"ÞETTA virðist vera hörkunagli og er vonandi maðurinn sem þarf til þess að rífa liðið upp," sagði Patrekur Jóhannesson, handknattleiksmaður hjá Bidasoa, um nýjan þjálfara liðsins, Julian Ruiz, sem kom til starfa hjá liðinu á mánudaginn, en...
"ÞETTA virðist vera hörkunagli og er vonandi maðurinn sem þarf til þess að rífa liðið upp," sagði Patrekur Jóhannesson, handknattleiksmaður hjá Bidasoa, um nýjan þjálfara liðsins, Julian Ruiz, sem kom til starfa hjá liðinu á mánudaginn, en forvera hans, Jordi Ribera, var sagt upp í síðustu viku. Bidasoa hefur ekki náð sér á strik á leiktíðinni og er á meðal neðstu liða en lánaðist að lyfta sér upp úr fallsæti með sigri á Teucro um síðustu helgi. Mikið starf er samt framundan hjá nýjum þjálfara og leikmönnum Bidasoa við að tryggja áframhaldandi veru í deildinni.

"Ribera tókst aldrei að ná sér á strik með okkur. Hann var ráðinn síðastliðið sumar og fékk sjö nýja leikmenn. Honum tókst aldrei að hrista mannskapinn saman af ýmsum ástæðum. Lélega frammistöðu okkar á leiktíðinni er ekki alfarið hægt að skrifa á hann en það er nú oft þannig að þegar liðum gengur illa þá blæðir þjálfaranum fyrir það og sú varð raunin að þessu sinni," segir Patrekur.

Ruiz er þrautreyndur þjálfari sem hefur víða unnið, bæði á Spáni og í Þýskalandi, og er vonandi rétti maðurinn í starfið, að sögn Patreks. Hann þjálfaði síðast hjá 1. deildarliðinu Cantabria en sagði upp þar til þess að taka við Bidasoa.

"Næstu leikir verða afar mikilvægir fyrir okkur því þeir eru flestir gegn liðum í neðri hluta deildarinnar. Takist okkur að vinna flesta þeirra þá eigum við möguleika á að að komast upp í miðja deild og bjarga þannig andlitinu," segir Patrekur. Heiðmar Felixson leikur einnig með Bidasoa.