Smack á hljómleikum.
Smack á hljómleikum.
HLJÓMSVEITIN Smack er tæplega ársgömul um þessar mundir. Sveitin var stofnuð síðasta sumar upp úr pöbbabandinu Johnny on the Northpole og gaf út diskinn Number One fyrir síðustu jól.

HLJÓMSVEITIN Smack er tæplega ársgömul um þessar mundir. Sveitin var stofnuð síðasta sumar upp úr pöbbabandinu Johnny on the Northpole og gaf út diskinn Number One fyrir síðustu jól. Hefur lagið "Emotion", af nefndri plötu, glumið tíðum á öldum ljósvakans og hafa Smack verið iðnir við spilamennsku síðastliðið ár.

Nýverið var gert myndband við lagið "Would You Mind" af Number One, þriðju "smáskífuna" af plötunni. Þar með er sú plata að baki, að mati Þorsteins Bjarnasonar, söngvara og höfuðlagasmiðs, en með honum í spjalli er trymbill sveitarinnar, Gísli Elíasson. Með "smáskífu" er ekki verið að meina eiginlega smáskífu, enda slíkt nánast ekki til hérlendis. Það sem er hins vegar átt við er að þetta er þriðja lag plötunnar sem er dreift til útvarpsstöðva og ætlað til spilunar. Annað lagið var "Johnny on the North Pole", rokkari sem stingur þægilega í stúf við hið ballöðukennda "Emotion".

"Í myndbandinu nýja leikur Íris Björk fegurðardrottning og það kasólétt," segir Þorsteinn, sem einatt er kallaður Steini. "Fjölnir Braga, húðflúrskóngur með meiru, leikur þá sjálfan sig. Tilgangurinn með þessu er einfaldlega sá að minna á sig."

Smack treður upp í Eyjum á bráðkomandi Þjóðhátíð. Upptaka á nýju efni stendur svo fyrir dyrum í haust.

"Við erum með fullt af nýju efni á lager og er farið að klæja í puttana að fara að setja nýtt efni á band," segir Þorsteinn. "Og svo er það bara áframhaldandi spilamennska. Okkur langar líka að fara að kíkja til útlanda en það er enn sem komið er á pælingastigi. Það væri bara gaman að prófa að spila í útlöndum. Við höfum verið í sambandi við tvo eða þrjá aðila síðan á Airwaves en það þarf líka að huga að fjármálahliðinni ef það á að leggja í einhverja útrás. Þessi bransi getur verið mikið hark. Þetta er erfitt... en gaman," segir Þorsteinn að lokum og glottir í kampinn.