AÐGERÐ lækna í Singapúr sem miðaði að því að aðskilja írönsku síamstvíburana Ladan og Laleh Bijani, en þær eru samvaxnar á höfði, var sögð hafa farið vel af stað í gær.
AÐGERÐ lækna í Singapúr sem miðaði að því að aðskilja írönsku síamstvíburana Ladan og Laleh Bijani, en þær eru samvaxnar á höfði, var sögð hafa farið vel af stað í gær. Búist var við að aðgerðin tæki um 48 klukkustundir en að henni koma 25 læknar og um 100 hjúkrunarliðar. Systurnar eru 29 ára gamlar og hafa báðar lokið laganámi. Þær voru bjartsýnar fyrir aðgerðina sem þó er mjög tvísýn, líkur eru á að önnur eða báðar deyi eða bíði varanlegan heilaskaða. Sama æðin sér heila beggja fyrir blóði.

Keith Goh, yfirlæknir aðgerðarinnar, á að baki nokkra slíka skilnaðarskurði, meðal annars 97 klukkustunda aðgerð á nepölsku síamstvíburunum Ganga og Jamuna Shrestha árið 2001. Aðgerðin á írönsku systrunum er nauðsynleg vegna óvenjumikils þrýstings í höfuðkúpum þeirra sem leiðir til höfuðverkjakasta en getur þróast yfir í heilaskemmdir ef ekkert er að gert.

Ladan og Laleh hafa búið sig undir aðgerðina með sálfræðiráðgjöf og lestri úr kóraninum og létu þess getið í yfirlýsingu, að þær vonuðust til þess að aðgerðin væri leiðarendi á erfiðri göngu og eftir hana gætu þær hafið nýtt líf sem tvær aðskildar manneskjur.