Hugleikur Dagsson
Hugleikur Dagsson
HUGLEIKUR Dagsson listamaður er annálaður fróðleiksmaður um kvikmyndir og myndasögur. Hann hefur auk þess fengist nokkuð við að teikna myndasögur og jafnframt hefur hann búið til teiknimyndir/hreyfimyndir.
HUGLEIKUR Dagsson listamaður er annálaður fróðleiksmaður um kvikmyndir og myndasögur. Hann hefur auk þess fengist nokkuð við að teikna myndasögur og jafnframt hefur hann búið til teiknimyndir/hreyfimyndir. Þessir hæfileikar Hugleiks fá nú að njóta sín í spánnýjum teiknimyndum sem verða frumsýndar í kvöld á PoppTíví. Söguhetjan er þar er enginn annar en Tvíhöfði, sá sami og er með vinsælan morgunþátt á Skonrokki og samanstendur af þeim æringjum Sigurjóni Kjartanssyni og Jóni Gnarr. Þættirnir eru tuttugu mínútna langir, teiknaðir í tölvu (með Flash-forritinu) og sér Hugleikur einn um verkið. Það er því kannski eðlilegt að spyrja: Hvernig er þetta búið að ganga?

"Þetta er búið að ganga ágætlega - og illa," segir Hugleikur kankvís. "Það er bara svona með þessa tölvuvinnu. Stundum gengur allt upp en svo er allt í rugli þess á milli."

Eru tuttugu mínútur ekki svolítið langur tími?

"Jú - það er nokkuð mikið fyrir einn mann. En viti menn... ég get þetta! Þetta eru ekki flóknar teikningar því annars væri þetta ekki hægt. Fyrir mig einan þ.e.a.s."

Hefurðu gert eitthvað svona áður?

"Ég hef aðallega verið að leika mér að þessu. Reyndar voru myndir eftir mig sýndar þegar Big Band Brútal spilaði á nektarstaðnum Vegas árið 2000."

Af hverju varst þú beðinn um þetta?

"Ég var eitthvað að hanga hjá Zombie þegar sá þáttur var að klárast í janúar. Sigurjón fór eitthvað að spyrja mig hvort ég kynni að búa til teiknimyndir og ég jánkaði því. Seinna bauð hann mér svo þetta."

Fannst þér þetta vera tækifæri sem þú yrðir að stökkva á?

"Já, í rauninni. Mér hefði þótt það hálfvitalegt af mér ef ég hefði ekki tekið þessu tilboði."

Er þetta þá eitthvað sem þig hefur lengi langað að sinna?

"Já. Að vinna fulla vinnu við eitthvað svona og fá borgað fyrir það flokkast undir draumastarfið hjá mér. Þetta kemst næst því að fá borgað fyrir að gera myndasögur."

Tvíhöfði - teiknimyndin er sýnd á Popptíví á fimmtudögum kl. 21.30.