EKKI er enn vitað hverjir stóðu að hryðjuverkunum í Madríd en vissulega berast böndin fyrst og fremst að basknesku aðskilnaðar- og hryðjuverkasamtökunum ETA.

EKKI er enn vitað hverjir stóðu að hryðjuverkunum í Madríd en vissulega berast böndin fyrst og fremst að basknesku aðskilnaðar- og hryðjuverkasamtökunum ETA. Ekki er þó talið útilokað, að íslömsk hreyfing, Abu Hafs al-Masri, að sögn nátengd al-Qaeda, hafi verið þar að verki en sérfræðingar í hryðjuverkum benda á, að hingað til hafi yfirlýsingar þessara samtaka, ef þau eru þá til í raun og veru, ekki verið mjög trúverðugar.

Í yfirlýsingu al-Masri, sem send var arabíska dagblaðinu Al-Quds Al-Arabi í London, segir, að árásirnar í Madríd hafi verið gerðar til að hefna stuðnings Spánarstjórnar við Bandaríkjastjórn. Sagt er, að yfirvofandi sé árás á Bandaríkin og hreyfingin segist hafa staðið fyrir árásinni á frímúrarastúku í Istanbul fyrir nokkrum dögum og fellt þar þrjá menn.

Eignuðu sér rafmagnsleysið

Yfirvöld í Tyrklandi segjast ekki leggja trúnað á yfirlýsinguna og benda á, að í árásinni á frímúrarastúkuna hafi fallið tveir menn, ekki þrír, og þar af annar sprengjumannanna. Þá er einnig minnt á, að al-Masri lýsti yfir ábyrgð sinni á rafmagnsleysinu í Bandaríkjunum á síðasta ári en ástæðan fyrir því átti ekkert skylt við hryðjuverk. Bandarískir leyniþjónustumenn segjast heldur ekki þekkja þess nein dæmi, að al-Qaeda hafi lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkum samdægurs eins og gerðist í fyrradag.

Suma grunar einfaldlega, að al-Masri sé ekki til sem hreyfing. Eins líklegt sé, að um sé að ræða einn einstakling með faxtæki og tölvu.

Breyttar baráttuaðferðir?

Hryðjuverkin í fyrradag bera samt ýmis einkenni al-Qaeda, til dæmis það hve sprengjurnar voru margar, auk þess að ekki var varað við þeim eins og ETA hefur jafnan gert. Á hinn bóginn óttast margir, að baráttuaðferðir ETA séu að breytast, kannski vegna þess hve mjög hefur verið þjarmað að þeim. Sem dæmi um það má nefna, að síðastliðinn aðfangadag reyndu samtökin að fremja sams konar hryðjuverk og í fyrradag í lest í Madríd. Voru þá tveir ETA-menn handteknir eftir að hafa komið fyrir 25 kílóa sprengju og reynt að koma fyrir annarri. Þá voru tveir menn handteknir 29. febrúar sl. með 500 kíló af dýnamíti í bílnum sínum. Ekki þarf mikið hugarflug til að ímynda sér hvað gera hafi átt við það.