Listamaðurinn GAG við eitt af myndbandsverkum sínum. Í sýningunni deilir hann meðal annars á óhóflega fegurðardýrkun samtímans.
Listamaðurinn GAG við eitt af myndbandsverkum sínum. Í sýningunni deilir hann meðal annars á óhóflega fegurðardýrkun samtímans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
OPNUÐ var ný sýning í Galleríi Tukt í Hinu húsinu, Pósthússtræti, á laugardag. Heiti sýningarinnar er Pester a Beauty og er sköpunarverk listamannsins GAG (Guðmundar Arnars Guðmundssonar).
OPNUÐ var ný sýning í Galleríi Tukt í Hinu húsinu, Pósthússtræti, á laugardag. Heiti sýningarinnar er Pester a Beauty og er sköpunarverk listamannsins GAG (Guðmundar Arnars Guðmundssonar). Þetta er fyrsta einkasýningin hans en hann hyggur á nám við Listaháskóla Íslands með haustinu.

Á sýningunni nýtir GAG sér miðla kvikmyndaformsins og ljósmyndatækninnar. Sýningin deilir á margt í samfélaginu í verkum sem samanstanda af tveimur myndbandsverkum og tveimur ljósmyndaverkum sem kallast á og tengjast, eða eins og listamaðurinn segir sjálfur. "Verkin eru ádeila á líðandi stund, það sem er að gerast í þjóðfélaginu bæði hér og úti í heimi." Meðal annars tekur GAG fyrir nýlega og umdeilda herferð íslensks stórfyrirtækis og vísar heiti sýningarinnar til þessa og meðal annars ádeilu listamannsins á fegurðarstaðla og fegurðardýrkun samfélagsins.

Listamaðurinn segir sjálfur að sýningin henti ef til vill ekki börnum: "Þetta er ekki einhver suddasýning, en kannski er ég orðinn ónæmur fyrir þessu eftir að hafa unnið svona mikið við þetta viðfangsefni. Ég tók eftir því að fólkið á opnuninni var sumt viðkvæmara fyrir þessu en ég sjálfur."

Við opnun sýningarinnar las Jón Skúli Traustason úr bók sinni Brostnir draumar sem gefin verður út um jólin og einnig las skáldið Þórgnýr Thoroddsen eigin ljóð.

Listamaðurinn GAG vill hvetja sem flesta til að mæta, virða fyrir sér sýninguna og segja sitt álit.

Pester a Beauty er opin í Galleríi Tukt, Bankastræti, frá kl. 13 til 18. Listamaðurinn er sjálfur á sýningunni frá 13 til 15. Aðgangur er ókeypis. Sýningin er aðeins opin til mánudagsins 14. júlí.