"Lykilatriðið í allri tungumálakennslu er að vera óhræddur við að gera mistök því nemendur læra einmitt af mistökum sínum," segir Yuri Shimizu, sem var gestakennari við HÍ í vikunni.
"Lykilatriðið í allri tungumálakennslu er að vera óhræddur við að gera mistök því nemendur læra einmitt af mistökum sínum," segir Yuri Shimizu, sem var gestakennari við HÍ í vikunni. — Morgunblaðið/Sverrir
Íslensk-japanska félagið, heimspekideild Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, í samvinnu við Sendiráð Japans á Íslandi og Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation, standa fyrir málþingi um japanskt mál og menningarfærni í dag í stofu 101 í...

Íslensk-japanska félagið, heimspekideild Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, í samvinnu við Sendiráð Japans á Íslandi og Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation, standa fyrir málþingi um japanskt mál og menningarfærni í dag í stofu 101 í Odda. Dagskráin hefst kl. 14 og er aðgangur ókeypis, en þess má geta að málþingið fer fram á ensku. Að þingi loknu verða veitingar í boði Japanska sendiráðsins. Að sögn Gunnhildar Gunnarsdóttur, arkitekts og formanns Íslensk-japanska félagsins, er markmið málþingsins tvíþætt. "Í fyrsta lagi að beina sjónum að tengslum tungumáls og menningarinnar í víðari skilningi, en til að kynnast menningu þjóðar til hlítar er færni í tungumálinu einu sér ekki nægjanleg. Vilji menn ná raunverulegum tökum á tungu og menningu verður menningarfærni að koma til, skilningur og vitund um venjur, siði og hefðir. Í öðru lagi viljum við með málþinginu styðja við og efla nám í japönsku máli og menningu sem hófst við heimspekideild Háskóla Íslands haustið 2003."

Einn fjögurra fyrirlesara á málþinginu í dag er Yuri Shimizu, en hún er prófessor í japönsku við Kyushu-háskóla í Japan og hefur meira en tveggja áratuga reynslu í að kenna útlendingum japönsku. Spurð um hvað hún muni fjalla í erindi sínu segist Shimizu munu ræða í hverju erfiðleikarnir við að læra japönsku geta falist. "Í japönsku höfum við þrjár mismunandi leiðir til að tjá okkur við fólk, allt eftir því hversu vel við þekkjum viðmælendur okkar og hver þjóðfélagsstaða viðkomandi er. Allir nemar lenda einhvern tímann í vandræðum við að velja réttan talsmáta, sumir eru of formlegir, á meðan aðrir eru ekki nógu kurteisir," segir Shimizu og bendir á að það geti jafnvel verið verra að vera of kurteis en of óformlegur.

"Ef þú ert of kurteis skynja aðrir að þú metur stöðu fólks ekki rétt og þá verður allt sem þú gerir ómarktækt. Þér ber að sýna kennurum þínum kurteisi, en að sama skapi ættir þú að vera óformlegri í samskiptum við vini þína. Ef þú talar of formlega við vini þína ert þú að setja þá og kennara í sama flokk. Í tímans rás breytist talsmáli fólks eftir því sem það kynnist betur og tjáskiptin verða óformlegri. Ef þú heldur hins vegar áfram að tala jafnformlega við vini þína ert þú að gefa þau skilaboð að þú treystir þeim ekki og viljir ekki hleypa þeim of nálægt þér," segir Shimizu. "Ef þú skilur þetta fyrirbæri tjáskiptanna, hvort sem þú veldur því eða ekki, þá hjálpar þér það í samskiptum við Japani," segir Gunnhildur og leggur áherslu á að tjáningin liggi ekki aðeins í orðunum heldur einnig í tónfallinu og þögnunum milli orða, "enda getur þögnin sagt ótrúlega mikið."

Verið óhrædd við mistök

Aðspurð segir Shimizu japanska málfræði ekki sérlega flókna, þó að einhverjum finnist vafalaust erfitt að venjast því að orðaröðin sé þveröfug miðað við það sem Vesturlandabúar eiga að venjast. "Líklega er það samt táknkerfið sem er það flóknasta við japönsku, enda eru kínversku táknin útlendingum nokkuð framandi. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að kenna nýnemum að tala og hlusta. Lestur og skrif koma síðar." Á síðustu árum hefur Shimizu samið nokkrar kennslubækur sem hjálpa nemendum að læra kínversk tákn eða kanji eins og það nefnist. Spurð í hverju galdurinn við að læra kínversk tákn felist segir Shimizu kínversku táknin krefjast annarrar nálgunarleiðar.

"Í flestum evrópskum tungumálum eru sterk tengsl milli merkingar og hljóðs. Letur ykkar er hljóðfræðilegt, þannig að hver stafur og hljóð helst nánast alltaf óbreytt. Í kínverska letrinu eru táknin, hljóðin og merkingin breytilegt, þannig að þú þarft að sameina allt þrennt og kallar þetta því á allt annars konar námstækni," segir Shimizu og leggur áherslu á að mikilvægast sé þó fyrir nemendur að vera óhræddir við að gera mistök. "Lykilatriðið í allri tungumálakennslu er að vera óhræddur við að gera mistök því nemendur læra einmitt af mistökum sínum. Enginn sem lærir tungumál getur verið fullnuma frá fyrsta degi og því hvet ég nemendur mína til að vera óhrædda við að prófa og gera mistök. Það er betra að prófa og segja eitthvað vitlaust heldur en að vera algjörlega aðgerðalaus," segir Shimizu að lokum.

Auk Shimizu flytja erindi þau dr. Lone Takeuchi, prófessor í austurlenskum og afrískum fræðum við Lundúnaháskóla, dr. Kaoru Umezawa, sem kennir japönsku við heimspekideild HÍ, og Yoshihiko Iura, júdóþjálfari hjá Júdósambandi Íslands. Ólafur B. Thors, fyrrum aðalræðismaður Japans, setur málþingið, Úlfar Bragason, forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals og ritari Íslensk-japanska félagsins, er fundarstjóri og Hitoshi Abe, sendiráðunautur í Japanska sendiráðinu, mun ávarpa gesti málþingsins.