FJÓRAR listakonur, Helga Óskarsdóttir, Helga Þórsdóttir, María Pétursdóttir og Marta Valgeirsdóttir, opna sýningu í Gallerí Skugga, Hverfisgötu 39, kl. 16 í dag, laugardag.

FJÓRAR listakonur, Helga Óskarsdóttir, Helga Þórsdóttir, María Pétursdóttir og Marta Valgeirsdóttir, opna sýningu í Gallerí Skugga, Hverfisgötu 39, kl. 16 í dag, laugardag. Þær vinna í ólíka miðla en eru hver á sinn hátt að fjalla um samtímann eins og hann birtist þeim.

Þær útskrifuðust frá fjöltæknideild MHÍ á árunum1997 og 1998. Þær Helga og Marta luku báðar MA-námi frá Chelsea College of Art and Design í London og Helga lauk MA-námi frá École Nationale d'Arts Plastiques, Cercy-Pontoise, í París. Þær hafa tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis frá því námi lauk.

Sérstakur gestur sýningarinnar er félagsskapurinn Lorna, félag áhugamanna um raflist á Íslandi, og verður hópurinn með aðstöðu í kjallararýminu þar sem hann kynnir starfsemi sína.

Á opnuninni mun Berlínarbúinn Wolfgang Muller flytja tónlist af nýútgefnum diski sínum "Mitt Wittgenstein in Krisuvik". Hann hefur dvalið hér á landi árlega frá 1990 og er nú sem stendur gestakennari við Listaháskála Íslands.

Sýningunni lýkur sunnudaginn 4. apríl.