna manna á meðal er það fagnaðarefni, að Fjármálaeftirlitið hefur tekið frumkvæði í þessum efnum og verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð fjárvörzluaðila verða.

Áhrif óbeinna reykinga

Samtökin Læknar gegn tóbaki hafa hvatt heilbrigðisráðherra til dáða til þess að berjast gegn áhrifum óbeinna reykinga. Í samtali við Morgunblaðið í gær, sagði Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir, sem sæti á í stjórn samtakanna, m.a.:

"Sérstaklega þarf nú að fylgja eftir breytingum á tóbaksvarnalögum varðandi bann við reykingum á veitingahúsum, kaffihúsum og á skemmtistöðum til þess meðal annars að verja starfsmenn sem þar vinna fyrir áhrifum óbeinna reykinga.

Sambærilegar umræður fara nú fram í Bretlandi. Í frétt í bandaríska dagblaðinu International Herald Tribune, sem gefið er út í París, sl. föstudag segir að einn æðsti embættismaður Breta á sviði heilbrigðismála Sir Liam Donaldson hafi sl. fimmtudag hvatt til þess að reykingar yrðu bannaðar á öllum opinberum samkomustöðum til þess að draga úr hættu vegna áhrifa óbeinna reykinga. Leggur hann til að reykingar verði bannaðar í veitingahúsum, verzlunarmiðstöðvum, klúbbum og krám.

Í frétt þessari kemur fram, að talið sé að um 3 milljónir manna séu í hættu vegna áhrifa óbeinna reykinga á vinnustað og að fólk, sem búi með reykingafólki sé í mun meiri hættu en aðrir að fá krabbamein eða hjartasjúkdóma. Ennfremur að 120 þúsund manns deyi ár hvert af völdum reykinga og að um 1.000 manns deyi vegna áhrifa af reykingum annarra.

Það er ástæða til að heilbrigðisráðherra og Alþingi bregðist fljótt og vel við áskorun Lækna gegn tóbaki.