20. október 2003 | Fasteignablað | 1262 orð | 3 myndir

Laugavegur 1

Húsið er með elstu húsum við Laugaveg og hefur lengi sett sinn svip á umhverfið.
Húsið er með elstu húsum við Laugaveg og hefur lengi sett sinn svip á umhverfið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta gamla og fallega hús er friðað enda full ástæða til þess þó að það hafi tekið talsverðum breytingum á einni og hálfri öld. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um hús, sem er samofið sögu Laugavegs.
ÁRIÐ 1848 byggir Ahrens, stiftamtmaður og malari, hús sem enn stendur, á suðurhluta Arnarhólstúns. Eftir skjölum að dæma gengur hann ekki frá leigusamningi um lóðina fyrr en ári síðar. Lóðin var eign Arnarhóls og var leigan á ári 2 ríkisdalir. Talið er að í húsinu hafi átt að vera bæði íbúð og veitingarekstur.

Veitingareksturinn gekk ekki eins vel og vonir stóðu til og var honum hætt eftir eitt ár og fljótlega veðsetur Ahrnes húsið og er þá eignin skráð 2b á Arnarhólslandi. Í nokkur ár er húsið ýmist kallað númer 10 í Austurstræti eða 2b á Arnarhólslandi.

Af skjölum má ráða að Ahrens hafi ekki getað haldið eign sinni, hann selur árið 1850, August Thomsen. A. Thomsen fær leyfi til að stækka húsið og einnig byggir hann eitthvað af skúrum á lóðinni.

Á næstu árum á eftir verða nokkur eigendaskipti. Árið 1860 er skráður eigandi hússins Jón Pétursson yfirdómari. Jón var bróðir Péturs biskups í Austurstræti 16 og Brynjólfs Fjölnismanns. Jón starfaði við Landsyfirréttinn og var dómstjóri. Hann sat á Alþingi og í bæjarstjórn. Um skeið var hann settur lands- og bæjarfógeti í Reykjavík. Einnig var Jón amtmaður í Vesturamtinu og landshöfðingi nokkurn tíma. Synir Jóns voru hinir þekktu athafnamenn Friðrik og Sturla.

Jón Pétursson var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jóhanna Sofía Bogadóttir. Börn þeirra voru tvíburarnir séra Pétur á Kálfafellsstað og séra Brynjólfur á Ólafsvöllum, Jarðþrúður sem átti dr. Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörð, og Jóhanna Sofía sem átti séra Zófonías Halldórsson í Viðvík.

Seinni kona Jóns Péturssonar var Sigþrúður Friðriksdóttir, dóttir séra Friðriks Eggertssonar í Akureyjum. Börn þeirra voru: Arndís sem átti Guðmund Guðmundsson lækni í Stykkishólmi, Þóra sem átti Jón Magnússon ráðherra, Friðrik guðfræðingur og kaupmaður, Sturla kaupmaður, Elínborg og Sigríður sem átti Geir Sæmundsson vígslubiskup.

Hús heldri manna

Laugavegur 1 var hús heldri manna. Benedikt Gröndal segir í æviminningum sínum: "Þar býr nú ekkja Jóns Péturssonar, frú Sigþrúður, og tveir synir hennar, Sturla kaupmaður og Friðrik cand. theol og hafa þeir prýtt húsið mjög bæði að utan sem innan með dýrindis málverkum og ýmsu skrauti, en í hallanum fyrir framan er fagur aldingarður, skrýddur mörgum tegundum fagurra blóma og jurtagróðrar."

Garðurinn var varinn með steinhleðslu þeim megin sem gatan var en mikil umferð var þar á götuslóðanum af gangandi fólki og hestvögnum.

Húsið var íbúðarhús fram undir 1910 en þá hófst þar verslunarrekstur. Guðmundur Ásbjörnsson og Sigurbjörn Þorkelsson, sem kenndur var við verslunina Vísi, hófu þar verslunarrekstur. Guðmundur Ásbjörnsson var forseti bæjarstjórnar frá árinu 1926 til 1952 og hefur ekki annar gegnt því starfi lengur svo vitað sé. Ennfremur var hann formaður Árvakurs hf. Sigurbjörn tók virkan þátt í bæjarmálunum og eftir að hann hætti að versla tók hann við stjórn kirkjugarðanna í Reykjavík.

Árið 1898 byggir Sturla Jónsson lystihús í garðinum, að grunnfleti 4x3 ½ álnir. Tveimur árum síðar byggir hann heyhús, 12x16 álnir að grunnfleti og fjós 9x16 álnir á lóðinni.

Líklega er það sama húsið og seinna var notað fyrir hesta og heyið geymt á loftinu. Húsið er byggt af plönkum með háu risi.

Árið 1903 selur Sturla Jónsson eignina sem gengur kaupum og sölum í þrjú ár. Árið 1906 er Lúðvík Lárusson orðinn eigandi hússins en Magnús Guðmundsson er eigandi lystigarðsins og litla hússins sem Sturlubræður byggðu í honum. Sama ár byggir Lúðvík skúr, 5 5/8x31/4 álnir að grunnfleti á lóðinni sem er líklega viðbyggingin sem enn stendur norðan við húsið.

Hinn 5. desember 1915 er verslunin Vísir stofnuð í húsinu. Eigendur verslunarinnar og húseignarinnar voru Guðmundur Ásbjörnsson, Sigurbjörn Þorkelsson og Hjálmar Þorsteinsson.

Í miðrými hússins stofnaði Guðmundur Ásbjörnsson rammagerð og veggmyndaverslun sem talið er að sé sú fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík. Um árabil var í plássinu ein af þekktustu skóverslunum í bænum. Þá var opnað inn í viðbygginguna sem byggð var fyrir stórgripi og innréttað og notað fyrir lager og kaffistofu.

Núna er búið að gera gamla hesthúsið að verslunarplássi sem tískuverslunin ELM bætti við verslunarrými sitt. Gluggi var settur á þak hússins og þaksperrur látnar njóta sín. Pláss verslunarinnar er allt málað hvítt með spegla á veggjum og afgreiðsluborðið úr gleri og stáli. Þarna mætast gamli og nýi tíminn á afar hrífandi hátt.

Árið 1942 eru húseignir á Laugavegi 1 teknar til virðingar. Þar segir m.a. að húsið sé að mestu leyti byggt úr bindingi, klætt utan með plægðum borðum, pappa, listum og járni á veggjum og helluþaki á skarsúð. Þess skal getið að hliðarveggir á vestasta hluta hússins eru úr steinsteypu. Í útveggjabinding er hlaðið með múrsteini.

Í risi eru tvö herbergi og framloft, allt þiljað og málað. Kjallari er undir mestum hluta hússins að mestu ónothæfur. Grunnflötur er 15,7 m x7,5 m. Þá er getið um viðbyggingu við austurgafl sem að mestu leyti er byggð eins og húsið sjálft, með eldvarnarvegg í austur. Þá segir að í viðbyggingunni sé nokkur hluti matvöruverslunarinnar. Grunnflötur viðbyggingarinnar er talin vera 2,9 m x7,5 m.

Getið er um geymsluskúr úr steinsteypu norðan við húsið sem var byggður 1916. Núna hefur verslunarrými Vísis verið stækkað þangað inn og einnig hefur hluti kjallara verið lagfærður þannig að þar eru nú kæli- og frystivélar verslunarinnar.

Á baklóð hússins var byggt stórt tveggja hæða geymsluhús úr steinsteypu sem er sameign þeirra sem eiga framhúsið. Listamenn nota húsið núna. Árið 1916 stóð til að flytja húsið innar á lóðina en það var fyrir lagningu Laugavegar. Guðmundi Ásbjörnssyni var falið að annast verkið. Þó að ekki hafi fundist gögn um flutninginn á húsinu bendir flest til þess að verkið hafi verið framkvæmt.

Eigendaskipti 1943

Árið 1943 verða eigendaskipti á versluninni Vísi og tók Sigurbjörn Björnsson við. Þá voru reknar nokkrar verslanir með sama nafni, þ. á m. að Fjölnisvegi 2 og Mánagötu 18. Sigurbjörn seldi útibúin og beitti kröftum sínum að versluninni á Laugavegi 1. Sigurbjörn Björnsson lést 1957. Í veikindum hans stjórnaði Jón Þórarinsson versluninni fram til 1959 þar til hann stofnar verslunina Vörðufell.

Vigdís Guðjónsdóttir, ekkja Sigurbjörns, og börn þeirra tóku þá við rekstri Vísis. Fljótlega eftir það var versluninni breytt í kjörbúð með nýtískulegum innréttingum og frá því að vigta alla vörur og pakka og rétta yfir búðarborðið. Mikil áhersla var lögð á að hafa nýja ávexti á boðstólum.

Árið 1974 kaupir Þórir Sigurbjörnsson, sonur Vigdísar og Sigurbjörns, Vísi. Þórir hefur rekið verslunina síðan og stækkað hana verulega með því að taka millivegg milli gamla hússins og steinsteypuskúrs sem byggður var árið 1916 og hafði fram að því verið notaður undir lager.

Í vesturhluta hússins hafa í gegnum tíðina verið nokkrar verslanir og má af þeim nefna verslunina Gimli, einnig var þar leikfangaverslun, og Bókin sem aðallega verslaði með notaðar bækur og blöð. Núna er þar verslunin REDGREEN sem opnuð var í húsinu 30. mars 1996. REDGREEN er dönsk verslunarkeðja og nálgast tala verslana í keðjunni 300. Flestar eru í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum.

Innréttingar í verslunum REDGREEN eru sérstakar og líkjast innréttingum í skipum. Dýrindis harðviður er í vöruhillum og ljósakúplar úr kopar. Í lofti eru skútusegl og ljóskastarar í kring. Gólf verslunarinnar er lagt lerki. Húsnæðið var allt gert upp í hólf og gólf og er sérstaklega smekklegt. Þegar unnið var við lagfæringu í risi kom talsvert af dagblöðum í ljós og sum þeirra komin vel til ára sinna.

Þetta gamla og fallega hús er í eigu Laugavegar 1 ehf. Það er friðað enda full ástæða til þess þó að það hafi tekið talsverðum breytingum á einni og hálfri öld.

Helstu heimildir eru frá Þjóðskjalasafni, kirkjubækur og íbúaskrár og Borgarskjalasafni B- skjöl, brunavirðingar o.fl.

Á baklóð hússins var byggt stórt tveggja hæða geymsluhús úr steinsteypu sem er sameign þeirra sem eiga framhúsið. Listamenn nota húsið núna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.