SENDIHERRA Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum brást í gær ókvæða við aðdróttunum um að sádi-arabísk stjórnvöld kunni að hafa komið nálægt undirbúningi hryðjuverkaárásanna 11. september 2001.

SENDIHERRA Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum brást í gær ókvæða við aðdróttunum um að sádi-arabísk stjórnvöld kunni að hafa komið nálægt undirbúningi hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Sagði hann aðdróttanir þessa efnis, sem er að finna í rannsóknarskýrslu Bandaríkjaþings um aðdraganda hryðjuverkanna er birt var í fyrradag, vera "algerlega rangar".

Sendiherrann, Bandar bin Sultan prins, segir í yfirlýsingu vegna þingskýrslunnar að strikað hafi verið yfir þá kafla í skýrslunni þar sem fjallað væri um hugsanlegan þátt sádi-arabískra stjórnvalda vegna þess að ekki hefði reynzt unnt að færa trúverðug rök fyrir þess háttar aðdróttunum.

Hvíta húsið hefur neitað að aflétta leynd af 28 síðum í skýrslunni, en sú ákvörðun hefur verið harðlega gagnrýnd af þingmönnum á Bandaríkjaþingi.

Liður í áætlun um að knýja fram stjórnarfarsbreytingar?

Sádi-arabískir stjórnmálaskýrendur segja aðdróttanirnar í bandarísku rannsóknarskýrslunni vera lið í tilraun "hauka í Washington" til að auka pólitískan þrýsting á stjórnvöld í Riyadh og knýja jafnvel fram álíka róttæka breytingu á stjórnarháttum þar og Bandaríkjamenn eru nú búnir að ná fram í Írak.

"[Haukarnir] vonast til að það sem gerðist í Afganistan og Írak gerist líka í Sádi-Arabíu. Þeir vilja róttækar, algerar breytingar. Það er þess vegna sem þeir beina spjótum sínum að konungdæminu," tjáði sádi-arabíski stjórnmálafræðingurinn Turky al-Hamad AFP-fréttastofunni.

Washington, Riyadh. AFP.