Í LISTASAFNI Reykjavíkur í Hafnarhúsinu standa nú yfir þrjár sýningar; Humar eða frægð - Smekkleysa í 16 ár, Erró - Stríð og Innsýn í alþjóðlega samtímalist á Íslandi.

Í LISTASAFNI Reykjavíkur í Hafnarhúsinu standa nú yfir þrjár sýningar; Humar eða frægð - Smekkleysa í 16 ár, Erró - Stríð og Innsýn í alþjóðlega samtímalist á Íslandi.

Um helgina verður efnt til sérstakrar dagskrár í Hafnarhúsinu sem er hluti af þemanu Listrænn laugardagur sem Þróunarfélag miðborgarinnar stendur fyrir. Boðið er upp á Smekkleysubíó þar sem sýndar verða tvær myndir; Á Guðs vegum, tónleikamynd Sykurmolanna og einstæð upptaka frá tónleikum Jasshljómsveitar Konráðs Bé á Hótel Borg árið 1990. Fyrri myndin verður sýnd kl. 14 á laugardag og sunnudag og síðari myndin kl. 16 báða dagana. Á laugardaginn kl. 15 verður auk þess leiðsögn um sýninguna Humar eða frægð sem sýningarstjórinn og liðsmaður Smekkleysu, Ólafur Engilbertsson, sér um. Leiðsögnin tekur um 30 mínútur en að henni lokinni mun hipp hopp hljómsveitin Kritikal Mazz leika nokkur lög. Í tilefni af Listrænum laugardegi er frítt í Hafnarhúsið frá kl. 13. Opnunartími er daglega frá kl. 10-17.