Þórður Friðjónsson
Þórður Friðjónsson
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir þrennt sem vert sé að vekja athygli á þegar hugað er að breytingum á yfirtökureglum.
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir þrennt sem vert sé að vekja athygli á þegar hugað er að breytingum á yfirtökureglum.

Í fyrsta lagi sé verið að vinna frumvarp að lagabreytingum á vegum Kauphallarnefndar og viðskiptaráðuneytis um yfirtökur. Í öðru lagi þurfi að taka á annars vegar tengslum á milli þeirra aðila sem mynda yfirtökuskyldu og hins vegar verði í yfirtökunni. "Þetta er vandamálið sem við er að eiga við núverandi aðstæður hjá okkur. Til viðbótar við það sem þetta frumvarp tekur á varðandi skyldleika aðila þarf að skoða hugtak sem víða er litið til og kallast "acting in concert" eða samstarf á milli aðila. Það þarf að taka afstöðu til hvernig á að fara með slíkt hvað varðar yfirtökuskyldu."

Þriðji þátturinn sem Þórður vekur athygli á er að væntanlegar séu tilskipanir frá Evrópusambandinu á næstunni í þessum efnum. "Við þurfum að samþætta okkar vinnu að því er varðar yfirtökurnar við það sem verður í tilskipununum og við það sem er að gerast í nágrannakauphöllum okkar."

Þórður segir allar þær hugmyndir sem fram komi í frumvörpunum sem lögð voru fram á þriðjudag góðra gjalda verðar. "Hins vegar tel ég að þessi mál þurfi að skoða betur. Sérstaklega varðandi hvort taka eigi tillit til hugtaksins "acting in concert" og þá með hvaða hætti en einnig hvað varðar stefnu Evrópusambandsins og nágrannakauphalla. Löggjöf, þar sem ekki væri búið að fara nákvæmlega í gegnum þessa þætti, yrði ófullnægjandi," segir Þórður Friðjónsson.