Álftanes | Bessastaðahreppur mun frá og með 17. júní næstkomandi að öllum líkindum bera heitið "Sveitarfélagið Álftanes". Í kjölfar umræðu á fundi hreppsnefndar Bessastaðahrepps 17. febrúar 2004 um eflingu sveitarstjórnarstigsins í landinu og sameiningu sveitarfélaga var samþykkt einróma tillaga sveitarstjóra, þar sem fram kom að hreppsyfirvöld hafi markað sér stefnu um framtíðarskipan hreppsins sem sjálfstæðs sveitarfélags, "og að sameining við önnur sveitarfélög verði ekki til umræðu við þá umfjöllun um breytta sveitarfélagaskipan í landinu, sem í gangi er um þessar mundir".
Hreppsnefnd samþykkti því að hefja þegar undirbúning að því að sveitarfélaginu Bessastaðahreppi verði breytt í bæjarfélag; hreppsnefnd verði þar með bæjarstjórn, hreppsráð verði bæjarráð, sveitarstjóri verði bæjarstjóri o.s.frv.
Lögmanni Bessastaðahrepps hefur því verið falið falið, í samráði við hreppsráð og sveitarstjóra, að vinna tillögu að breytingu á gildandi samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins í samræmi við þetta, til framlagningar á næsta fundi hreppsnefndar og mun sveitarstjóri leita umsagnar örnefnanefndar um nafnið "Sveitarfélagið Álftanes".
Áformað er að 17. júní 2004, á 60 ára afmæli lýðveldisins, verði boðað til 1.100. fundar hreppsnefndar Bessastaðahrepps, sem jafnframt verði fyrsti fundur bæjarstjórnar Álftaness.