Björn Steinar Sólbergsson við orgel Akureyrarkirkju.
Björn Steinar Sólbergsson við orgel Akureyrarkirkju.
FJÓRÐU tónleikar tónleikaraðarinnar Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða á morgun kl. 17. Björn Steinar Sólbergsson, organisti kirkjunnar, leikur á orgelið að þessu sinni og flytur öll orgelverk Páls Ísólfssonar. Þú flytur einvörðungu verk eftir Pál.

FJÓRÐU tónleikar tónleikaraðarinnar Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða á morgun kl. 17. Björn Steinar Sólbergsson, organisti kirkjunnar, leikur á orgelið að þessu sinni og flytur öll orgelverk Páls Ísólfssonar.

Þú flytur einvörðungu verk eftir Pál. Hvers vegna?

"Undanfarna mánuði hef ég verið að æfa verk Páls en síðla árs kemur út á vegum Skálholtsútgáfunnar geisladiskur þar sem ég leik öll orgelverkin hans. Einnig eru á þessu ári 110 ár frá fæðingu Páls."

Hvað laðar þig að tónlist hans?

"Páll Ísólfsson er einn af frumkvöðlum og máttarstólpum íslenskrar tónlistarsögu. Hann var mjög fjölhæft tónskáld og samdi m.a. hljómsveitarverk, orgelverk, kórverk, sönglög, píanólög og leikhúsverk. Hann helgaði sig uppbyggingu íslensks tónlistarlífs og var mjög virkur á öllum sviðum þess; kom fram á tónleikum, fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, einn af stofnendum Tónlistarfélagsins í Reykjavík, fyrsti formaður Félags íslenskra organleikara, dómorganisti og svo mætti lengi telja. Auk alls þessa var hann afkastamikið tónskáld."

Hvernig lýsir þú tónlist Páls?

"Orgeltónlistin ber mark þess tíma sem hún var samin á. Hann var mjög undir áhrifum frá rómantíska tímabilinu. Hann lærði í Þýskalandi, m.a. hjá tónskáldinu Max Reger sem skrifaði mikið fyrir orgel. Tónlist Páls ber þessi merki en hann hefur þó sinn persónulega stíl. Páll samdi líka talsvert mikið fyrir píanó og mikið af sönglögum sem eru e.t.v. þekktust eftir hann. Þar eru margar perlur sem Íslendingar þekkja. Það var alveg með ólíkindum hvað hann afkastaði miklu miðað við hvað hann var upptekinn. Hann var svo mikill eldhugi og mótandi á svo mörgum sviðum og þurfti að gera svo margt áður en hann gat sest niður og farið að semja."

Hvaða verk verða leikin á morgun?

"Þrjú stór orgelverk og tólf smærri sálmforleiki. Chaconne um stef úr Þorlákstíðum, Ostinato et fughetta, Introduction og Passacaglia og Sálmforleiki op. 3."

Hefur tónlist Páls staðist tímans tönn?

"Mér finnst tónlist Páls eiga erindi til okkar í dag, ekki síður en þegar hún var samin. Tónlist er í raun sígilt fyrirbæri. Í dag erum við að hlusta á tónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar."

Hvernig er að fá fólk á tónleika yfir hásumarið?

"Þetta er 17. starfsárið og aðsóknin hefur aukist ár frá ári. Í sumar hefur aðsóknin verið alveg hreint frábær. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem vita að það eru tónleikar hérna alla sunnudaga í júlí og mjög margir taka mið af því í sínu sumarfríi."

Finnst þér fólk sýna orgelleik áhuga?

"Já mér finnst fólk sýna þessari tónlist áhuga. Það er mjög mikið um að innlendir og erlendir ferðamenn skoði kirkjuna. Þegar ég er að æfa mig og fólk fær tækifæri til að heyra í orgelinu þá er það alsælt og mikið um að fólk kemur og þakkar mér fyrir."

Tónleikarnir eru um klukkustundar langir. Björn Steinar mun leika þessi verk í Reykjavík í haust.