Ólafur Gunnarsson fæddist á Akranesi 21. mars 1959. Hann lést 15. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Borgarneskirkju 25. júlí.

Það er erfitt að trúa því að góður vinur og jafnaldri af næsta bæ, hann Óli í Borgarholti, sé allur. Það er erfitt að sætta sig við að hann skuli vera farinn, ekki nema 44 ára gamall, en trú manns er sú að honum sé ætlað annað og mikilvægara hlutverk. Hvaða hugsanir ná tökum á huga manns við svona aðstæður? Jú, það eru minningar og aftur minningar frá liðnum árum og þá sérstaklega skólaárunum þar sem við Óli vorum keyrðir saman í skólann, deildum saman herbergi á heimavistinni, sátum saman í skólastofunni og í matsalnum. Sá sem átti Ólaf Gunnarsson að vini var ekki á flæðiskeri staddur, hvorki í leik né starfi. Það var ekki heldur ónýtt fyrir okkur sem vorum og kannski erum enn svolítið minni og ekki eins stæðilegir og flestir, að eiga jafnhraustan og stæðilegan vin og Óli var.

Óli var frá því að ég man eftir mér alltaf mjög virkur þátttakandi í því sem hann tók sér fyrir hendur, því að hann var þeirrar skoðunar að betra væri að láta hlutinn ógerðan en að geta ekki lagt sig allan fram. Strax á fyrstu árunum í skólanum tók hann t.d. þátt í leiklistarstarfi og voru ófáir leikþættir sem og heilu leikritin, svo sem Gullna hliðið o.fl., sett upp. Alltaf var Óli þátttakandi og honum oftar en ekki falin stærstu hlutverkin. Áhugi og þátttaka hans í leiklist hélst allt fram á hans síðasta dag. Óli fór alltaf með stór hlutverk í lífinu og leysti þau vel. Hann fór sér yfirleitt hægt, var yfirvegaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur en skilaði hlutverki sínu, hvort heldur var á leiksviðinu eða í hinu daglega lífi. Óla er best lýst með orðunum "algjört ljúfmenni" sem hann var jafnt í leik, starfi og sem tryggur fjölskyldufaðir. Uppátektarsemi er samt orð sem kemur upp í hugann þegar minningarnar fara í gegnum huga manns, því að það voru ófá "prakkarastrikin" sem við gerðum á yngri árum. Þau verða ekki rifjuð upp hér heldur eru þau vandlega geymd sem og aðrar góðar minningar um trygga vináttu Óla og fjölskyldu hans því að í Borgarholti, þar sem foreldarar hans bjuggu til skamms tíma, var manni alltaf vel tekið og um mann hugsað eins og maður væri einn úr barnahópnum. Það var alltaf mjög kært á milli heimilisfólks í Borgarholti og Straumfjarðartungu og er það von mín og trú að svo verði áfram þótt stórt skarð sé höggvið í fjölskylduna frá Borgarholti, sem aldrei verður hægt að fylla.

Elsku Ingveldur, Gunnar og Inga, ég votta ykkur og börnum ykkar mína dýpstu samúð og bið góðan Guð að styrkja ykkur í þeirri sorg sem á ykkur hvílir nú. Ég veit að þið eins og allir vinir Ólafs Gunnarssonar geymið minningu um góðan dreng í hjarta ykkar.

Páll Ingólfsson.

Vinur okkar og frændi, Óli, er dáinn.

Elsku Óli, við kveðjum þig með söknuði eftir sviplega brottför þína. Eina stundina stendurðu bara og spjallar og grínast eins og þér einum er lagið og hina næstu ertu farinn. Þín verður saknað í ferðalögum sem þú hafðir svo gaman af og eftir að hafa ferðast svona mikið saman verður erfitt að skoða landið með sama hugarfari án þín. Þú vissir alltaf hvað var skemmtilegt að skoða og alltaf var góða skapið með í för hjá þér. Það verður lengi í minnum okkar þegar þú fékkst grillleiðbeiningarnar frá henni Möggu því að þér gekk svo illa að kveikja í grillinu í einu ferðalaginu. Einnig var alltaf gaman að heyra í þér og Jóhanni vera að grínast hvor í öðrum. Það var mikið fjör þá. Að sama skapi verður erfitt að halda veislur án þess að hafa þig á staðnum sem hrók alls fagnaðar. Enda hafðirðu mjög gaman af að koma heim til okkar í terturnar hennar Sigrúnar. Þær voru líka alltaf á boðstólum þegar þú komst til okkar. Það verður skrítið að koma í heimsókn til þín og þú verður ekki þar. Það tekur langan tíma að venjast því ef það verður þá einhverntímann hægt.

Þú hafðir alltaf gaman af trjárækt og gróðri og þér fannst gaman að dunda þér við það. Enda var allt vel gert sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú varst með töfrahendur sem unnu mörg verk hratt og auðveldlega. Elsku Óli, þú getur hvílst rólegur, vitandi það að það verður hugsað vel um trén þín til minningar um þig.

Við vottum eiginkonu, börnum þínum og öðrum fjölskyldumeðlimum dýpstu samúð okkar. Guð blessi ykkur í sorg ykkar.

Jóhann, Sigrún, Margrét og

fjölskylda, Berglind og Bergur.