Snorrahópurinn 2003. Lengst til vinstri er Almar Grímsson, formaður Snorrasjóðsins og varaformaður Þjóðræknisfélagsins, en lengst til hægri er Markús Örn Antonsson, formaður Þjóðræknisfélagsins. Við hliðina á honum er Úlfar Sigurmundsson, varaformaður Snor
Snorrahópurinn 2003. Lengst til vinstri er Almar Grímsson, formaður Snorrasjóðsins og varaformaður Þjóðræknisfélagsins, en lengst til hægri er Markús Örn Antonsson, formaður Þjóðræknisfélagsins. Við hliðina á honum er Úlfar Sigurmundsson, varaformaður Snor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorraverkefninu á Íslandi 2003 lauk í gær og í dag halda 15 bandarísk og kanadísk ungmenni af íslenskum ættum til síns heima. Steinþór Guðbjartsson ræddi við tvo þátttakendur, Danielle Laxdal frá Kanada og Dwight Jonsson frá Bandaríkjunum.

ÞETTA hefur verið ógleymanlegur tími og við höfum upplifað ótrúlega margt," segir Danielle Laxdal, sem ásamt 14 öðrum ungmennum frá Kanada og Bandaríkjunum tók þátt í svonefndu Snorraverkefni hér á landi undanfarnar sex vikur.

Snorraverkefnið er samstarfsverkefni Norræna félagsins og Þjóðræknisfélags Íslendinga og hafa samtals 75 ungmenni tekið þátt í því á undanförnum fimm árum eða 15 í hvert sinn. Að þessu sinni voru átta þátttakendur frá Kanada og sjö frá Bandaríkjunum og hafa aldrei fleiri verið frá Bandaríkjunum, en færri komust að en vildu. Unga fólkið er á aldrinum 18 til 26 ára, sex piltar og níu stúlkur, en þau eru Aaron Willis frá Torontó, Andrew Hjalmarson Evans frá Costa Mesa í Kaliforníu, Crystal Salmonson frá Chico í Kaliforníu, Benjamin Henry frá Victoria, Danielle Laxdal frá Winnipeg, Dawn Dowhayko frá Winnipeg, Dwight Jonsson frá Kirkland í Washingtonríki, Erin Johnson frá Los Gatos í Kaliforníu, Heather Alison Crozier frá St. Albert í Albertafylki, Jennifer Holand frá Fargo, Kristin Grisdale frá Okotoks í Albertafylki, Kristin Hillman frá Grand Forks, Kristjan Adam Heimir Boe frá St. Albert, Michael Sproule frá Winnipeg og Sarah Arnason frá Charlottesville. "Þetta hefur gengið mjög vel og það er alltaf gaman að sjá ný tengsl verða að veruleika," segir Ásta Sól Kristjánsdóttir, sem hefur verið verkefnisstjóri frá upphafi.

Vill stofna listaskóla hérlendis

Ein stúlkan í hópnum hafði komið áður til Íslands en í öllum tilfellum kom fólkið hingað fyrst og fremst til þess að kynnast upprunanum. "Ég sótti um að komast á þetta námskeið vegna þess að ég vildi fræðast um Ísland á Íslandi og kynnast upprunanum," segir Danielle. Dwight Jonsson tekur í sama streng. "Ég er listamaður, málari, og vildi sjá landið sem ég á ættir að rekja til í föðurætt. Íslenskir málarar hafa vakið athygli mína og ég vildi kynna mér þá nánar, sjá landslagið og kynnast fólkinu hérna."

Dwight er 24 ára og lauk háskólanámi í listum í vor sem leið, en hann gaf Listasafni Reykjavíkur verk eftir sig við komuna til Reykjavíkur í gær. Hann bjó lengst af hjá Kristjáni Björnssyni og Sesselju Finnsdóttur í Borgarnesi. "Gestrisni þeirra var alveg með ólíkindum og það er sama hvar ég fór - alls staðar fann ég fyrir mikilli hlýju og maturinn er kapítuli út af fyrir sig. Ég hef ekki áður borðað eins mikið og í þessari ferð," segir hann og bætir við að hann sé farinn að huga að næstu heimsókn. "Mig langar til að stofna listaskóla hér á Íslandi. Ég hef áhuga á að kaupa eyðibýli og bjóða þar upp á kennslu í listum fyrir Vestur-Íslendinga. Þessi hugmynd hefur þróast með mér undanfarnar vikur þegar ég hef gengið um þetta fallega land og hrifist af umhverfinu. Næsta skref er að hafa samband við fasteignasölur og sjá hvaða húsnæði stendur til boða, en ég hef viðrað hugmyndina við nokkra bændur og hefur þeim litist vel á. Síðan ætla ég að athuga með fjárstuðning í Bandaríkjunum og svo er bara að hefjast handa en ég er sannfærður um að geta hafið starfsemi næsta vor."

Heimssýn á slóðum forfeðranna

Danielle er 21 árs og lauk BA-prófi í vor en hún hefur í hyggju að fara í læknisfræði og bæta við íslenskukunnáttuna. Í föðurætt er Danielle ættuð úr Dalasýslu en hún bjó hjá Melkorku Benediktsdóttur og Sigurbirni Sigurðssyni á Vígholtsstöðum við Búðardal og kynnti sér sérstaklega reksturinn á þjóðveldisbænum Eiríksstöðum. "Það var mjög gaman og áhugavert að vera á Eiríksstöðum því þar hitti ég ferðamenn alls staðar að úr heiminum og fékk því svolitla heimssýn á slóðum forfeðranna. Ég hef farið til Spánar, Bandaríkjanna og Mexíkó og í samanburði er Ísland sérstakt."

Þau segja að þau hafi ekki þekkt skyldfólk á Íslandi fyrir ferðina en kynnst mörgum ættingjum á nýliðnum sex vikum. "Áður en ég sótti um að fá að taka þátt í þessu verkefni vissi ég ekki um neina ættingja hér á landi en ég fékk upplýsingar frá stjórnendum verkefnisins og í kjölfarið gat ég hitt margt skyldfólk," segir Danielle. Dwight segir að sama hafi verið upp á tengingnum hjá sér. "Afi hefur oft heimsótt Ísland en ég þekkti enga ættingja fyrr en ég kom hingað. Kynnin hafa verið þeim mun ánægjulegri og einn tveggja ára frændi minn er mér ofarlega í minni. Þegar hann segir traktor gefur hann frá sér hljóð eins og fuglar gera. Trrraktor."

"Ég kann pínulítið í íslensku," segir Danielle, en Dwight segist aðallega hafa notað eina setningu. "Ég hef lært svolítið í íslensku en sú setning sem ég hef oftast notað og á best við er "ég er pakksaddur"," segir hann.

steg@mbl.is