5. nóvember 1991 | Innlendar fréttir | 337 orð

Margir fögnuðu með Víkingum í Víkinni

Margir fögnuðu með Víkingum í Víkinni UM ÞRJÚ þúsund manns tóku þátt í hátíðarhöldum Knattspyrnufélagsins Víkings um helgina, er félagið tók formlega í notkun íþróttahús og félagsheimili í Fossvogi. Þá var íþróttamiðstöðinni valið nafnið Víkin.

Margir fögnuðu með Víkingum í Víkinni

UM ÞRJÚ þúsund manns tóku þátt í hátíðarhöldum Knattspyrnufélagsins Víkings um helgina, er félagið tók formlega í notkun íþróttahús og félagsheimili í Fossvogi. Þá var íþróttamiðstöðinni valið nafnið Víkin.

Hallur Hallsson formaður Víkings lýsti mannvirkin formlega tekin í notkun á samkomu á laugardaginn og meðal þeirra sem fluttu ávörp voru Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra og Markús Örn Antonsson borgarstjóri. Íþróttamenn brugðu á leik í knattspyrnu, borðtennis og handknattleik og nýr Víkingssöngur eftir Valgeir Guðjónsson var frumfluttur af Íslandsmeisturum Víkings í knattspyrnu og piltum úr 5. flokki. Víkingar heiðruðu um 70 manns á þessum tímamótum fyrir stuðning og góð störf í þágu félagsins. Þeir Ásgeir Ármannsson og Pétur Bjarnarson voru sæmdir gullmerki félagsins með lárviðarsveig. Meðal þeirra sem hlutu gullmerki voru Markús Örn Antonsson borgarstjóri, Júlíus Hafstein formaður Íþrótta- og tómstundaráðs og Ómar Einarsson framkvæmdastjóri ráðsins. Á sunnudag var íþróttahátíð í Víkinni og forystumenn deilda kynntu starf deildanna.

Áður en hátíðarsamkoman hófst á laugardag var afhjúpaður minningarskjöldur í félagsheimilinu um Jón Gunnlaug Sigurðsson, sem í mörg ár lék handknattleik með Víkingi, en hann lést af slysförum árið 1982. Til minningar um Jón Gunnlaug stofnuðu ættingjar hans Minningarsjóð Víkings og skyldi fé sjóðsins varið til byggingar íþróttahúss félagsins.

Margar gjafir og kveðjur bárust Víkingum er þessum áfanga var náð og gaf Sjóvá-Almennar fullkomna upplýsingatöflu og klukku í íþróttahúsið. Einnig má nefna móttökudisk fyrir gervihnattasendingar, tvö sjónvarpstæki, myndbandstæki, klukkur og kaffistell fyrir 100 manns. Þá var félaginu gefinn óvenju stór silfurbikar til íþróttamanns Víkings ár hvert og var Atli Helgason, fyrirliði Íslandsmeistaranna í knattspyrnu, valinn íþróttamaður félagsins 1991.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Formaður Víkings, Hallur Hallsson, þakkar byggingarnefnd félagsins vel unnin störf, frá vinstri Hallur Hallsson, Eysteinn Helgason og Jón Kr. Valdimarsson.

Fyrsti handboltaleikurinn í Víkinni var milli meistaraliðs Víkings frá árunum um 1980 og landsliðsins á sama tíma. Rósmundur Jónsson, markvörður Víkings, skoraði fyrsta markið í Höllinni, en myndin var tekin við upphaf leiksins.

Víkingarnir Ólafur Skúlason biskup og Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður heilsast á hátíðarsamkomunni á laugardag.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.