Stóðum á Stiklarstöðum straumkast sögunnar skall á því eilífa andartaki sáum ilbleika erni snúa vængjum að vindköldum fjöllum litum til sólar sáum geisla hverfa til jarðar eins og hvísl af himni, vissum það sem Einar Skúlason flutti í Kristskirkju...

Stóðum á Stiklarstöðum

straumkast sögunnar

skall á því eilífa

andartaki

sáum ilbleika erni

snúa vængjum

að vindköldum

fjöllum

litum til sólar

sáum geisla hverfa

til jarðar

eins og hvísl

af himni,

vissum það sem Einar

Skúlason flutti

í Kristskirkju

Niðaróss

átta öldum

áður,

að göfugt ljós

boðar geisli

gengum undir sólstaf

þessa andartaks

sem fylgir hverju

skrefi

inn í óvissa

framtíð, Kristur ræður

krafti hæstum

kular við sverðbeitt

grös

þar sem þú gengur

við sólstaf

og minnir á jarteiknir

Ólafs undir hríðblásnum

himni

þar sem blærinn gulnar

í visnuðum stráum

og öld bregður

við aðra,

en nú grær jörð

sem áðan.

Skýringar:

Straumkast, sbr. sólar straumur í 28. erindi Geisla eftir Einar Skúlason, á 12. öld, frumflutt við vígslu Niðaróssdómkirkju.

Ilbleikir, sbr. 43. erindi Geisla.

Göfugt ljós boðar geisli , sbr. 1. erindi Geisla.

Kristur ræður krafti hæstum, sbr. 4. erindi Geisla.

Hríðblásnum , sbr. 7. erindi Geisla.

Öld bregður við aðra , sbr. 13. erindi Velleklu eftir Einar Helgason skálaglamm, d. 995.

Nú grær jörð sem áðan , sbr. 16. erindi Velleklu.