SÍÐAR í þessum mánuði verður lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma.

SÍÐAR í þessum mánuði verður lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Ísland er talsvert á eftir flestum löndum Vestur-Evrópu í þessu efni og virðist sem lítill þrýstingur sé á það af hálfu íslensku símafyrirtækjanna og viðskiptavina þeirra að greiða fyrir þessari tækni.

Frumvarp um þriðju kynslóð farsíma var lagt fyrir Alþingi í fyrra en var ekki afgreitt. Í því var gert ráð fyrir að úthluta mætti leyfum til að reka þriðjukynslóðarkerfi með "fegurðarsamkeppni" en þá verða þau fyrirtæki hlutskörpust sem hyggjast bjóða upp á mesta og hraðasta útbreiðslu farsímanetsins, bestu þjónustu o.s.frv. Gert var ráð fyrir föstu tíðnigjaldi.

Karl Alvarsson, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, segir að nú sé verið að leggja lokahönd á nýja útgáfu frumvarpsins. Ekki verði stórvægilegar breytingar en þó nokkrar frá fyrra frumvarpi. Hann segir enn gert ráð fyrir útboði á grundvelli fegurðarsamkeppni.