HAGNAÐUR Bakkavarar Group var 1.057 milljónir króna á fyrri hluta ársins, sem er 19 milljónum króna undir meðalspá greiningardeilda bankanna.

HAGNAÐUR Bakkavarar Group var 1.057 milljónir króna á fyrri hluta ársins, sem er 19 milljónum króna undir meðalspá greiningardeilda bankanna. Bakkavör gerir upp í breskum pundum og hagnaður var 8,4 milljónir punda, en var 5 milljónir punda á sama tímabili í fyrra. Aukning hagnaðar er því 68%.

Bakkavör seldi alla starfsemi sína utan Bretlands, sjávarútvegskjarna félagsins, á fyrri hluta ársins og við það myndaðist 3,1 milljónar punda söluhagnaður sem hefur mikil áhrif á samanburð hagnaðar milli ára. Hagnaður vegna sölu sjávarútvegskjarnans nemur 37% af hagnaði tímabilsins eftir skatta.

Ef litið er á hagnað fyrir skatta, en sala sjávarútvegskjarnans er ekki inni í þeim tölum, þá dróst hann saman um tæplega 1% og nam 7,1 milljón punda á tímabilinu, eða 894 milljónum króna.

Rekstrartekjur námu 9 milljörðum í krónum talið, en 72 milljónum punda og jukust um 15% milli ára. Rekstrargjöld hækkuðu hlutfallslega meira en rekstrartekjur og rekstrarhagnaður dróst saman um 2% og nam 8,5 milljónum punda. Hlutfall hagnaðar fyrir afskriftir af rekstrartekjum, EBITDA-framlegð, lækkaði úr 17,2% í 15,0% milli ára.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, segist á heildina litið sáttur við uppgjörið. "Uppgjörið er að flestu leyti mjög gott, en það ber þess ákveðin merki að það var nokkur samdráttur í sjávarútvegshlutanum hjá okkur á tímabilinu," segir Ágúst og bætir við að framlegðin hafi lækkað vegna verksmiðju félagsins í London. Framhaldið líti mjög vel út og á seinni hluta ársins muni nýting verksmiðjunnar stórbatna og þar með ætti framlegðarhlutfallið að hækka.

"Efnahagsreikningurinn er sérstaklega áhugaverður í þessu uppgjöri og þá kannski frekar en rekstrarreikningurinn," segir Ágúst. Hann segir miklar breytingar hafa orðið á efnahagsreikningnum, meðal annars í birgðunum, en birgðir Bakkavarar lækkuðu úr 1,9 milljónum punda um áramót í 241 þúsund pund í lok júní, eða um 88%. Þessi lækkun birgða stafar af sölu sjávarútvegsstarfseminnar, en að sögn Ágústs er birgðahald nánast ekkert í núverandi rekstri fyrirtækisins, þ.e. í framleiðslu á tilbúnum kældum mat.

Veltufjárhlutfall Bakkavarar hækkaði úr 1,33 í 2,55 á tímabilinu, en eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 33,8% í 30,9%. Bakkavör er með víkjandi lán upp á 15,9 milljónir punda, sem breytanlegt er í hlutafé. Sé það reiknað með eigin fé í útreikningum eiginfjárhlutfallsins er hlutfallið 38,2%.

Uppgjörið undir væntingum

"Heilt á litið þá er uppgjörið undir væntingum okkar," segir Bjarki Logason, sérfræðingur í greiningardeild Landsbanka Íslands. "Stjórnendur félagsins hafa sett sér markmið um 20%-30% vöxt á ári næstu ár og augljóslega stendur sá vöxtur sem orðið hefur á fyrri helmingi þessa árs ekki undir því en tekjur jukust um 15% á tímabilinu. Ljóst er að væntingar voru um talsverða veltuaukningu á 2. ársfjórðungi þar sem lögð var mikil áhersla á það að páskarnir hefðu verið á 1. ársfjórðungi í fyrra en 2. ársfjórðungi nú þegar þriggja mánaða uppgjör félagsins var kynnt í apríl. Í ljósi þess er sá vöxtur sem varð á öðrum ársfjórðungi sem var rúmlega 15% ekki eins mikill og búist var við þar sem páskar eru annað mesta sölutímabil félagsins og gefið hefur verið út að markaðurinn sem Bakkavör starfar á vaxi um 15% á ári."

Bjarki segir að það komi einnig nokkuð á óvart hvað hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, sem hlutfall af tekjum sé lágt, eða 15% á fyrri hluta ársins á móti 17,2% á sama tímabili í fyrra. "Aðalorsök lægri framlegðar nú er sú að framleiðslugeta nýrrar verksmiðju félagsins er ekki fullnýtt og því fellur til mikill fastur kostnaður á móti tiltölulega litlum tekjum. Þó er búist við því að bót verði þar á og um leið og framleiðsla í verksmiðjunni eykst muni framlegðin aukast að sama skapi. Þá hafði lækkandi verð sjávarafurða á fyrri hluta ársins neikvæð áhrif á rekstrarreikning félagsins en vegna hás birgðaverðs í upphafi árs var framlegð sjávarútvegshluta félagsins lægri en á síðasta ári," segir Bjarki.

Bjarki segir að það sem þó sé jákvætt í rekstri félagsins sé að sjávarútvegshluti þess hafi nýlega verið seldur og að svo virðist sem þeir hnökrar sem komi fram í uppgjörinu nú séu að mestu leyti í þeim hluta starfseminnar. Til að mynda hafi salan í Bretlandi aukist um 22% milli ára en 6% samdráttur hafi orðið á mörkuðum félagsins utan Bretlands. "Salan á þessum hluta félagsins sýnir að stjórnendur þess eru ákveðnir í að standa við yfirlýst markmið sín. Miklar hækkanir hafa verið á gengi félagsins það sem af er ári og má gera ráð fyrir því að þær hækkanir endurspegli væntingar um að þeim 8 milljörðum króna sem félagið á í sjóðum verði varið skynsamlega en stjórnendur félagsins hafa gefið út að fjárfestingargeta þess sé um 200-300 milljónir punda," segir Bjarki Logason.

Gengi hlutabréfa Bakkavarar lækkaði um 2,8% í 89 milljóna króna viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær. Lokagengi var 14 og markaðsverð félagsins miðað við það gengi er 21,3 milljarðar króna.