VERÐ sem kúabændur fá fyrir nautakjöt er svo lágt að það stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Verði ekki gripið til ráðstafana til þess að bæta afkomu kúabænda, s.s.

VERÐ sem kúabændur fá fyrir nautakjöt er svo lágt að það stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Verði ekki gripið til ráðstafana til þess að bæta afkomu kúabænda, s.s. með opinberum styrkjum, verður erfitt að tryggja framboð eftir 2-3 ár, að sögn Snorra Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda.

Í samantekt félagsins kemur fram að danskir bændur fá 25% hærra verð fyrir ungnautakjöt en íslenskir. Niðurstaðan komi ekki á óvart enda hafi verð á nautakjöti hríðlækkað undanfarin ár. Framleiðsla í Danmörku byggist á svipuðum aðferðum og hérlendis en kostnaður sé verulega lægri en hér á landi, bæði vegna landkosta og lágs fóðurkostnaðar.

Ekki svigrúm til verðhækkana

Einnig kemur fram að meðalverð á ungnautakjöti hérlendis er um þessar mundir 286,4 kr./kg en í Danmörku fær bóndi með sömu framleiðslu 357,5 kr./kg. Stór hluti þess verðs eru styrkir (49,8%) en hérlendis er nautakjöt framleitt án styrkja. Ísland sé eina landið í Evrópu þar sem nautakjöt er selt neytendum án þess að kjötið sé niðurgreitt með einum eða öðrum hætti.

Ekki eru heldur greiddir styrkir vegna framleiðslu á kjúklingum eða svínum en Snorri segir að nautgriparæktun lúti öðrum lögmálum, ekki síst vegna þess að framleiðslutími sé mun lengri eða 2-3 ár. Af þeim sökum mun samdráttur í framleiðslu ekki koma fram á mörkuðum fyrr en eftir árin 2005-2006. Snorri segir að vegna offramboðs á öðrum kjöttegundum sé lítið svigrúm til verðhækkana og þá taki milliliðir til sín lægra hlutfall af útsöluverði en áður. Þó sé nauðsynlegt að hækka verð til bænda með einhverjum hætti, helst um þriðjung. 50 milljónir í styrki á ári myndu duga til þess að tryggja stöðugt framboð.