Einhæft bóknám virðist síður henta strákum en stelpum. Strákum líður oftar illa í skólanum en stelpum (myndin er sviðsett).
Einhæft bóknám virðist síður henta strákum en stelpum. Strákum líður oftar illa í skólanum en stelpum (myndin er sviðsett).
Strákar hafa dregist aftur úr stelpum á öllum skólastigum í 43 iðnríkjum heims, þ.m.t. á Íslandi. Anna G. Ólafsdóttir velti því fyrir sér hvort að ástæðuna væri að finna í skólunum, inni í fjölskyldunni eða úti í samfélaginu - og síðast en ekki síst hvað væri til ráða.

LANGFLESTIR foreldrar eiga sammerkt að bera hag barnanna sinna fyrir brjósti. Við viljum stuðla að því að börnin okkar búi við gott atlæti, fái sömu tækifæri til þroska og menntunar og önnur börn. Engan þarf því að undra að skýrsla á borð við nýja skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) um menntun á öllum skólastigum veki athygli. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum gefur skýrslan til kynna að stúlkur sigli hraðbyri fram úr piltum í námi á öllum skólastigum í 43 iðnríkjum heims, þ.m.t. Bandaríkjunum, Japan, Ástralíu, Spáni og hér uppi á Íslandi. Stúlkurnar séu mun líklegri en piltarnir til að leggja stund á háskólanám og trúa því frekar að þeirra bíði hálaunuð störf að námi loknu.

En hvað hefur í rauninni verið að gerast? Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur hefur skoðað kynjamun í skólastarfi í gegnum störf sín fyrir rannsóknarmiðstöðina Rannsóknir og greiningu og í tengslum við framhaldsnám sitt í Bandaríkjunum. "Þróunin felst í því að stelpur hafa verið að sækja í sig veðrið þar sem þær stóðu verr að vígi en strákarnir, t.d. í stærðfræði og fleiri raungreinum. Munurinn á milli stelpnanna og strákanna hefur því farið minnkandi á þessu sviði," segir Inga Dóra og bætir við að stelpurnar séu jafnvel komnar fram úr strákunum í sumum raungreinum. "Sama þróun hefur ekki orðið hjá strákunum. Munurinn hefur ekkert minnkað í fögum þar sem þeir stóðu verr að vígi, t.d. í lestri og öðrum lesfögum. Ef á heildina er litið eru stelpurnar því stöðugt að bæta forskot sitt á meðan strákarnir standa í stað. Munurinn er einna mestur í tungumálum eins og íslensku og dönsku. Ekki má heldur gleyma því að strákunum líður í fleiri tilfellum verr í skólanum en stelpunum. Þeir eiga frekar í útistöðum við aðra, þjást frekar af námsleiða o.s.frv."

Allar kannanir Rannsókna og greiningar, sem lagðar hafa verið fyrir á undanförnum árum, hafa leitt í ljós umtalsverðan kynjamun í skólastarfi. Mestur reyndist kynjamunurinn yfirleitt í dönsku. Í könnun sem gerð var árið 1997 sögðust til að mynda 17% stelpnanna miðað við yfir 38% strákanna hafa fengið einkunnina 5 eða lægra í dönsku á síðasta prófi. Hins vegar sögðust 29% stelpnanna miðað við 13,6% strákanna hafa náð 9 eða hærri einkunn í sömu grein. Minnstur var kynjamunurinn í stærðfræði. Alls sögðust tæplega 29% stelpnanna miðað við 34% strákanna hafa verið með einkunn um eða undir 5. Um 22,5% stelpna og um 20% stráka sögðust hafa verið með einkunn á bilinu 9 til 10. Með sama hætti kom í ljós að strákunum leið almennt verr í skólanum en stelpunum, t.d. töldu ríflega 5,9% stráka miðað við 1,9% stelpna staðhæfinguna um að námið væri tilgangslaust nær alltaf eiga við sig. Tæplega 58% stráka samanborið við liðlega 70% stelpna töldu staðhæfinguna sjaldan eða aldrei eiga við sig.

Stelpurnar aðlögunarhæfari

Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla, hefur velt því fyrir sér hvers vegna strákar hafi verri reynslu af skólakerfinu en stelpur. "Ég held að við ættum að byrja á því að skoða hvaða þróun hefur orðið í skólunum síðustu áratugi. Skapandi og verklegt starf hefur í raun verið á undanhaldi. Skólakerfið leggur mjög einhliða áherslu á bóknám eins og lestur skrift og reikning. Með lengri viðveru eykst aðeins staglið eins og bóknámið er stundum kallað. Ég held að þessi ofuráhersla á bóknámið henti hvorki strákum né stelpum. Stelpur lagi sig bara frekar að þessum kröfum en strákarnir. Við kennararnir sjáum auðvitað hversu miklu auðveldara er að fá stelpur en stráka til að setjast niður og vinna bókleg verkefni."

Hafsteinn hefur bent á að ólíkir leikir kynjanna á skólalóðinni gefi ákveðnar vísbendingar um hvaða leiðir henti þeim best í skólastarfinu. Í grein undir yfirskriftinni Er karlmennska að hverfa úr skólunum? kemur fram að piltar leiki sér gjarnan margir saman og atgangurinn geti orðið gríðarlegur þó að gjarnan sé farið eftir afar ákveðnum reglum. "Fótbolti er dæmigerður strákaleikur," segir Hafsteinn í greininni og minnir á að fótbolti feli í sér marga þátttakendur, mikla virkni og strangar reglur. "Leikir stelpnanna eru rólegri. Þar eru þátttakendur gjarnan færri og oft byggjast þeir á því að aðeins ein þeirra er að í einu. Hinar bíða rólegar eftir að röðin komi að þeim. Snú, snú er dæmigerður stúlknaleikur."

Ný samfélagsgerð áhrifavaldur

Inga Dóra hefur velt fyrir sér ýmsum áhrifaþáttum utan skólans. "Kannanir hafa gefið til kynna að strákar fái ekki jafnmikinn stuðning og stelpur heima fyrir, t.d. hjálpi foreldrar strákum síður en stelpum við heimanámið. Almennt virðast foreldrar heldur ekki hafa jafnmikið eftirlit með strákum og stelpum. Þeir þekkja síður vini sona sinna en dætra og áfram mætti telja," segir

Inga Dóra og bætir við að eflaust hafi þessir þættir áhrif á heildarmyndina. "Ef litið er til samfélagsins í heild er hægt að nefna fleiri áhrifavalda. Samfélagið hefur tekið gríðarlegum breytingum á stuttum tíma. Konur hafa haldið út á vinnumarkaðinn og vinna orðið flestar úti. Skilnuðum hefur fjölgað og einstæðir foreldrar með börn eru orðin algeng fjölskyldugerð. Þessi þróun tengist náttúrlega jafnréttisbaráttunni sem hefur í för með sér fjölmargar jákvæðar breytingar. Á sama tíma bendir margt til þess að breytingar á fjölskyldugerð komi verr við strákana en stelpurnar. Oft er eins og þá skorti tilfinnanlega fyrirmyndir. Þessi umræða er fyrir ýmissa hluta sakir viðkvæm og mikilvægt að hún byggist á haldgóðum rannsóknum."

Strákar ekki metnir að verðleikum

Sigurjón Mýrdal, dósent í menntafræðum við Kennaraháskóla Íslands, leggur áherslu á að lakara gengi pilta en stúlkna í íslenskum skólum hafi lítt verið rannsakað en eflaust sé skýringanna að leita víða í samfélaginu. "Ég hallast að því að ástæðurnar fyrir því að strákar koma ekki jafnvel út í skólakerfinu og stelpur séu af svipuðum toga og ástæðurnar fyrir því að ákveðnir minnihlutahópar koma oft ekki eins vel út úr skólastarfinu og meðaltalið. Börn úr fátækum fjölskyldum koma stundum verr út úr skólakerfinu en börn úr millistéttarfjölskyldum. Svartir hafa ekki staðið jafnvel að vígi og hvítir í sumum löndum. Nemendur í dreifbýli hafa ekki komið jafnvel út úr samræmdu prófunum og nemendur í þéttbýli og áfram mætti lengi telja. Þessi börn eru alls ekki eitthvað verr gefin en önnur börn. Þvert á móti er skýringanna að leita í sjálfu skólastarfinu. Slakt gengi þessara barna í náminu tengist því væntanlega hvaða áherslur og námsaðferðir hafa orðið fyrir valinu í skólastarfinu. Ég er þeirrar skoðunar að strákar standi sig alveg jafnvel og stelpur í náminu. Þeirra áherslur séu bara ekki metnar að verðleikum," segir Sigurjón og minnir á að margir strákar hafi fundið sér sínar eigin leiðir til mennta utan skólakerfisins. "Við þekkjum fjölmörg dæmi um að strákar hafa dottið út úr námi og fundið sér sínar eigin leiðir til mennta utan skólakerfisins, t.d. í tölvu- eða vélabransanum. Hæfileikar strákanna á þessu sviði hafa kannski aldrei fengið að njóta sín innan veggja skólans. Aðferðir skólans virðast heldur ekki alltaf henta strákum jafnvel og stelpum, t.d. virðast þeir oft ekki hafa jafnmikla þolinmæði til að velta vöngum yfir einhverju viðfangsefni eftir að þeir hafa náð tökum á því í upphafi. Þegar strákarnir eru búnir að átta sig á því um hvað málið snýst vilja þeir strax snúa sér að öðru viðfangsefni."

Fleiri karlar komist í KHÍ

Skiptar skoðanir voru meðal viðmælenda Morgunblaðsins á því hversu miklu máli skipti fyrir gengi pilta innan skólakerfisins að um 80% grunnskólakennara eru konur. Hafsteinn Karlsson rifjar upp nokkrar staðhæfingar Bertill Nordahl um kven- og karlkennara í grein sinni Er karlmennskan að hverfa úr skólunum? Bertill heldur því fram að konur leggi mikið upp úr því að fylgja ákveðnu skipulagi í skólastarfinu - karlar spili vinnuna meira eftir hendinni. Karlar hafi ekkert á móti svolitlum óróa inni í skólastofunni - slíkt angri frekar konurnar. Þolmörk karla séu líklega nokkuð hærri en kvennanna. Karlmannsrödd sé oft áhrifameiri en kvenmannsrödd og karlarnir séu ekki eins líklegir og konurnar til að útskýra fyrir barninu af hverju einhver ákveðin hegðun sé óæskileg. Oft láti karlmennirnir einföld svör nægja.

Enda þótt fáar rannsóknir liggi fyrir um kynjamismun í kennslu virðast flestir hallast að því að eðlilegt sé að stuðla að margbreytileika í kennaraliði grunnskólanna, þ.m.t. að karlar séu ekki í áberandi minnihluta.

"Það er eðlilegt að strákar sækist eftir fyrirmyndum um karlmennsku í viðhorfum og hegðun og sorglegt hve slíkar fyrirmyndir eru torfundnar innan veggja skólanna," segir Sigurjón Mýrdal og bendir á að hlutfallslega færri karlar en konur hafi fengið inngöngu í KHÍ. "Aðalástæðan fyrir því er hvað einkunnir úr framhaldsskóla vega þungt við inntöku nýnema í skólann. Karlarnir sem sækja um skólavist virðast almennt ekki hafa fengið jafnháar einkunnir í framhaldsskóla og konurnar og komast því síður inn í skólann. Nú eru karlmenn tæplega 13% nemenda á grunnskólakennarabraut í KHÍ. Haustið 2003 voru 37 karlmenn teknir inn (15%) nýnema. Karlkyns umsækjendur voru 104 og ljóst að tugum hæfra umsækjenda úr þeim hópi var hafnað. Ég hef sjálfur stungið upp á því að stefnt verði að jafnri kynjaskiptingu við inntöku nýrra nemenda í skólanna enda þótt ekki næðist nema 30-40% hlutfall karlmanna fyrstu árin. Forsendan fyrir breytingunni væri náttúrlega að vægi einkunna úr framhaldsskóla væri minnkað. Með því móti værum við að losa okkur úr ákveðnum vítahring því enginn vafi leikur á því að fjölgun karla í kennarastéttinni hefði jákvæð áhrif á skólastarfið og ekki hvað síst strákana," segir Sigurjón og er ekkert sérlega bjartsýnn á að hugmynd hans verði nokkurn tíma að veruleika. "Þessi hugmynd hefur a.m.k. ekki fengið hljómgrunn hingað til," segir hann.

Fleiri en Sigurjón hafa bent á að óháð hugsanlegum kynjamismun í kennslu sé strákum afar mikilvægt að umgangast karla rétt eins og konur í skólakerfinu. Ekki hvað síst með tilliti til þess að æ oftar alist börn upp hjá mæðrum sínum á karlmannslausum heimilum. Hafsteinn Karlsson varar þó við því að gerðar séu óraunhæfar kröfur til karlkennara í þessu sambandi. "Einu sinni kom til mín móðir og óskaði sérstaklega eftir því að sonur sinn, 6 ára, yrði settur í bekk hjá karlkennara þar sem enginn karlmaður væri á heimilinu. Ég gat ekki betur skilið en að þarna ætti kennarinn að einhverju leyti að ganga inn í föðurhlutverkið. Með þessu eru auðvitað gerðar algjörlega óraunhæfar kröfur til kennarans."

Stelpur betri í upphafi 20. aldar

Í OECD-skýrslunni Education at a Glance kemur fram að stúlkur hafi siglt fram úr drengjum í náminu á tíunda áratug síðustu aldar. Ef tekið er mið af grein Ólafar Garðarsdóttur sagnfræðings, Skóli og kynferði í safnritinu Kvennaslóðir til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur (útg. 2001) blasir nokkuð önnur mynd við. Ólöf kemst að raun um að stúlkum hafi yfirleitt gengið betur en piltum í bóknámsmiðuðu barnaskólanámi á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Stúlkunum hafi verið raðað ofar í bekki og sótt skólana í ríkari mæli en piltarnir.

Ólöf vitnar í skýrslu Barnaskóla Reykjavíkur 1924-1925 máli sínu til stuðnings. Þar segir m.a.: "Stúlkurnar koma yfirleitt betur undirbúnar í skólann...Komast þar af leiðandi fleiri af þeim upp í efstu bekkina. Heimilin eiga örðugara með að halda drengjunum að námi. Tiltölulega fleiri drengir hætti námi í skólanum fyrir 14 ára aldur. Fá ýmsir þeirra vinnu, sem heimilin sjá sjer ekki fært að hafna." (bls. 427)

"Þessi niðurstaða kann að virðast nokkuð þversagnarkennd í samfélagi þar sem flestir barnaskólakennarar voru karlar og þar sem konum var fyrst og fremst skapaður vettvangur innan veggja heimilis við bústörf og barnauppeldi," segir Ólöf í niðurlagi greinarinnar. "En niðurstaðan er einnig vísbending um að vandamál drengja í íslenskum grunnskólum nú á tímum séu flóknari en svo að hægt sé að skýra þau út frá kynferði kennara þeirra einu saman. Aðrir þættir í hinu flókna valdasamspili kynjanna innan og utan veggja skólans hljóta þar að skipta meira máli."

Hindrunum stelpna ýtt úr vegi

Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur segir að grein Ólafar hafi breytt sýninni töluvert. "Slakari árangur strákanna hefur stundum verið skýrður með því að meirihluti kennara sé kvenkyns. Konurnar skilji ekki strákana fyrir utan að þeir líði fyrir skort á karlkyns fyrirmyndum í skólakerfinu. Grein Ólafar sýndi að veruleikinn er flóknari en þetta módel gaf til kynna því stelpum gekk betur en strákum í barnaskólanámi í upphafi 20. aldarinnar. Meirihluti kennara á þeim tíma var jú karlar."

Ingólfur er í beinu framhaldi spurður að því hvað hann telji að valdi því að stelpur standi sig betur í bóklegu námi en strákar. "Maður getur einfaldlega ímyndað sér að skólakerfinu hafi tekist að ýta úr vegi ýmsum hindrunum fyrir því að stelpurnar geti notið sín til fullnustu. Stelpunum hafi verið skapað tækifæri til að njóta sín eins og þær hafi alltaf haft getu til að gera en misheimskulegar hugmyndir í samfélaginu um stelpur og stráka komu í veg fyrir að þær blómstruðu," segir Ingólfur og bendir á ýmsa þætti máli sínu til stuðnings. "Stelpurnar virðast alls ekki hafa fengið sama aðbúnað og upplifað sömu hvatningu og strákarnir frá kennurum sínum við upphaf 20. aldarinnar og áttu sáralitla möguleika á langskólanámi. Með tímanum hefur svo auðvitað orðið viðhorfsbreyting hvað varðar möguleika stráka og stelpna.

Núna held ég að enginn kennari láti lengur út úr sér að stelpur geti ekki gert eitthvað ákveðið af því að þær séu stelpur og svo öfugt.

Ekki má heldur gleyma því að efnt hefur verið til sérstakra átaka til þess að styrkja stelpur í raungreinum. Ég býst reyndar við að nú sé svo komið að stelpur sjái fyrir sér mun breiðara framtíðarsvið en strákarnir. Ef maður myndi spyrja stelpu að því hvort að hún gæti ekki gegnt einhverju starfi af því að hún væri kona held ég að hún myndi ekki nefna neitt. Strákar myndu hugsanlega ennþá nefna hefðbundar kvennagreinar eins og hjúkrunarfræði og leikskólakennslu. Með tímanum hafa stelpurnar farið að sjá fleiri og fleiri fyrirmyndir úti á vinnumarkaðnum og í fjölmiðlum fyrir utan að þær fá náttúrlega hvatningu frá sínum eigin útivinnandi mæðrum um að standa sig í náminu því að framtíð þeirra sé úti á vinnumarkaðnum."

Ólík markmið - ólíkar leiðir

Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, segir að kynin virðist líta á skólakerfið talsvert ólíkum augum. "Stúlkurnar fara nú orðið í allar greinar en virðast mun frekar en strákarnir laðast að kennslu, hjúkrun og fleiri stofnanagerðum störfum. Yfirleitt er gerð mjög ákveðin krafa um prófgráðu í þessi störf. Lengi vel nægði að hafa framhaldsskólapróf eins og tekin voru í Kennaraskólanum og Hjúkrunarskólanum gamla. Núna eru mörg þessara starfa eins og kennslan og hjúkrunin komin yfir á háskólastig. Stúlkurnar eru fljótar að stilla sig inn á þessar kröfur og stefna markvisst að því að ljúka nauðsynlegum prófgráðum; þetta á eins við um flest önnur svið sem þær sækja. Strákarnir virðast ekki sjá eins ríka ástæðu til að ganga þessa sömu beinu menntabraut. Að vísu er gerð krafa um prófgráðu í iðngreinunum en strákarnir eru að ljúka þeim prófum fram eftir öllum aldri enda alveg ljóst að sjaldnast er vandamál að fá vinnu hjá iðnaðarmönnum í málminum, rafmagninu eða byggingarframkvæmdum án þess að vera búinn að ljúka tilskilinni prófgráðu þegar árferði er gott. Hins vegar er auðvitað vissara hvað atvinnuöryggið og launin varðar að taka prófgráðuna að lokum," segir Jón Torfi og ítrekar að framtíðarsýn stúlkna virðist að þessu leyti ólík framtíðarsýn pilta. "Almennt held ég svo að við ættum að hafa tvennt í huga varðandi strákana. Annars vegar að koma betur til móts við þarfir þeirra á öllum skólastigum. Sennilega er það ekki nægilega vel gert. Hins vegar að stuðla að því að þeir detti ekki alveg út heldur haldi áfram námi eftir að hafa tekið sér hlé frá námi tímabundið eins og svo margir gera á Íslandi og þarf í sjálfu sér ekki að vera neitt slæmt."

Hafsteinn Karlsson leggur áherslu á að hann umgangist meira börn á grunnskóla- en framhaldsskólastigi. "Engu að síður þekki ég dálítið af framhaldsskólanemum og neita því ekki að ég skynja ákveðin viðhorfsmun hjá strákum og stelpum. Strákarnir virðast ekki eins öruggir um að þeir séu á réttri braut og eru oft lengur að ljúka stúdentsprófi. Suma langar raunverulega miklu frekar að læra einhverjar verklegar greinar heldur en að halda áfram bóknámi. Þessir strákar hafa einfaldlega látið undan þrýstingi samfélagsins um að ljúka stúdentsprófi. Þarna kemur þessi ofuráherslu á bóknámið. Samfélagið þarf að hefja verklegu greinarnar aftur til vegs og virðingar," segir Hafsteinn.

Hafsteinn segir eins og Ingólfur að strákarnir sjái ekki fyrir sér jafnbreitt svið og stúlkurnar. "Efnt hefur verið til ýmiss konar átaksverkefna til að fá konur til að fara inn á hefðbundin karlasvið. Nú er svo komið að þær telja sig geta valið á milli mun fleiri kosta en strákarnir. Þeir eru enn ragir við að fara inn á hefðbundin kvennasvið."

Endurskoðunar þörf

Viðmælendur Morgunblaðsins eru langflestir þeirrar skoðunar að full ástæða sé til að bregðast við þeirri staðreynd að piltar séu sífellt að dragast meira aftur úr stúlkum í náminu. Hafsteinn Karlsson segir lykilatriði að skólinn leggi áherslu á að rækta sterkar hliðar bæði stráka og stelpna. "Einn helsti gallinn við núverandi skólakerfi er að alltof mikið er lagt upp úr bóknámi og samkeppni á milli nemenda með afar ólíkar forsendur, t.d. með samræmdum prófum Með þessum einhliða áherslum eru nemendur og oftar strákar en stelpur alltof oft dæmdir til að vera "tossar" í skóla strax í fyrstu bekkjum grunnskólans og þeir eru í þessari stöðu þann tíma sem þeir eiga eftir að vera í grunnskólanum, allt upp í 10 ár. Svona á þetta ekki að vera. Við verðum að fara að leggja ríkari áherslu á að rækta sterkar hliðar hvers einstaklings. Þannig að skólinn útskrifi nemendur með sterka sjálfsmynd, trú á sjálfan sig og framtíðina.

Hafsteinn útskýrir nánar hvað hann eigi við. "Við verðum að rífa okkur upp úr hjólfarinu, þessum hefðbundnu viðhorfum til skólastarfsins. Foreldrar, kennarar, skólastjórnendur, samfélagið allt, hefur svo fastmótaðar skoðnir á því hvernig skóli eigi að vera. Við höfum aðeins verið að fikra okkur áfram með þessa nýju hugsun hérna í Salaskóla, t.d. með því að vera með aldursblandaða námshópa. Ef við vitum að við erum að fara að kenna aldursblönduðum hópum verðum við meðvitaðri um einstaklingsmuninn innan hópsins. Við erum svo að skoða fleiri þætti, t.d. hvort ekki sé hægt að stuðla að því að nemendurnir hreyfi sig meira inni í kennslustofunni. Eins og ég sagði áðan ætti sú breyting að hafa jákvæð áhrif bæði á stráka og stelpur þó að strákar virðist þola enn verr en stelpur að sitja lengi á sama stól. Ég held að við verðum að skipuleggja vinnuna í skólastofunni þannig að nemendur geti staðið upp og hreyft sig rétt eins og fullorðnir gera í sinni vinnu. Ég held að við verðum í ríkari mæli að fara að líta á kennslustofuna eins og hvern annan vinnustað. Eins ég nefndi áðan mætti svo leggja ríkari áherslu á skapandi og verklega vinnu og áfram mætti halda. Eitt er víst að endurskoðunar er þörf.

Ekki gera bara "eitthvað"

Inga Dóra Sigfúsdóttir tekur undir með Hafsteini um að full þörf sé á að grípa til aðgerða. "Ég er alveg sannfærð að okkur er vandi á höndum. Ákveðnir strákahópar eru í kreppu. Hins vegar verðum við að vara okkur á því að gera ekki bara eitthvað. Við verðum að byrja á því að komast að því hvar vandinn liggur, þ.e. innan skólans, fjölskyldunnar eða samfélagsins. Í framhaldi af því þarf svo að skoða hvaða leiðir séu vænlegar til árangurs. Við megum ekki lenda í því sama og árið 1990. Þá var gripið til sérstakra aðgerða til að styrkja stelpur án þess að nokkrar rannsóknir lægju fyrir um hver staða þeirra í skólanum raunverulega væri á þessum tíma. Eftir á kom svo í ljós að þær voru þá þegar komnar fram úr strákunum."

ago@mbl.is