[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að undanförnu hafa myndir frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi verið í sviðsljósinu og komu mikið við sögu á Óskarnum í síðasta mánuði. Í tilefni þess hefur Háskólabíó sett upp þríréttaða kvikmyndaveislu sem hefst í dag.

AÐALRÉTTURINN er hin nýsjálenska Whale Rider , margslungin og seiðmögnuð mynd um þjóðsögu sem hefur lifað, mann fram af manni, meðal Maóríanna, frumbyggja eyjanna. Hin unga Keisha Castle-Hughes fer með aðallhlutverk höfðingjadóttur í nútímanum, sem sættir sig ekki við gamlar hefðir.

Voru geimfararnir blekking?

Hinar hátíðamyndirnar eru Gervihnattajarðstöðin - The Dish , og Betra en kynlíf - Better Than Sex , sem báðar koma frá Ástralíu.

The Dish gerist sumarið 1969, á þeim merkistímum er Neil Armstrong markaði fyrstur spor jarðarbúa á Tunglinu.Glæsilegur árangur áratuga undirbúningsvinnu af hálfu NASA og kostnaðurinn stjarnfræðilegur.

Eða hvað? Er ferðalag Apollo XI., blekking sem átti sér stað á sandorpnum auðnum Nýja-Suður Wales í Ástralíu?

"Sannleikurinn" kemur í ljós í gamanmyndinni The Dish, sem gerð er af Ástralanum Bob Sitch, með Nýsjálendinginn Sam Neill í aðalhlutverki. Myndin naut mikilla vinsælda á heimaslóðum og vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Toronto.

Hvað slær út kynlíf?

Betra en kynlíf - Better Than Sex, er gamanmynd um unga og fjöruga partígesti, Josh (David Wenham) og Cin (SusiePoerter), sem ákveða að eyða saman nóttinni. Þau eru harðákveðin að gera þetta eingöngu fyrir ánægjuna, Josh er á leið úr landi eftir fáeina daga og hún er einfaldlega þurfandi - rétt eins og hann.

Margt fer öðruvísi en ætlað er. Báðum þykir leikfimin góð - og sól rís og sól sest á næsta degi.

Myndin er frumraun leikstjórans og handritshöfundarins Jonathan Teplitzky og var tilnefnd til fjölda verðlauna áströlsku kvikmyndastofnunarinnar (AFI). David Wenham kemur m.a. við þrennuna um Hringadróttinssögu.

saebjorn@mbl.is