Hrefna Jóhannsdóttir fæddist í Reykjavík 19. desember 1930. Hún lést á líknardeild Landspítalans 26. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jóhann Garðar Jóhannsson, bryggjusmiður frá Öxney í Breiðafirði, f. 15.11. 1897, d 21.2. 1965, og Friðrikka Eggertsdóttir úr Fremri-Langey í Breiðafirði, f. 5.10. 1894, d. 28.2. 1988. Systkini Hrefnu voru Sjöfn, f. 25.10. 1919, Erna, f. 17.12. 1920, Unnur, f. 1922, d. 1922, Hörður, f. 26.11. 1923, d. í júlí 1975, Þorgeir, f. 1926, d. um 1936, Guðmundur, f. 7.7. 1929, Unnur, f. 1.9. 1932, Bergrún, f. 9.11. 1933, og Gerður, f. 1.8. 1936.

Hinn 12. apríl 1952 giftist Hrefna Björgvini Bjarnasyni bifvélavirkja, f. 5.5. 1928, d. 10.9. 1995. Börn Hrefnu og Björgvins eru: 1) Rúnar, f. 23.9. 1952, kvæntur Jóhönnu Höllu Þórðardóttur, börn þeirra eru Sigþór Örn, f. 20.3. 1973, Karen, f. 28.10. 1974, og Arna Björg, f. 27.11. 1981. 2) Garðar, f. 31.3. 1956. Börn hans eru Katrín Ósk, f. 23.7. 1978, dóttir hennar er Birta Sól Ström, f. 22.2. 1999, Hrafn, f. 23.11. 1984, og Tinna, f. 21.9. 1987. 3) Bryndís, f. 7.4. 1957. Börn hennar eru Hörður Sveinsson, f. 2.8. 1975, Ragnheiður Guðmundsdóttir, f. 24.12. 1982, og Auður Björg Guðmundsdóttir, f. 24.5. 1985. 4) Auður, f. 30.10. 1959. Dætur hennar eru Kristín Magnusson, 28.3. 1982, Helén Magnusson, f. 30.5. 1984, og Hanna Hrefna Magnusson, f. 10.5. 1989. 5) Birna, f. 19.4. 1962. Sonur hennar er Bragi Halldórsson, f. 7.3. 1985.

Hrefna ólst upp í Reykjavík. Hún sinnti ýmsum störfum, m.a. hjá Þjóðleikhúsinu og Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Seinni hluta starfsævinnar starfaði hún mest að félagsmálum, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og við félagsstarf aldraðra, þar sem hún var forstöðumaður um tíma.

Útför Hrefnu fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Hrefna.

Núna, þegar þinni löngu sjúkdómsgöngu er lokið, langar mig til að senda þér ofurlitla kveðju, með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar, sem við áttum saman, því þrátt fyrir allt, voru þær miklu fleiri, en þær erfiðu. Ég hugsa oft um það núna, eftir að þú fórst, hvílík hetja þú varst og hve dugnaður þinn kom mér alltaf á óvart. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.

Kom, huggari, mig hugga þú,

kom, hönd, og bind um sárin,

kom, dögg, og svala sálu nú,

kom, sól, og þerra tárin,

kom, hjartans heilsulind,

kom, heilög fyrirmynd,

kom, ljós, og lýstu mér,

kom, líf, er ævin þver,

kom, eilífð, bak við árin.

(Vald. Briem.)

Þín systir

Bergrún.

Hún amma okkar var afar hugmyndarík kona. Hún málaði mikið í frístundum og sótti myndlistarsýningar reglulega en auk þess hafði hún ákaflega gaman af því að fara í leikhús. Um árabil starfaði amma í menningarmiðstöðinni Gerðubergi með eldri borgurum. Þar hefur hún eflaust notið sín vel - það var nefnilega aðalsmerki hennar ömmu að eiga auðvelt með að laða fram sköpunargleðina hjá öðru fólki. Þær eru t.d. ófáar jólagjafirnar sem amma bjó til með okkur barnabörnunum handa foreldrum okkar.

Auk mikils menningaráhuga hafði amma mjög gaman af því að ferðast innanlands sem utan. Við fórum t.d hringveginn með henni og afa fyrir nokkrum árum ásamt foreldrum okkar. Það var mjög skemmtileg ferð og margt brallað. Við klæddum okkur t.d. í eldgömul og hallærisleg föt sem við fundum uppi á háalofti í gömlum bóndabæ í Berufirði þar sem við vorum í bændagistingu. Teknar voru myndir af okkur í þeim og hlógum við okkur máttlaus. Einnig hleyptum við heimalningnum inn í stofu svo úr varð hin mesta skemmtun.

Amma hafði mikla ánægju af því að kynna sér framandi menningu og hvatti okkur óspart til að dvelja erlendis og læra önnur tungumál. Amma ferðaðist oft til Norðurlanda að heimsækja börnin sín og barnabörn sem þar hafa mörg hver búið um árabil. En hún fór einnig í lengri ferðir eins og til Taílands og var það ekkert mál þó að hún þekkti engan í þeirri hópferð, hún myndi bara kynnast þeim.

Þótt amma og afi hafi ekki haft mikla peninga á milli handanna voru þau engu að síður bæði mjög rausnarleg. Við minnumst allra matarboðanna á sunnudögum þegar allri stórfjölskyldunni var boðið í læri, auk allra þeirra fallegu gjafa sem þau gáfu okkur í gegnum tíðina. Við erum þeim mjög þakklát fyrir þetta allt. Einnig erum við einstaklega þakklát fyrir að amma og afi hafi leyft okkur að taka þátt í sameiginlegu áhugamáli sínu sem var hestamennska. Við minnumst allra útreiðartúranna með mikilli gleði í hjarta.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við kveðja hana ömmu okkar. Við vonum að amma og afi hafi fundið hvort annað á ný og þeysi nú á hestunum sínum á vit nýrra ævintýra. Megi allar góðar vættir vernda ömmu okkar og guð veri með henni nú og um alla eilífð.

Sigþór, Karen og Arna Björg.

Alltaf þegar við fórum til ömmu, vissum við að það var eitthvað spennandi sem beið okkar. Og það brást aldrei því amma gat alltaf komið okkur á óvart með ýmsum uppátækjum. Það var sama hvernig stóð á og hvað var um að vera, amma gat alltaf tekið þátt í leikjunum með okkur. Hún amma var engin venjuleg kona, hún bauð okkur alltaf upp á shake sem hún bjó til sjálf, spilaði á munnhörpu og gítar, kenndi okkur allskonar leiki og kom með hina ýmsu hrekki þegar við áttum síst von á þeim.

Það var alltaf hlátur og grín þegar amma var með okkur og þannig var það alveg fram á síðustu stundu, þrátt fyrir langa og erfiða baráttu síðustu árin. Amma kenndi okkur að maður verður aldrei of gamall til að hlægja og leika sér.

Elsku amma, takk fyrir allar frábæru stundirnar sem við áttum saman og takk fyrir að hafa kennt okkur svo margt sem er okkur svo dýrmætt í dag.

Katrín Ósk, Hrafn og Tinna.

Fyrstu kynni okkar Hrefnu hófust í sumardvöl að Melum í Melasveit. Þetta var á stríðsárunum þegar ekki þótti ráðlegt að hafa Reykjavíkurbörnin í bænum.

Á Melum var tvíbýli og vorum við hvor hjá sinni fjölskyldunni, hún hjá ættingjum sínum en ég hjá vandalausum og ósköp hefði mér leiðst ef ekki hefði verið þessi skemmtilega stelpa á hinum bænum. Ég get séð hana fyrir mér þar sem hún stóð á brúsavagninum með úfið hárið og þennan grallaralega svip sem fór henni svo vel. "Velkomin í sveitina!" Þarna var kominn æringinn hún Hrefna sem hafði þau forréttindi að vera bæði mjólkurpóstur og kúasmali.

Við náðum vel saman þessi tvö sumur sem við vorum þarna samtímis og oft síðar minntumst við á þennan tíma sem leið ótrúlega fljótt við leik og störf sem voru ærin um hásláttinn. En við vorum alltaf til í að gera smásprell þegar tilefni gafst. Stundum ortum við drápur, þar sem við skiptumst á að koma með fyrriparta sem hin botnaði. Þetta var allt græskulaust gaman og allt fyrirgefið af hálfu þeirra sem þar áttu í hlut.

Næst lágu leiðir okkar saman á unglingsárunum. Ég hafði þá ráðið mig sem sendil hjá SÍS og Hrefna birtist þar óvænt sem símamær. Síðan unnum við þar í bókhaldinu í u.þ.b. sex ár. Þetta var í þá daga áður en vélvæðingin hélt innreið sína, að undanskildum nokkrum reiknivélum sem alltaf voru stopp þegar rafmagnið fór og ekki mátti muna eyri í afstemmingunni, allt var þetta notað sem yrkisefni af þeim alvöruhagyrðingum sem þarna unnu og Hrefna hafði lag á að benda á það spaugilega.

Vinskapurinn hélst í gegnum árin og það var gott að eiga þau Björgvin að sem nágranna í Fossvoginum þegar allir voru á fullu að byggja og koma börnunum upp.

Eftir lát Björgvins valdi Hrefna sér íbúð í Aðalstrætinu. Þaðan sá hún yfir Grjótaþorpið sem henni þótti vera fallegasta hverfið í bænum og henni líkaði svo vel að vera í iðandi mannlífinu.

Það var gott að koma við hjá Hrefnu og rifja upp gamla daga og fá fréttir af þeim sem henni voru kærastir. Hún bar mikla umhyggju fyrir börnunum sínum og var stolt af þeim. Hún stóð sig sem hetja gagnvart sjúkdómi sem að lokum lagði hana að velli.

Minningin um Hrefnu lifir áfram í huga mér og ég finn til gleði yfir að hafa fengið að kynnast henni og eiga hana að vini. Fyrir það þakka ég nú.

Börnum hennar, vinum og vandamönnum öllum sendi ég samúðarkveðjur og þeim og Hrefnu bið ég guðs blessunar.

Erla Kristjánsdóttir.