Í FRÁSÖGNUM fjölmiðla af skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaga hefur komið fram, að Þórólfur Árnason borgarstjóri í Reykjavík kunni að hafa tekið þátt í ólögmætu samráðinu meðan hann var starfsmaður Olíufélagsins hf. fyrir nokkrum árum.

Í FRÁSÖGNUM fjölmiðla af skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaga hefur komið fram, að Þórólfur Árnason borgarstjóri í Reykjavík kunni að hafa tekið þátt í ólögmætu samráðinu meðan hann var starfsmaður Olíufélagsins hf. fyrir nokkrum árum. Fréttamenn hafa eðlilega snúið sér til Þórólfs og óskað eftir að hann tjáði sig um réttmæti þessara ásakana og skýrði þátt sinn í málinu ef einhver væri. Hann hefur engu viljað svara. Segist hann ekki tjá sig um málið meðan rannsókn Samkeppnisstofnunar er ólokið.

Þessi viðbrögð borgarstjórans eru með öllu ófullnægjandi. Ef um væri að ræða mann, sem ekki gegndi opinberum trúnaðarstörfum væri ekkert við því að segja að hann gæfi svör af þessu tagi. Slíkur maður hefði fullan rétt á að bíða með svör, þar til hann sæi sakirnar formlega fram bornar. Þórólfur hefur hins vegar tekið við starfi, þar sem hann kallar eftir trúnaði almennings í Reykjavík. Viðbrögð hans við spurningum fréttamanna eru ekki trúverðug. Þau benda til þess, að hann vilji fá að sjá hvaða upplýsingar samkeppnisyfirvöld hafi undir höndum um aðild hans að þessum meintu lögbrotum, áður en hann tjáir sig um þau. Virðist hann vilja halda opnum þeim möguleika, að tjá sig ekki um meira en upplýst verður.

Möguleikarnir eru þrír:

1.Hann gerði ekkert rangt. Í því tilviki getur hann ekki átt í neinum vandræðum með að segja það.

2.Hann gerði bara það sem hann veit að Samkeppnisstofnun hefur upplýsingar um. Í þessu tilviki gildir hið sama. Hann hlýtur að geta tjáð sig um málið. Hlutur hans verður hvorki betri né verri en þegar er orðið.

3.Hann gerði meira en Samkeppnisstofnun veit um. Það er aðeins í þessu tilviki sem hann getur haft ástæðu til að tjá sig ekki, því ef hann segist opinberlega bara hafa gert það sem fram er komið, tekur hann áhættu á að meira komi síðar í ljós og hann verði þá ber að því að hafa þagað um það. Ef hann á hinn bóginn viðurkennir meiri aðild en stofnunin veit um er hann að upplýsa hana um misgerðir, sem henni eru ennþá ókunnar.

Þórólfur Árnason borgari nýtur eins og við hin þess réttar að skoðast saklaus af meintum lögbrotum, þar til sekt hans er sönnuð með lögfullum hætti. Borgarstjórinn í Reykjavík getur hins vegar ekki talist njóta nauðsynlegs trúnaðar til að gegna starfi sínu ef hann lætur ósvarað spurningum almennings um meinta aðild sína að lögbrotum, sem í þokkabót eru sögð að einhverju marki hafa beinst að Reykjavíkurborg. Það er því ekki við það unandi, að borgarstjórinn neiti að svara en haldi samt áfram að gegna starfi sínu. Þetta þarf hann að skilja.

Höfundur er prófessor við lagadeild HR.