Bergþór G. Böðvarsson
Bergþór G. Böðvarsson
Sjúkdómar eru ekki verkefni sem á að læsa ofan í skúffu.
ÞANN 11. febrúar síðastliðinn birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu, undir nafninu "HVAÐ GET ÉG GERT?" Þar fór ég svona lauslega yfir það hvað maður sjálfur getur gert. Þarna var ég að beina orðum mínum að þeim fjölmörgu sjúklingum sem eru í sömu stöðu í dag og ég var fyrir 15 árum og vona ég svo sannarlega að fólk geti nýtt sér sögu mína til að gera eitthvað í sínum málum.

Með þessari grein minni vil ég beina orðum mínum til þeirra sem koma að málefnum geðsjúkra og/eða heilbrigðiskerfinu með einum eða öðrum hætti, en þetta eru jú starfsmenn í öllum stéttum heilbrigðiskerfisins, ráðamenn þjóðarinnar, alþingismenn, aðstandendur og allir sem einhvern þekkja sem á við sjúkdóm að stríða, hvort sem það er á líkama eða sál.

Jú, þið getið komið að þessu verkefni með okkur og verið þátttakendur í því að koma á fót öflugri þjónustumiðstöð utan stofnunar sem við höfum kosið að kalla Hlutverkasetur. Þar munu allir sem á einhvern hátt hafa ekki fengið tækifæri til að sýna getu sína, t.d. á alm. vinnumarkaði, geta fundið sér hlutverk. Þarna verður unnið á jafningjagrundvelli, þ.e.a.s. sérmenntað fagfólk mun vinna með þeim sjúklingum (notendum) heilbrigðiskerfisins sem vilja leggja sitt af mörkum svo að þeir sem þurfa að ganga í gegnum það að verða fatlaðir eða verða fyrir einhverri röskun, geti tekist á við það af heilum hug og að þeir sjái að það er til fólk sem hefur vilja til að hjálpa öðrum af heilum hug.

Svona þjónusta er nauðsynleg stórum hópi fólks, þ.e. geðfötluðum, líkamlega fötluðum og atvinnulausum.

Geðveiki er ekki glæpur. Geðsjúkdómur er ekki dauðadómur. Sjúkdómar eru yfirstíganlegir. Sjúkdómar eru ekki verkefni sem á að læsa ofan í skúffu. Sjúklingar eru mannverur eins og þú, við eigum sama rétt og þú, við erum hvorki betri né verri. Við höfum öll eitthvað fram að færa. Hvað hefur þú fram að færa?

Leggðu þitt af mörkum og komdu á kynningarfund á verkefnum Hugarafls sem haldinn verður á veitingastaðnum Kaffi Reykjavík laugardaginn 6. mars frá kl. 13-16.

Að lokum vil ég biðja ykkur um að senda okkur svar á netfangið hugarafl@hugarafl.is og munu nöfn þátttakenda verða birt inni á heimsíðu Hugarafls, hugarafl.is.

Vinsamlegast takið það fram ef þið óskið eftir nafnleynd (af einhverjum ástæðum).

Bergþór Grétar Böðvarsson skrifar um félagasamtökin Hugarafl

Höfundur greindist með geðhvarfasýki fyrir 15 árum, fyrir einu ári byrjaði hann að vinna í 50% starfi hjá Múlalundi, vinnustofu SÍBS.