LÍKUR eru taldar á því að markaðir fyrir frysta síld verði þokkalegir næstu mánuðina. Verð á síldinni náði hámarki um áramótin 2001/2002, sem leiddi til kauptregðu.

LÍKUR eru taldar á því að markaðir fyrir frysta síld verði þokkalegir næstu mánuðina. Verð á síldinni náði hámarki um áramótin 2001/2002, sem leiddi til kauptregðu. Verðið féll svo verulega í fyrra og lýstu Norðmenn markaðsástandinu þá sem einhverju versta ári í sögu síldarútflutnings. Ekki blæs byrlega í ár í norskum síldarútvegi en það er gott hljóð í íslenskum síldarsölumönnum.

Gert er ráð fyrir að eftirspurn aukist að nýju og meira jafnvægi ríki milli framboðs og eftirspurnar, en engar líkur eru taldar á því að verðið nái fyrri hæðum.

Minna til Póllands

Samkvæmt upplýsingum um innflutning Pólverja, dróst hann mikið saman á síðasta ári, einkum vegna þess að verð í gjaldmiðli landsins, zloty, hafði hækkað nokkuð. Þannig minnkaði innflutningur um 46% á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs, en verðið hækkaði um 11%. Innflutningur frá Noregi dróst saman um tvo þriðju, en Svíar juku hlut sinn. Innflutningur á ferskri síld og frystum flökum dróst saman um 26%, en verðið hækkaði um 5%.

Útflutningur Norðmanna á heilfrystri síld á þessu ári hefur enn haldið áfram að dragast saman. Á hinn bóginn hafa Íslendingar og Færeyingar aukið hlut sinn á þessum markaði verulega, en salan þangað þrefaldaðist á síðasta ári. Nú, þegar samið hefur verið við Norðmenn um veiðar á norsk-íslenzku síldinni, má gera ráð fyrir því að hærra hlutfall aflans verði fryst úti á sjó fyrir markaði í austanverðri Evrópu.

Meira til Rússlands

Markaðurinn fyrir frysta síld í Rússlandi stækkaði töluvert á síðasta ári og var nærri 300.000 tonn. Aukningin varð fyrst og fremst vegna eigin veiða Rússa og innflutnings frá Noregi. Einnig flytja Rússar inn töluvert af síld frá Eystrasaltslöndunum, sem þangað hefur komið frá Noregi og löndum Evrópusambandsins.

Sala á síld til Austur-Evrópu hefur aukizt á þessu ári. Eftirspurn er mest í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta- Rússlandi, enda eru þar minni birgðir en í fyrra.

Gott hljóð í Íslendingum

Að sögn Teits Gylfasonar, sölustjóra SÍF fyrir A-Evrópu, er nánast öll sumarsíldin seld hjá þeim og hann segir að síldarmarkaðir séu í fínu jafnvægi.

"Það er ágæt eftirspurn og allavega sú síld sem við höfum höndlað með í sumar, og við erum með talsvert magn, er að mestu seld og mestmegnis á þokkalegu verði þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta."

Þann vanda sem hrjáð hefur norskan síldarútveg segir Teitur vera algjörlega heimatilbúinn. Hann liggi í því að þeir eigi mjög mikla kvóta eftir sem þeir óttist að geta ekki veitt upp í, verðlagning síldarinnar sé ákveðin af einum aðila og tryggingafélög sem hafi tryggt greiðslur til fiskiskipa frá verkendum í Noregi hafi sagt þeim upp. Ástæðan sé m.a. sú að norskur sjávarútvegur sé rekinn með gífurlegum halla og tryggingafélögin treysti því ekki að þessi norsku fyrirtæki lifi það af að geta staðið við sínar skuldbindingar gagnvart hráefnisbirgjum.