Ráðherrann | Hannes Hafstein,   annálað glæsimenni og þjóðskáld.
Ráðherrann | Hannes Hafstein, annálað glæsimenni og þjóðskáld.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ég fæddist stjórnaði Hannes Hafstein landinu. Þannig byrjar fyrsta smásagan; Snúist til varnar Íslandi, í fyrra smásagnasafni Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra; Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar.

Þegar ég fæddist stjórnaði Hannes Hafstein landinu. Þannig byrjar fyrsta smásagan; Snúist til varnar Íslandi, í fyrra smásagnasafni Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra; Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar. Nú stjórnar Davíð Oddsson landinu úr því húsi, sem byggt var yfir íslenzka fanga, en hýsti svo fyrsta ráðherrann og oddvita stjórnarinnar allar götur síðan.

Smásaga Davíðs, þótt hann færi hana frá sér í tíma og rúmi, geymir mynd af Hannesi Hafstein, sem greypzt hefur í huga höfundarins. Þess má nefnilega sjá víða merki, að forsætisráðherrann vitnar í ræðu og riti til fyrsta ráðherrans.

- Af hverju þetta dálæti á Hannesi Hafstein?

"Ég hreifst af Hannesi Hafstein strax sem barn.

Föðuramma mín talaði töluvert um hann, en hún og Hannes voru þremenningar. Hún fann mikið til þessa skyldleika við sig og þá mig líka.

Ég vissi snemma, að Hannes var óvenjulegur maður; hann var fyrsti ráðherrann okkar, hann var leiftrandi baráttumaður. Og hann var þjóðskáld. Það var eitthvað heillandi við hann. Ég er enginn sérfræðingur í honum, en ég hef sterka tilfinningu fyrir því að hann hafi verið góður maður, örugglega ekki gallalaus, en ég held að það sé ekki bara fjarlægðin, sem gerir þetta fjall í mannsmynd svo blátt."

Karlmennska og ögrun

- Er dálæti þitt á Hannesi Hafstein að einhverjum hluta sprottið af hlutskiptum ykkar í stjórnmálum og skáldskap?

"Það hangir nú í því að nefna skáldskapinn mín megin. Ég verð alltaf órólegur, þegar menn taka sér skáldanafn í munn um mig."

- En þú ert eini ríkisoddvitinn sem auk hans hefur fengizt við fagurbókmenntir.

"Á okkur Hannesi er augljós munur hvað skáldskapinn varðar. Ég hef gaman af skáldskap. Hann aftur á móti var og vissi að hann var þjóðskáld.

En ég hugsa að í gegnum áhuga á skáldskap almennt megi segja að ég finni til eins konar samkenndar með honum."

- Hvað heillar þig í ljóðum hans?

"Í ljóðum hans og skáldskap er svo bullandi bjartsýni og oft mjög stutt í kímni og glettni."

- Hvaða kvæði stendur þér næst?

"Kvæðið Stormur hefur alltaf staðið mér nærri. Þar finnast mér fara saman karlmennskuviðhorf og kraftmikil ögrun við óvinnandi öfl.

Annars mætti velja mörg önnur kvæði, til dæmis eftirmælaljóðin, sem sýna svo vel tryggð hans og væntumþykju í garð samferðamannanna.

Og hann er hvergi með vol eða víl. Samt fór hann ekki varhlutann af alls konar djöfulgangi, þótt við höldum öðru á lofti nú."

- En hvað um pólitíkina?

"Ég tel mig geta borið mig saman við hann sem stjórnmálamann, að því leytinu sem ég sinni stjórnmálunum af ákefð og ábyrgð.

Hann var ráðherra í upphafi aldar og ég í lok hennar.

Hins vegar var hann annálað glæsimenni, en ég hef nokkrum sinnum verið valinn verst klæddi maður þjóðarinnar!"

Ekki maður smælkisins

- Hvernig maður telur þú að Hannes hafi verið?

"Hann var glaðvær og naut sín vel í góðra vina hópi.

Hann var fjölskyldumaður og ríkulega tengdur við maka sinn, eins og sjá má af kvæðum hans og því, hversu honum fór aftur við að missa konuna.

Hann var stór í sniðum, á engan hátt maður smælkisins eða tittlingaskítsins, sem flækist fyrir svo mörgum í íslenzkri umræðu fyrr og síðar og Hannes Hafstein fékk svo sem að kenna á.

En menn heilluðust af honum og það hefur án efa aukið honum sjálfstraust.

Ég hef ekki fengið þá tilfinningu, að hann með alla sína hæfileika hafi verið hrokafullur; hann hafi ekki hreykt sér úr hófi fram, þótt hann hafi farið nærri um getu sína og stærð.

Það er sagt að í riti Kristjáns Albertssonar um Hannes sé ekkert að finna nema lof og prís, hann fjalli ekki um neina galla. Kristján svaraði þessu sjálfur á þá leið, að hann hefði svo gjarnan viljað segja bæði kost og löst á manninum, en bara ekki fundið neina lesti í hans fari.

Eitt nefnir Kristján Albertsson þó. Hann segir að Hannesi hafi ekki verið sýnt um skjalavörzlu. Og fyrst Kristján orðar það svo má ætla að Hannes hafi verið afskaplega lélegur á þessu sviði. Af þessu hef ég gaman, því mér er afskaplega ósýnt um þetta sjálfum. Starfsfólkið þarf að passa vel upp á mig, að ég labbi bara ekki með skjölin út úr stjórnarráðinu.

Menn sjá við þessu með því að láta mig bara hafa ljósrit!

Mér finnst gott að eiga þó þetta sameiginlegt með fyrsta ráðherranum!"

- Hvernig stjórnmálamaður telur þú að Hannes hafi verið?

"Hann var réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

Þegar hann settist inn í þetta hús, beið hans yfirþyrmandi hlutskipti. Verkefnin blöstu alls staðar við, en það var ekki neitt til neins. En hann fyllti fólk bjartsýni, væntingum og vongleði.

Íslendingar höfðu farið þúsundum saman vestur um haf aldarfjórðunginn þar á undan. En þegar heimastjórnin kemur, snúast hlutirnir við og verða öðruvísi en alls staðar annars staðar. Þar jukust fólksflutningarnir, en Ísland breyttist í land tækifæranna, og straumurinn vestur minnkaði hratt unz hann stöðvaðist. Hér vildu menn umfram allt vera, ef landið væri byggilegt á annað borð.

Hugsaðu þér bara; Íslendingar voru 70.000 þegar landnámi lauk og tæplega þúsund árum síðar, þegar heimastjórnin kemur, þá erum við enn 70.000. En nú, þegar öld er frá því við fengum heimastjórn, þá erum við að verða 300.000.

Ef við lítum til hans tíma, þá hafði hann í raun enga ástæðu til þeirrar bjartsýni, sem hann hafði alltaf uppi við. Hér var allt í eymd, ekkert vegakerfi, brýr fáar og við aftarlega á merinni í flestum efnum.

En hann sá fyrir hvað gæti gerzt, ef þjóðin fengi afl og atbeina til hlutanna. Með bjartsýni sinni leysti hann úr læðingi mikinn kraft, því fólk fór að trúa því að kraftaverkin gætu gerzt. Hann var mikið happaverk. Þótt ekki sé rétt að persónugera alla hluti, þá var íslenzka þjóðin ákaflega heppin, að vonir hennar og þrár skyldu manngerast í Hannesi Hafstein.

Hann var umvafinn ljóma hæfileikanna, þjóðskáld og hetja fyrir vestan, fullur af þrótti og þreki og baráttuvilja. Oft hefur verið þörf, en þarna var nauðsyn á svona manni.

Þótt tuttugu og fjórir menn hafi gegnt oddvitastöðunni eftir hann og allt megi það teljast góðir menn, þá þolir enginn samanburð við Hannes Hafstein."

Kom landi sínu á brautina

- Hvað um þau mál sem halda nafni hans á lofti?

"Það er fljótlegt að nefna símamálið. Og svo er það bygging Þjóðmenningarhússins sem nú er. Það var stórkostleg framkvæmd.

Ég hef nú verið skammaður, einkum hér áður, fyrir að vera fullframtakssamur í byggingamálum, en ég hef aldrei komist með tærnar þar sem Hannes Hafstein hafði hælana; þessi bygging kostaði fjórðung fjárlaganna!

En það er einmitt svo lýsandi fyrir þennan mann, að hann skyldi fyrst ráðast í að reisa hús yfir verðmæti þjóðarinnar á einum stað. Hann var sannkallað stórmenni.

Í mínum huga er Þjóðmenningarhúsið fallegasta hús, sem við eigum í þessu landi. Það tók þann sess af húsi, sem Danir byggðu yfir íslenzka fanga, og við sitjum nú í, og Menntaskólanum.

Fánamálið er líka einn af þeim bautasteinum, sem menn horfa til á ferli Hannesar Hafstein. Og konur gleðjast yfir því, að hann ákvað með reglugerð, að konur ættu að fá aðgang að menntaskólum.

Það væri hægt að nefna svo ótalmargt fleira af stjórnmálaverkum Hannesar Hafstein. En það er meginatriði, að hann kom landi sínu á brautina og sýndi, að þessi þjóð gat þrátt fyrir fátækt og fámenni farið sjálf með sín mál. Eins og Hannes Hafstein vann sitt verk og þeir, sem með honum voru, má segja að hafi tryggt fullveldið í framkvæmd.

Það var lykillinn að lokabraut fullveldis okkar og sjálfstæðis."

Ólíkt pólitískt umhverfi

- Hvað um pólitíska umhverfið?

"Það er margt öðruvísi nú en þegar fyrsti ráðherrann ríkti. Hann þurfti til dæmis ekki að hafa áhyggjur af framkvæmdagleðinni. Þá brettu menn bara upp ermarnar og sóttu afl í auðlindir landsins. Nú verðum við að stíga mun gætilegar til jarðar í þeim efnum.

Allar stærðir þjóðfélagsins voru til muna minni á hans tíð og hlutirnir gengu hægar fyrir sig.

En pólitíkin var persónulegri og illskeyttari en nú er. Flokkarnir voru ekki til nema sem tímabundin fyrirbæri um ákveðna menn og allt var miklu berskjaldaðra en nú. Dylgjur og gróusögur; allt var það í stærri stíl en nú er. Menn rifust ekki bara í blöðunum, heldur skrifuðu skammarbréf um andstæðingana, sem voru fjölfölduð og þeim dreift.

Ég hugsa að hlutfallslega sé meira fjallað um forystumenn í stjórnmálum nú en þá, en það er minna hlustað. Áreitið er svo margbreytilegt á okkar dögum.

Áður fyrr voru gerendurnir í þjóðfélaginu svo fáir, en nú eru þeir margir og miklu fleiri en stjórnmálamennirnir. Áhuginn á þeim er því minni og það er minna um þá talað, sem betur fer.

Stjórnmálamennirnir skipta því minna máli en áður var. Það tel ég vera holla og góða þróun.

Þá er þjóðfélagið orðið það fjölbreytt, að menn geta sjálfir verið sinnar gæfu smiður."

Eftir Freystein Jóhannsson