Erlendir hjólreiðamenn á Þingvöllum.
Erlendir hjólreiðamenn á Þingvöllum.
Að baki hugmyndinni um almannaheill býr gildismat á því hvað sé almenningi til heilla og hvað skaði hann. Í einkadansmálinu svonefnda var þetta gildismat túlkað með hliðsjón af atvinnufrelsi og velsæmi.

Að baki hugmyndinni um almannaheill býr gildismat á því hvað sé almenningi til heilla og hvað skaði hann. Í einkadansmálinu svonefnda var þetta gildismat túlkað með hliðsjón af atvinnufrelsi og velsæmi. Í víðara samhengi má hins vegar fullyrða að það séu einnig önnur og e.t.v. þungvægari gildi en þessi tvö sem tekist er á um í þessu máli. Eitt af þeim er óheft viðskiptafrelsi sem hefur m.a. í för með sér markaðsvæðingu mannslíkamans og kynlífs-og klámvæðingu samfélagsins. Allt skal vera falt, hvort sem það eru heilir líkamar, einstök líffæri eða kynlíf. Skoða verður atvinnufrelsi hinna svokölluðu súludansstaða í ljósi þessarar þróunar og efnahagslegs mismunar milli landa og heimshluta, sem gerir að verkum að vafasamt verður að teljast hvort nektardansarar hafi yfirleitt frjálst val til þess að stunda iðju sína, þ.e. til þess atvinnufrelsis sem veitingahúsið krafðist sér til handa í einkadansmálinu. Ef þeir hafa ekki frjálst val, getur einkadans leitt dansarana út í iðju sem kemur niður á mannlegri virðingu þeirra. Að þessu leyti má segja að hæstaréttardómurinn um bann við einkadansi snúist um baráttu gegn mannréttindabrotum sem þrífast í skjóli efnahagslegs misræmis milli fátækra og ríkra landa. Dómurinn snýst af þessum sökum ekki aðeins um almennt velsæmi í Reykjavíkurborg. Það má líta á hann sem staðbundna viðleitni til að stemma stigu við hnattrænum kynlífs- og klámiðnaði (þótt hér verði ekki fullyrt um það hvort þetta hafi verið markmið dómsins).

Skírnir, vorhefti 2003.

Sigríður Þorgeirsdóttir.

Kynda undir kúgun

Conor Gearty er prófessor í mannréttindalögum við LSE (London School of Economics) og hann hefur bent á það í breskum fjölmiðlum að hafi Al-Kaída-samtökin vonast eftir almennri uppreisn arabaheimsins í kjölfar árásanna á Bandaríkin hafi þau orðið fyrir vonbrigðum enda hafi ekkert slíkt gerst. Hins vegar hafi það verið mjög ólíklegt enda sýni sagan að byltingar brjótist ekki út sökum einstakra atburða, það sýni t.d. fjölmörg tilræði við Rússakeisara á 19. öld. Það þurfi meira til og reyndar sé líklegra að einstök atvik sem þetta kyndi undir kúgun af hálfu þess sem ráðist er á.

Vefritið Múrinn.is, 25.7.