PETER Christmas-Möller, yfirmaður nútímalistardeildar Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, vildi ekki tjá sig í gær um það hvernig uppboðshúsið hygðist bregðast við grunsemdum um að mynd sem til stóð að bjóða upp og eignuð var Jóhannesi Kjarval væri fölsuð,...

PETER Christmas-Möller, yfirmaður nútímalistardeildar Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, vildi ekki tjá sig í gær um það hvernig uppboðshúsið hygðist bregðast við grunsemdum um að mynd sem til stóð að bjóða upp og eignuð var Jóhannesi Kjarval væri fölsuð, að öðru leyti en því að verkið hefði verið dregið af uppboðinu.

Morgunblaðið greindi frá því á fimmtudag að grunur léki á að myndin, sem í uppboðsskrá Bruun Rasmussen er nefnd Pige med harpe, eða Stúlka með hörpu, væri stæling á málverkinu Landslag leikið á píanó eftir Kjarval. Haft var eftir Ólafi Inga Jónssyni, forverði hjá Morkinskinnu, að falsarar hefðu að öllum líkindum málað yfir mynd eftir danska listamanninn Mogens Hoff, sem boðin var upp hjá Bruun Rasmussen árið 1985. Til uppboðsnúmers myndarinnar þá var vísað í skránni fyrir uppboðið, þar sem til stóð að selja myndina, en það verður haldið 31. mars næstkomandi. Christmas-Möller hefur staðfest við Morgunblaðið að myndin eftir Hoff hafi aftur verið boðin upp hjá Bruun Rasmussen árið 1992, en gefur ekki upp hver kaupandinn var. Myndin sem talin er fölsuð kom áður fram á uppboði hjá Galleríi Borg árið 1994 og var þá nefnd Vorkoma.

Þrátt fyrir að hætt hafi verið við að bjóða myndina upp verður hana að finna í uppboðsskrá Bruun Rasmussen fyrir uppboðið 31. mars, enda var skráin farin í prentun áður en ákvörðun var tekin um að draga myndina til baka.